október 2024

  • Hulda Björg

    Kannski vita vinir mínir á Fasbókinni að ég er sjálfur hættur lögmannsstörfum. Á fyrrverandi skrifstofu minni starfar nú afbragðsgóður lögmaður, dóttir mín Hulda Björg Jónsdóttir, héraðsdómslögmaður. Hún var að skila af sér verkefni sem kallaði á hæfni og yfirvegun. Viðskiptavinurinn, sem hafði fyrst leitað til mín, sendi mér svofellda orðsendingu:

    „Takk kærlega fyrir að benda mér á hana Huldu Betri manneskju í sínu starfi hef ég ekki hitt“

    Þeir sem vilja leita til hennar geta snúið sér til stofunnar „JSG-lögmenn“ og er staðsett á Skólavörðustíg 12, Reykjavík. Sími hennar er 694-2586.

    Hún leitar svo til mín ef hún þarf að virkja reynslu gamla mannsins, en þau tilvik hafa verið fátíð.

    Hulda er ekki ennþá orðin vel þekkt af störfum sínum svo ég vil hjálpa til með því að benda vinum mínum á hana ef þeir þurfa á lögmannsaðstoð að halda. Þeir mega þá vera vissir um að þeim verður tekið af háttvísi og að unnið verður að verkefnum fyrir þá af hæfni og góðri þekkingu.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Kær vinur

    Fyrir mörgum árum var Gylfi Baldursson, heyrnar- og talmeinafræðingur, makker minn í hinu göfuga brids-spili. Eins og margir muna sjálfsagt eftir var Gylfi fatlaður og komst ekki ferða sinna nema í hjólastól. Ekki sáust samt neinir harmar í fari Gylfa af þessum sökum. Þvert á móti var hann einstaklega skemmtilegur maður með létta lund og fljótur til svars ef á þurfti að halda. Gylfi er nú látinn. Við gætum öll lært af viðbrögðum hans við atburðum líðandi stundar og hvernig hann létti sjálfum sér og öðrum lífshlaupið með léttri lund sinni og snörpum viðbrögðum við því sem fyrir hann bar.

    Það gerðist til dæmis einu sinni að sumarlagi að Gylfi leitaði hressingar á heilsuhæli sem rekið var á Reykjalundi. Þegar hann kom þangað var honum sagt að hann væri velkominn, en sjúkraþjálfarar gætu ekki sinnt honum að þessu sinni. Þeir væru flestir í fríi og þess vegna væri enginn tiltækur til að sinna honum. Hann gæti þess í stað lagst inn í nokkra daga og fengið heita bakstra sem talið var að myndu hressa hann við. Þáði hann það. Var honum vísað inn á herbergi þar sem hann skyldi hafast við meðan á meðferð hans stæði.

    Þegar Gylfi hafði komið sér fyrir, sat hann í hjólastólnum fyrir framan vistherbergið og beið þess að vera sinnt. Eftir dálitla stund kom starfskona stormandi inn ganginn þar sem Gylfi sat. Stöðvaði hún för sína hjá honum og ávarpaði hann: „Vildir þú heita bakstra?“ Hann svaraði að bragði: „Nei ég vildi nú bara fá að heita Gylfi áfram“.


    Eitt sinn vorum við félagarnir þátttakendur í háalvarlegu bridsmóti. Þegar kaffihlé var gert á spilamennskunni sátum við saman við kaffiborð og ræddum slæm örlög okkar í síðasta spili fyrir hlé. Vorum við ekki alveg sammála um framvindu mála í spilinu. Gylfa leiddist ruglð í makkernum og ávarpaði hann þessum orðum: „Jón minn! Þú þarft ekki að óttast að þú kafnir þó að þú lokaðir á þér munninum augnablik.“ Var málið þar með útrætt.

    Það léttir manni lífshlaupið að hafa fengið að njóta vináttu og samvista við þennan gáfumann sem Gylfi var. Hann andaðist 17. júlí 2010.

    Blessuð sé minning hans.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Kosningar framundan

    Ég hef sagt frá því áður hér á fasbókinni að ég hafi jafnan kosið Sjálfstæðisflokkinn í alþingiskosningum. Ástæðan er sú að mér hefur fundist hann standa nær afstöðu minni til frelsis og ábyrgðar en aðrir flokkar hafa gert. Ég hef séð að þetta er eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem hefur í orði sett í öndvegi stefnumál sem hafa best fallið að mínum.

    Nú hefur hins vegar hlaupið snurða á þráðinn. Þessi flokkur hefur um langan tíma verið í samvinnu við ofstækisfullan vinstri flokk, Vinstri græna, og látið hann ráða allt of miklu um stjórn landsins. Í fyrrnefndri grein minni nefndi ég til sögunnar ýmis dæmi um þetta, þ.m.t. hrein lögbrot sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur látið þennan samstarfsflokk komast upp með og það án þess að gera einu sinni skilmerkilega grein fyrir andstöðu sinni við þau. Nú er svo komið að mikill fjöldi stuðningsmanna flokksins hefur sagt skilið við hann og kveðst vilja í kosningunum framundan fremur styðja aðra flokka. Hafa sumir, sem ég hef talið til skoðanabræðra minna, jafnvel fallist á að taka sæti á framboðslistum þeirra.

    Hvað skal gera í þessari stöðu? Enginn annar flokkur hefur sett í stefnuskrá sína þau málefni sem ég hef talið tilheyra hugsjónum mínum í pólitík. Þó að Sjálfstæðisflokkurinn hafi í reynd svikið þau í stórum stíl á undanförnum árum er hann samt eini flokkurinn sem segist vilja hafa þau í öndvegi á veginum framundan. Er ekki annað að sjá að hann hafi nú áttað sig. Segist hann núna vilja bæta ráð sitt og setja á ný málefni frelsis og ábyrgðar í öndvegi stefnu sinnar. Enginn annar flokkur hefur gert þessa hugsjón að grundvelli sinnar stefnu og engan þeirra get ég af þeirri ástæðu hugsað mér að styðja.

    Í þeirri stöðu sem upp er komin hef ég því ákveðið að treysta því að minn gamli flokkur vilji nú af einlægum huga bæta ráð sitt og taka á ný að upp stefnumál sín sem á fyrri tíð hafa aflað honum meira fylgis en aðrir flokkar hafa notið. Ég hef því ákveðið fyrir mitt leyti að kjósa hann og gefa honum nýtt tækifæri. Í því efni er ekki öðrum til að dreifa. Önnur framboð eru öll af því tagi að ég get ekki hugsað mér að styðja þau því reynsla mín segir mér að þeim sé ekki treystandi til að berjast fyrir þeim málefnum sem ég hef sett í öndvegi í mínu lífi.

    Það kemur því að mínum dómi ekki annað til greina, en að gefa þessum fyrrverandi flokki mínum tækifæri á ný í þeirri von að hann hafi nú lært af reynslunni og muni ekki í framtíðinni svíkja þá stefnu sem hann segist ennþá vilja hafa í öndvegi, þrátt fyrir svikin við þau á undanförnum árum. Ég mun því krossa fingur og krossa við Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum framundan.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Misheppnaður stjórnmálamaður

    Að undanförnu höfum við fengið að fylgjast með einhverjum misheppnaðasta stjórnmálamanni síðari tíma. Þar á ég við Svandísi Svavarsdóttur sem nú er orðin formaður Vinstri-grænna. Fyrir nokkrum dögum sagði þessi formaður að hún og flokkur hennar vildi halda áfram stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokki og Framsókn undir stjórn Bjarna Benediktssonar fram á vor en þá vildi hún að þing yrði rofið og boðað til kosninga. Hún virtist telja sig hafa vald til að ákveða líftíma ríkisstjórnarinnar og tímasetningu kosninga. Aðallega er hún samt einfaldlega ofstækisfullur vinstri maður.

    Nú þegar Bjarni forsætisráðherra hefur ákveðið að rjúfa þingið strax og kjósa í lok nóvember, fer Svandís á límingunum. Nú vill hún ekki einu sinni sitja í starfsstjórn með manninum sem hún vildi um síðustu helgi vinna með fram á vor í fullgildri ríkisstjórn. Hún segir sig núna frá því að setjast í starfsstjórnina, þó að föst hefð sé fyrir því að fráfarandi stjórnarflokkar sinni þeirri skyldu þegar þing er rofið. Aldrei hefur nokkur annar flokkur hagað sér þannig.

    Þegar Svandís kemur fram í fjölmiðlum er hún ávallt uppfull af hroka og yfirlæti, þó að hún hafi svo sannarlega engin efni á því. Með þessari framkomu virkar hún fráhrindandi á kjósendur. Það eru sýnilega hrein mistök flokks hennar að hafa valið hana til forystu og það rétt fyrir kosningar, þegar stjórnmálamenn hafa hagsmuni af því að laða kjósendur að sér fremur að hrinda þeim frá sér.

    Á undanförnum árum hefur þessi stjórnmálamaður oftsinnis brotið vísvitandi lagalegan rétt á mönnum og er stöðvun hvalveiða skýrasta dæmið um það. Hefur hún þá bakað ríkissjóði, eða öllu heldur almenningi í landinu, skaðabótaábyrgð sem mun valda háum bótagreiðslum. Segja má að hún skeyti hvorki um skömm né heiður, því hún hefur í reynd hafnað því að gegna starfi sínu á þann hátt að virða lagalegar skyldur sínar, eins og alþingismönnum ber að gera. Ef hún heldur að framkoma hennar dragi að sér kjörfylgi er það mikill misskilningur. Flestir kjósendur hafa hreina óbeit á stjórnmálamönnum sem haga sér eins og hún hefur gert. Það er óskandi að flokkur hennar þurrkist út af Alþingi í kosningunum framundan.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Ofbeldi

    Var það ekki sumarið 2023, sem Svandís, þá matvælaráðherra, beitti fyrirtækið Hval hf. ólögmætu ofbeldi með því að stöðva hvalveiðar fyrirtækisins degi áður en vertíðin átti að hefjast? Þetta fyrirtæki hafði stundað þessar veiðar um margra áratuga skeið og fjárfest í búnaði og starfsmönnum fyrir háar fjárhæðir.

    Lög kveða á um að leyfi þurfi til að mega stunda hvalveiðar. Fyrirtækið hafði fengið slíkt leyfi m.a. til að stunda veiðarnar á vertíðinni 2023. Enginn vafi var á að háttsemi ráðherrans braut freklega lagalegan rétt á fyrirtækinu.

    Í ljós kom að ráðherranum var ljóst að þessi aðgerð var ólögmæt og þar með myndi hún valda ríkissjóði (skattgreiðendum) fjártjóni sem nema myndi svimandi háum fjárhæðum. Ráðherrann vísaði aðeins til huglægra sjónarmiða sinna um að stöðva ætti hvalveiðar við landið. Ljóst var og er að þeim sjónarmiðum verður ekki framfylgt nema með lagabreytingum sem heyra undir löggjafarvaldið en ekki ráðherra.

    Það lá sem sagt fyrir að með athæfi sínu braut ráðherrann vísvitandi lögverndaðan rétt þessa fyrirtækis. Ekki var samt hróflað við ráðherranum úr embætti. Þar með tóku ríkisstjórnarflokkarnir að sínu leyti ábyrgð á þessari ólögmætu aðgerð, þ.m.t. Sjálfstæðisflokkurinn. Væri ráðherranum ekki vikið úr embætti fyrir þessar sakir, hefðu þær þegar í stað átt að valda slitum á stjórnarsamstarfi þeirra flokka sem mynduðu ríkisstjórn með flokki ráðherrans, Vinstri-grænum.

    En það virðist vera gjaldgeng aðferð ráðandi flokka í ríkisstjórn á Íslandi að una framferði ráðherra sem allir vita að er ólögmætt og muni valda ríkissjóði háum bótagreiðslum. Þetta segir ófagra sögu af stjórnarfari í landinu.

    Hafi ofbeldisfullur flokkur völd virðist hann geta beitt þeim ólöglega til að koma fram stefnumálum sínum í stað þess að freista þess að fá lögum breytt á Alþingi. Þessari valdbeitingu gegn hvalveiðum virðist hafa verið viðhaldið á þessu ári. Vegur Svandísar hefur nú vaxið því hún hefur verið kosin formaður stjórnmálaflokksins sem hýsir hana. Og ennþá situr hún í ríkisstjórninni.

    Niðurstaðan er sú að það sé gjaldgeng aðferð í stjórn landsins að brjóta rétt á borgurum á kostnað almennings til að koma fram hugðarefnum sínum. Ætli svona framferði yrði látið óátalið í öðrum ríkjum sem vilja kenna stjórnarfar sitt við lögmæti? Svari nú hver fyrir sig.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Flokkur frelsis og ábyrgðar?

    Ég hef jafnan í alþingiskosningum kosið Sjálfstæðisflokkinn. Ástæðan er sú að mér hefur fundist hann standa nær afstöðu minni til frelsis og ábyrgðar en aðrir, auk þess sem flokkurinn hefur haft uppi stefnumið í ýmsum málum, sem mér hafa þótt burðugri en annarra.

    Nú eru mér hins vegar að fallast hendur í stuðningi við þennan flokk. Hann hefur nefnilega hreinlega fórnað mörgum stefnumálum í þágu samstarfs í ríkisstjórn með verstu vinstri skæruliðum sem finnast í landinu. Það er eins og fyrirsvarsmenn flokksins hafi verið tilbúnir til að fórna stefnumálum sínum fyrir setu í ríkisstjórn. Þá má spyrja: Til hvers eru menn í stjórnmálum ef þeir eru ekki að koma fram þeim stefnumálum sem þeir segjast hafa?

    Kosningar eru framundan. Í ljós kemur í fylgiskönnunum að flokkurinn, sem ég og fjölmargir aðrir hafa stutt, muni gjalda afhroð. Að mínum dómi kemur ekki annað til greina en skipta gersamlega um kúrs og byggja kosningabaráttuna á þeim stefnumálum, sem við mörg héldum að þessi flokkur ætti að standa fyrir.

     

    Þessi eru helst:

    Orkuvirkjanir. Þjóðin á marga kosti á að virkja fallvötn og jarðhita til raforkuframleiðslu. Framkvæmdir í þessum efnum hafa legið niðri árum saman vegna mótþróa samstarfsmanna í ríkisstjórn.

    Málefni sem varða heimildir erlendra manna til að koma til landsins og festa hér búsetu. Að vísu hafa verið gerðar breytingar á lögum í því skyni að ná taki á þessum málaflokki. En þegar á reynir í einstökum málum virðist flokkurinn styðja frávik frá lögunum án heimilda til að þóknast þeim sem hæst láta hverju sinni.

    Heilbrigðismál. Hefja verður öfluga einkavæðingu heilbrigðisstofnana.

    Fullveldi landsins. Nú sjást merki um að fyrirsvarsmenn flokksins vilji standa fyrir löggjöf sem skerðir fullveldi þjóðarinnar með alvarlegum hætti.

    Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda sýndi nýverið opinberlega fram á að fyrirsvarsmenn ríkisins hafa á undanförnum árum nýtt stórfé úr ríkissjóði til að stofna til margháttaðrar starfsemi á vegum ríkisins, sem alls ekki ættu að vera á verkefnalista þess. Þessari þróun verður að snúa við með því m.a. að leggja slíkar stofnanir niður í stórum stíl.

    Gera verður raunverulegt átak í lækkun skatta, t.d. með því að leggja niður sérskatta sem úir og grúir af í landinu. Þessu gæti tilheyrt að láta einkaaðila annast starfsemi á ýmsum sviðum og heimila þeim að fjármagna starfsemina með gjaldtöku af þeim sem nýta hana.

    Gera verður raunverulegt átak í að styrkja séreignarétt borgara á Íslandi á íbúðarhúsnæði.

    Fyrir liggur að gera þarf átak í samgöngumálum. Það ber að fjármagna svo sem unnt er með því að láta þá sem nýta mannvirki á því sviði bera kostnaðinn í miklu meiri mæli en nú er.

    Ríkinu ber að hætta rekstri fjölmiðla, m.a. með því að selja ríkisútvarpið og hætta að greiða ríkisstyrki til annarra fjölmiðla.

    Hætta ber fjáraustri í loftlagsmál, sem engu skilar.

    Huga þarf að endurbótum í menntakerfinu, m.a. að endurvekja samræmd próf í grunnskólum.

    Binda þarf endi á aðgang boðbera svokallaðra „hinsegin“ fræða að skólum.

    Fleira mætti telja en hér skal látið staðar numið að sinni.

     

    Það hlýtur svo að teljast nauðsynlegur þáttur í endurreisn flokksins að endurnýja í stórum stíl forystuna. Það er auðvitað augljóst að kjósendur geta ekki treyst núverandi forystumönnum til að hrinda í framkvæmd ofangreindum verkefnum.

    Framangreind stefnumið ber að setja fram með öflugum hætti í kosningabaráttunni sem framundan er. Gera má ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn muni þá allt að einu gjalda fyrir brot á stefnumálum sínum undanfarin ár. Þetta myndi hins vegar gefa fyrirheit um stuðning kjósenda þegar fram í sækir.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður