nóvember 2024

  • Kosningar framundan

    Nú líður að því að Íslendingar kjósi til Alþingis. Í mínum huga skiptir þá mestu máli fyrir kjósendur að velja það framboð sem líklegast er til að vilja framfylgja þeim stefnumálum sem þeir aðhyllast. Vill kjósandinn að í framtíðinni verði lögð áhersla á að atvinnustarfsemi í landinu verði í höndum einstaklinga sem bera sjálfir fjárhagslega ábyrgð á rekstri sínum? Eða vill hann fremur að sem mest starfsemi manna sé í höndum ríkisvaldsins og fjárins til hennar sé aflað með skattlagningu á borgarana?

    Í hinum frjálsa heimi hefur ævinlega sannast að rekstur undir merkjum einstaklinga sé miklu árangursríkari heldur en ríkisrekstur, þar sem ríkið stundar alls kyns starfsemi sem það ætti alls ekki að sinna. Að auki er mönnum ljóst að mannréttindi eru miklu betur virt og vernduð í hinum fyrrnefndu ríkjum sem vilja virða frelsi og ábyrgð einstaklinganna í atvinnulífinu auk þess sem slík afstaða er til þess fallin að draga úr skattbyrði borgaranna.

    Skafti Harðarson formaður Samtaka skattgreiðenda hefur birt lista yfir þá starfsemi sem ríkið hefur tekið í sínar hendur en ætti að láta einkaframtakið um. Ástæða er að beina því til kjósenda að kynna sér þennan boðskap og gera upp við sig hvort þeir vilji frekar hið frjálsa samfélag en samfélag ríkisafskipta og opinbers rekstrar. Flestir frjálshuga menn ættu ekki að eiga erfitt með að gera upp hug sinn.

    Þó að flestir framboðsaðilar séu með mjög svo flekkaðan feril í þessum efnum ættu kjósendur að skoða hug sinn um hverjir eru líklegastir til að starfa í þágu frelsisins í framtíðinni. Í kosningum felst nefnilega afstaða til þjóðfélagshátta í framtíðinni en ekki fortíðinni, þó að frammistaðan þá geti vissulega gefið vísbendingar um framtíðina. Kjósendur ættu samt að muna að flokkar sem hafa brotið gegn meintum frelsishugsjónum sínum gætu verið fúsir til að bæta ráð sitt í þessum efnum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Minningarorð um Þorstein

    Fallinn er nú frá sá maður sem ég hef haft hvað mest í hávegum á lífsferli mínum undanfarna áratugi, Þorsteinn Haraldsson löggiltur endurskoðandi. Hann hefur að undanförnu háð erfitt stríð við alvarleg veikindi sem nú hafa dregið hann til dauða.

    Á árunum fyrir 1980 rak ég, ásamt Baldri Guðlaugssyni lögmanni og Sverri Ingólfssyni endurskoðanda, skrifstofu undir heitinu Lögmanns- og endurskoðunarstofa. Var hún staðsett á efstu hæð hússins Lækjargata 2, þar sem Nýja bíó var til húsa á neðstu hæð. Þetta hús brann síðar og er horfið af vettvangi. Á árinu 1980 kom Þorsteinn Haraldsson til liðs við okkur og varð hann fjórði eigandi stofunnar.  Ég áttaði mig fljótlega á því að þarna fór einstakur afbragðsmaður og hefur hann verið náinn vinur minn alla tíð síðan. Þorsteinn bar með sér ferskan blæ og var drífandi við að koma á breytingum og lagfæringum á umhverfi okkar. Man ég sérstaklega eftir tvennu sem hann átti allan heiður af. Skipt var um peru á salerninu en gamla peran var ónýt þegar Þorsteinn kom til liðs við okkur og hafði svo staðið um nokkra hríð. Einnig stóð hann fyrir því að við festum kaup á heilli hæð í húsinu að Skólavörðustíg 12, innréttuðum hana undir hans stjórn og fluttum stofuna þangað. Af þessu hvoru tveggja varð mikil bragarbót eins og nærri má geta. Kannski sýnir þessi upprifjun á tveimur ólíkum málum forystuna sem hann tók í öllu því sem varðaði rekstur okkar og velferð.

    Við Þorsteinn urðum strax nánir persónulegir vinir. Náði sú vinátta langt út fyrir verkefni stofunnar okkar. Man ég til dæmis vel eftir því hvernig hann hvatti mig áfram til góðra verka við að tjá mig opinberlega um það sem ég taldi að betur mætti fara í réttarkerfinu og raunar stjórn þjóðfélagsins á þeim árum sem liðin eru frá því að við kynntumst. Hefur staðið svo allt fram á þennan dag.

    Sjálfur skrifaði hann bókina „Afglöp og spilling“, sem kom út á árinu 2020 og fjallaði um misnotkun valdsmanna í skattkerfinu, sem af einhverjum annarlegum ástæðum lögðu ekki háa skatta á tekjur af fjármálaumsvifum tiltekinna stórfyrirtækja. Var Þorsteini þá vegna málsins vikið úr starfi sínu hjá skattrannsóknarstjóra, þó að athugasemdir hans við þessa misnotkun hefðu ekki verið hraktar. Voru honum dæmdar bætur í Hæstarétti fyrir ólögmæta uppsögnina með dómi réttarins 14. október 2014. Þeir yfirmenn í skattkerfinu sem sekir voru um þessa valdníðslu voru hins vegar aldrei látnir bera ábyrgð á framferði sínu. Dæmigert fyrir Ísland eða hvað?

    Ég er Þorsteini Haraldssyni eilíflega þakklátur fyrir vináttu hans, stuðning og hvatningu gegnum árin.

    Eiginkona Þorsteins er Lára Júlíusdóttir lögmaður. Er aðdáunarvert  hvernig hún hefur stutt hann og hjálpað í veikindunum að undanförnu. Ég heimsótti hann fyrir nokkrum dögum og sá með eigin augum þá umönnun sem hann fékk í þeim alvarlegu veikindum sem hann barðist við og hversu mikinn stuðning Lára veitti honum vakandi og sofandi. 

    Við Kristín og börnin okkar þökkum Þorsteini af alhug fyrir kynnin á undanförnum áratugum og vottum Láru og fjölskyldunni innilega samúð.

    Jón Steinar Gunnlaugsson

  • Api í framan

    Mér finnst rétt að deila með vinum mínum á fasbókinni frásögn af eftirminnilegum atburði frá því í árdaga þegar ég vann á Mogganum en það var fyrsta starfið mitt eftir lögfræðipróf haustið 1973.

    Aftan við hús blaðsins við Aðalstræti háttaði svo til að lítið port var þar með nokkrum bílastæðum. Innkeyrslan í þetta port var þröng og komst ekki nema einn bíll þar um í einu. Umrætt sinn hafði ég komið til starfa snemma á laugardagsmorgni og lagt mínum gamla en stolta Fólksvagni þarna í portinu.

    Þegar ég ætlaði að halda á brott undir hádegi kom í ljós að einhver bíleigandi hafði lagt bíl sínum í miðja innkeyrsluna og lokað þannig af fjóra eða fimm bíla fyrir innan, meðal annars minn. Nú voru góð ráð dýr. Ég ákvað að fara aftur inn á ritstjórnina og athuga hvort ég kæmi auga á einhvern sem þarna gæti átt hlut að máli. Ól ég ekki miklar vonir í brjósti um árangur, enda húsið sjö eða átta hæðir og allt eins víst að bílskúrkurinn væri annars staðar í húsinu.

    En viti menn. Inni á einum blaðamannabás Moggans sat og skrafaði maður sem greinilega var gestkomandi. Ég kom í dyrnar og spurði hvort hann ætti bílinn fyrir aftan húsið. Hann játti því. Bað ég manninn að koma út og færa bílinn svo að ég kæmist á brott. Svo fór ég og settist undir stýri á Fólksvagni mínum.

    Þegar maðurinn kom út stuttu síðar hafði ég skrúfað niður rúðuna hjá mér, hallaði mér út og ávarpaði manninn: „Hvernig dettur þér í hug að leggja bílnum þínum svona maður minn?“ Erfitt var að ímynda sér að maðurinn ætti svar sem dygði við þessari fyrirspurn svo fráleit var sú háttsemi hans að leggja bíl sínum í innkeyrsluna. En hann fann rétta svarið. Hann gekk að bílnum mínum og horfði smástund niður á ásjónu mína sem stóð hálf út um rúðuopið og sagði: „Heyrðu, þú ert nú eins og api í framan.“ Síðan snerist hann á hæli, settist upp í sinn bíl og ók á brott.

    Ég er enn að velta því fyrir mér hverju ég hefði átt að svara.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður