ágúst 2024

  • Fróðlegir hlaðvarpsþættir

    Haustið 2021 gerði sá mæti þjóðfélagsrýnir, Björn Jón Bragason, 6 hlaðvarpsþætti með viðtölum við mig um ástand mála í Hæstarétti og aðgerðir sem gera þyrfti til að endurbæta starfsemi réttarins. Báru þættirnir nafnið „Það skiptir máli“ og hafa að geyma ítarlega lýsingu á því sem aflaga hefur farið í starfsemi réttarins á undanförnum árum og til hvaða ráðstafana ætti að grípa til endurbóta. Hægt er að ná í þessa þætti á hlaðvarpi Morgunblaðsins.

    Svona hlaðvarpsþættir fela í sér nýjung á sviði umfjöllunar um þjóðfélagsmál og gefa tækifæri til fjalla af mun meiri nákvæmni um þau en unnt hafði verið áður. Áhugamenn um ástand dómsmálanna sem ekki hafa hlustað á þætti okkar Björns Jóns ættu nú að bregða undir sig þeim fæti sem þeim þykir bestur og hlusta á þá.

    Nú hefur annar vandaður þáttagerðarmaður, Snorri Másson, gert hlaðvarpsþátt með viðtali við Björn Jón sem ástæða er til að hvetja menn til að hlusta á. Þar er fjallað um marga þætti þjóðfélagsmálanna af þekkingu og viti sem báðir þessir menn eru þekktir fyrir og þora að hafa skoðanir á. Það er því rík ástæða til að hvetja menn til að hlusta á þáttinn og hlusta á fróðleik sem er hafinn yfir dægurþrasið sem daglega er hellt yfir okkur. Hafið þökk fyrir drengir.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Vinátta

    Það er varla ofsagt að góðir vinir eru hverjum manni nauðsynlegir. Sérstaklega á þetta við um þá sem þora að segja manni til syndanna þegar við á.

    Ég hef verið heppinn, því ég á fjölmarga vini og hika sumir þeirra ekki við að segja mér löst á skoðunum mínum og háttsemi og gefa mér því tilefni til að bæta mig. Til dæmis er ég oft of orðhvass og tel það stundum fela í sér hreinskilni sem þjónar þörfum þeirra sem um er rætt. En þá kemur stundum til þess að góður vinur segir mig hafa gengið of langt; lengra en þörf krefji og hafi ég þá sært þann sem fyrir verður án þess að nokkur þörf hafi verið á því. Sé þetta tilfellið þarf ég stundum að bæta ráð mitt og biðja þann sem fyrir hefur orðið afsökunar á framkomu minni.

    Sönn vinátta þjónar ekki alltaf þeim tilgangi að samsinna vininum í því sem hann hefur sagt eða látið frá sér fara, eins og svo margir gera. Á stundum getur slíkur stuðningur samt verið styrkur fyrir þann sem í hlut á. Sönn vinátta felst hins vegar ekki í að taka jafnan undir sjónarmið vinarins. Það er oftast misskilningur. Verðmætasti vinurinn er sá sem segir manni löst á framgöngu manns.

    Í reynd má segja að sjálft lýðræðið feli í sér þá skipan að mismunandi sjónarmið manna séu ekki bara eðlileg heldur einnig æskileg. Þeir sem eru ósammála um eitthvert málefni skiptist þá á skoðunum með friðsælum hætti og freista þess þá að hafa uppbyggileg áhrif á hinn. Segja má að slíkt feli oftast í sér umburðarlyndi og sanngirni sem tilheyrir sannri vináttu.

    Margir eiga hins vegar erfitt með að fylgja þessum viðhorfum. Þeir forherðast þá oft í meiningu sinni og eru þess ekki fúsir að slaka á þó að þeim sé sýnt fram á veilur í hugsunum sínum og ályktunum. Margir minna bestu vina gegnum tíðina hafa verið menn sem eru kunnir af því að vera á öndverðum meiði við mig í afstöðu til þjóðfélagsmála án þess að slík viðhorf hafi spillt vináttu þeirra við mig. Þeir hafa þá haft yfir þeirri skaphöfn að ráða að geta bent mér, sjálfumglöðum manninum, á að ég hafi farið villur vegar og þá oft sýnt öðrum óbilgirni. Fyrir slíkar ábendingar er ég þakklátur, þó að stundum geti reynst erfitt að fara eftir þeim.

    Svo eru líka þeir sem taka á ósamlyndi við aðra með því að forðast samneyti við þá og hætta jafnvel tala við þá. Stundum getur það verið vegna þess að þeir vita ekki hvernig þeir eigi að rökstyðja sín öndverðu sjónarmið og þá sé þögn og samskiptaleysi besta lausnin. Slíka háttsemi ættu allir að forðast.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Endurbætur á Hæstarétti

    Lagareglur um starfsemi Hæstaréttar er að finna í lögum um dómstóla nr. 50/2016. Þessi lagaákvæði þarfnast endurbóta og eru eftirtaldar breytingar þýðingarmestar:

    Í fyrsta lagi ber að fækka dómurum réttarins í fimm en þeir eru núna sjö talsins. Við stofnun Landsréttar minnkaði starfsálagið Hæstarétti svo að það varð aðeins 20-30% af því sem verið hafði. Eftir það var engin þörf á að dómarar réttarins yrðu fleiri en fimm og hefði það raunar verið vel í lagt.

    Í öðru lagi ber að breyta reglum um skipan nýrra dómara, a.m.k. þannig að tryggt sé að sitjandi dómarar og kunningjahópur þeirra hafi þar engin áhrif. Samkvæmt 14. gr. stjórnarskrárinnar skulu ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, eins og komist er að orði. Enginn vafi er á að skipun nýrra dómara fellur samkvæmt þessu undir dómsmálaráðherra. Hann (hún) er hins vegar núna nánast áhrifalaus um þetta.

    Í þriðja lagi ætti að breyta reglum um atkvæðagreiðslur, þannig að dómarar greiddu hver um sig skriflega atkvæði um niðurstöður dómsmálanna. Þessi háttur yrði til þess fallinn að stuðla að persónulegri ábyrgð dómaranna við dómsýsluna og veitir ekki af. Þetta þekkist víða erlendis við æðstu dómstóla viðkomandi landa. Með breytingu á þessu myndi draga úr samningum milli dómaranna um niðurstöður, en upplýst hefur verið að það teljist nú um stundir ríkjandi sjónarmið innan réttarins að ná slíkum samningum fremur en að hver og einn dómari greiði atkvæði eftir eigin sannfæringu.

    Dómsmálaráðherra ætti að flytja lagafrumvarp um þessar breytingar, þó að dómararnir við réttinn segist vera andvígir þeim, líklega vegna þess að þeir vilja eiga náðuga daga. Ráðherrann veit að ákvörðunarvaldið í ráðuneytinu er í hennar höndum en ekki embættismanna sem ganga erinda dómaranna. Breytingarnar myndu draga úr kostnaði ríkissjóðs auk þess að verða liður í þeirri andlitslyftingu sem ríkisstjórnin þarfnast sárlega um þessar mundir.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður