júlí 2024

  • Gullbrúðkaup

    Við hittumst fyrst haustið 1972. Hún var þá 19 ára og ég 24. Við urðum ástfangin og fljótlega lá fyrir að samband okkar yrði varanlegt. Við giftum okkur 27. júlí 1974. Fyrr á því ári hafði elsti sonur okkar Ívar Páll fæðst og var hann skírður við athöfnina í kirkjunni. Síðan höfum við eignast fjögur börn, Gunnlaug 1976, Konráð 1984, Huldu Björgu 1986 og Hlyn 1988. Barnabörnin eru orðin 15 talsins.

    Kristín hefur borið hitann og þungann af uppeldi barna okkar, þó að ég hafi auðvitað líka sinnt því verkefni með henni. En hún er eins og hún hafi verið sköpuð til að annast um alla þessa afkomendur okkar og reyndar mig líka. Þau sjá ekki sólina fyrir henni og ég ekki heldur. Hún hefur líka gætt að heilsu minni alla tíð og fékk mig m.a. til að hætta að drekka í maí 1979 og að reykja haustið 1980. Svo hefur hún staðið með mér og stutt mig í umfangsmiklum skrifum mínum, hvort sem er í bókum eða blaðagreinum, lesið allt yfir, komið með ábendingar um efnið og lagfært stafsetningu og rithátt.

    Í dag eru liðin 50 ár frá því að við giftumst og telst það orðið gullbrúðkaup. Það er mikil lífsgæfa að eignast förunaut eins og hana um lífsins daga. Ég hef notið þeirrar gæfu öll þessi ár og er jafn ástfanginn af henni eins og í árdaga, þó að samband okkar hafi auðvitað breyst með árunum, eins og gerist sjálfsagt hjá yfirleitt öllum hjónum. Forsjónin hefur verið okkur afar hliðhöll öll þessi ár.

    Ég færi lífsástinni minni þakklæti fyrir lífshlaup okkar saman og vonandi eigum við ennþá einhver ár eftir í félagi hvort við annað og okkar myndarlega ættboga.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Látið undan hagsmunakröfum

    Skafti Harðarson formaður Samtaka skattgreiðenda hefur sýnt fram á að fyrirsvarsmenn ríkisins hafa á undanförnum árum nýtt stórfé úr ríkissjóði til að stofna til óþarfrar starfsemi á vegum ríkisins. Deildi ég nýlega á fasbókinni viðtali við hann á Bylgjunni þar sem hann gerir sannfærandi grein fyrir þessu. Oftast eru það hagsmunaaðilar á viðkomandi sviði sem krefjast þess að ríkið standi að ákvörðunum um slíkt. Og þá er oft látið undan slíkum kröfum. Er nú svo komið að stór hluti þjóðarinnar vinnur hjá ríkinu við óþörf störf sem kosta skattgreiðendur stórfé.

    Ég hef látið mig starfsemi Hæstaréttar varða á undanförnum árum. Landsréttur hóf starfsemi á árinu 2018 til að létta álagi af Hæstarétti sem þá var allt of mikið. Við breytinguna varð svo sannarlega dregið úr þessu álagi. Í grein sem ég skrifaði á fasbókina 18. apríl á þessu ári („Lystisemdir dómara á kostnað skattgreiðenda“) tók ég saman tölur úr ársskýrslum Hæstaréttar sem sýndu að málum sem rétturinn hafði sinnt eftir breytinguna fækkaði um 80-90 prósent frá því sem áður hafði verið. Samt var dómurum við réttinn aðeins fækkað um tvo, úr níu í sjö, í stað þess að fækka þeim í fimm eins og þeir höfðu lengst af verið áður en sprenging varð í fjölda málanna á síðari hluta síðustu aldar. Lá fyrir að hér var verið að láta undan kröfum dómaranna sjálfra. Taldi ég það vera hreinlega hneykslanlegt að stjórnvöld og löggjafi skuli hafa látið undan þessum kröfum. Þessir hátekjumenn ríkisins hafa síðan bæði getað bætt við sig öðrum vel launuðum störfum, oft hjá ríkinu, og spókað sig í skemmtiferðum til útlanda. Þetta gerist á kostnað skattgreiðenda og nemur óþarfur kostnaður af þessum sökum mörgum tugum milljóna á ári. Þetta er einfalt og augljóst dæmi um þá meðferð á ríkisfé sem Skafti Harðarson hefur bent á.

    Það er löngu kominn tími til að stjórnendur í landinu hætti að láta undan kröfum hagsmunaaðila um aukin ríkisútgjöld þeim sjálfum til handa. Landsmenn ættu að taka kröftuglega undir þau sjónarmið sem Skafti Harðarson hefur talað fyrir og taki nú að draga úr útgjöldum ríkisins í stað þess að auka þau. Kannski einstakir flokkar eins og Sjálfstæðisflokkurinn séu að tapa fylgi sínu núna vegna undanlátsemi við hagsmunakröfur ríkisstarfsmanna um útgjöld úr ríkissjóði.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Úr eftirmælum

    Ég hef að undanförnu birt hér á fasbókinni ljóð úr ljóðabókinni „Illgresi“ eftir Örn Arnarson, sem ég tel fremstan íslenskra ljóðskálda. Við ættum sem flest að kynna okkur ljóð hans. Hér kemur eitt enn sem ber heitið „Úr eftirmælum“:

    Hefur göngu æskan ör
    Árla lífs á degi,
    sýnist ævin unaðsför
    eftir sléttum vegi,
    skilur ei, að kuldakjör
    koma á daginn megi.
    Haustsins þungu kröm og kör
    kennir vorið eigi.

    Þreyta merkir hár og hár
    hvítt, er líður vorið.
    Sljóvgar auga tár og tár.
    Tæmist æskuþorið.
    Allir hljóta sár og sár,
    svo að þyngir sporið.
    Leggst við baggann ár og ár,
    uns menn fá ei borið.

    Mörgum þykir vel sé veitt,
    vinnist gullið bjarta,
    láta í búksorg ævi eytt,
    ágirndinni skarta.
    En þeir flytja ekki neitt
    yfir djúpið svarta.
    Þangað fylgir aðeins eitt:
    ást frá vinarhjarta.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Verkefni Alþingis

    Fyrir nokkru birti ég hér á síðu minni greinarkorn um ástæðuna fyrir því að almenningur á Íslandi nýtur betri lífskjara en fólk sem býr í mörgum öðrum ríkjum. Þar væru stærstu áhrifavaldarnir sæmilegt frelsi í viðskiptum (kapítalismi) og réttarvernd sú sem tiltölulega sjálfstæðir dómstólar veita.

    En þar með er ekki öll sagan sögð, þar sem fyrir liggur að íslenska ríkið hefur sólundað skattfé borgaranna í alls kyns starfsemi sem ekkert hefur með þau verkefni að gera sem eðlilegt er að ríkið leggi stund á. Í viðtali í morgunþætti Bylgjunnar 1. júlí s.l. fjallaði Skafti Harðarson formaður Samtaka skattgreiðenda um grein sem hann skrifaði í Viðskiptablaðið 19. júní s.l. Þar fjallar hann um þetta. Það hafa líka fjölmargir aðrir Íslendingar skrifað um að undanförnu, m.a., á svipuðum nótum og Skafti, og gert grein fyrir ógnvekjandi meðferð ríkisins á skattfénu. Fyrir liggur að skattheimtan hér á landi sé miklu meiri en þörf krefst. M.a. nefnir Skafti til sögunnar alls kyns starfsemi opinberra aðila sem þeir ættu alls ekki að standa fyrir en hundruð eða þúsundir manna eru ráðnir til að sinna.

    Í viðbót við þetta er nú svo komið málum að fullveldi þjóðarinnar hefur verið skert stórlega með því að færa valdið til þess að setja lög og reglur á Íslandi til erlendra stofnana. Þær setja þá saman stóra reglupakka sem okkur er talið skylt að taka upp hér á landi án þess að þeir hafi hlotið þá meðferð sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir að löggjafinn sinni. Ekki hafa hér á landi einu sinni verið sett almenn lög sem heimila þetta framsal á fullveldi þjóðarinnar og skal þá ósagt látið hvort slík heimild myndi standast ákvæði stjórnarskrárinnar. Um þetta hefur lögfræðingurinn Arnar Þór Jónsson m.a. fjallað í viðamiklum skrifum sínum að undanförnu.

    Það er löngu kominn tími til að þeir stjórnmálamenn, sem við kjósum, taki nú til við að sinna endurbótum á þeim skaðvænlegu þáttum sem felast í þeim háttum sem að framan er lýst. Með því yrði gert verulegt átak í að bæta kjör almennings í landinu.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Amma kvað

    Fyrir nokkrum dögum birti ég hér á fasbókinni kvæðið „Þá var ég ungur“ eftir eðalskáldið Örn Arnarson. Það hlaut afar öflugar undirtektir. Hér kemur annað kvæði eftir þennan ljóðasnilling.

    AMMA KVAÐ

    Ekki gráta unginn minn,
    Amma kveður við drenginn sinn.
    Gullinhærðan glókoll þinn
    geymdu í faðmi mínum,
    elsku litli ljúfurinn,
    líkur afa sínum.

    Afi þinn á Barði bjó,
    bændaprýði, ríkur nóg.
    Við mér ungri heimur hló.
    Ég hrasaði fyrr en varði.
    Ætli ég muni ekki þó
    árið mitt á Barði?

    Man ég víst, hve hlýtt hann hló,
    hversu augað geislum sló
    og hve brosið bað og dró,
    blendin svör og fyndin.
    Ég lést ei vita, en vissi þó,
    að vofði yfir mér syndin.

    Dýrt var mér það eina ár.
    Afi þinn er löngu nár.
    Öll mín bros og öll mín tár
    eru þaðan runnin,
    gleðin ljúf og sorgin sár
    af sama toga spunnin.

    Elsku litli ljúfur minn,
    leiki við þig heimurinn.
    Ástin gefi þér ylinn sinn,
    þótt einhver fyrir það líði.
    Vertu eins og afi þinn
    allra bænda prýði.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Grundvöllur velferðar

    Það er eins og margt fólk í samfélagi okkar eigi erfitt með að skilja hvar grunnstoðin fyrir velgengni og góðum kjörum almennings liggur. Samt ættu menn að átta sig á þessu með því að skoða heimsmyndina sem við okkur blasir. Það er nefnilega augljóst að velgengnin er mest, þar sem mönnum er frjálst að verða ríkir ef þeir ástunda atvinnu sína með sölu á vörum eða þjónustu, sem almenningur sækist eftir. Þetta getum við kallað kapitalisma og fylgir þá gjarnan með lýðræðisleg stjórnskipan og raunveruleg réttarvernd dómstóla.

    Þessa skipan er okkur skylt að bera saman við skipulag þar sem handhafar ríkisvaldsins beita valdi sínu til að taka ákvarðanir um framleiðslu og sýslan þeirra sem vilja sjálfir hagnast í viðskiptum, eins og flestir vilja. Þessu fyrirkomulagi fylgir yfirleitt ófrelsi og kúgun, þar sem mönnum er jafnvel refsað fyrir áræðni og hugmyndaauðgi í atvinnulífinu.

    Við höfum átt því láni að fagna að koma á stjórnskipan af fyrri tegundinni. Reyndar eru línur sjaldnast skýrar í þessari aðgreiningu, því valdhafar hafa oftast tilhneigingu til að takmarka frelsi í því skyni að geta úthlutað lífsins gæðum til sjálfs sín eða annarra.

    Við getum líka litið til fortíðar okkar eigin þjóðar. Ég skrifaði t.d. fyrir allnokkru síðan greinastúf um forfeður mína sem fyrir rúmlega hundrað árum bjuggu í torfbæ norður við heimskautsbaug með öllum þeim þrengingum sem slíkum aðstæðum fylgja. Enginn býr lengur við slík skilyrði.

    Nú sést velferðin á hverju strái. Venjulegt fólk býr í eigin húsnæði, ekur um á glæstum bifreiðum og fer reglulega í orlofsferðir til sólríkra landa. Með því er ég ekki að segja að allir hafi allt til alls. Allir hafa hins vegar haft ómælt gagn af velferðinni sem fylgir frjálsu markaðskerfi og lýðréttindum sem við erum svo lánsöm að hafa virt í meginatriðum þó að þar megi lengi um bæta.

    Menn ættu að bera hagi almennings í hinum kapitalísku ríkjum saman við kjör manna í ríkjum sam þurfa að lúta alræðisvaldi stjórnarherranna. Þar er mönnum oft refsað fyrir velgengni og almenningur líður fyrir bág kjör sín. Að auki er ástandið víða svo að menn eru sviptir frelsi og jafnvel lífi fyrir að lúta ekki herrum sínum í einu og öllu. Þar eru mannréttindi oftast lítt vernduð og dómstólastarf er bágborið. Við heyrum nær daglega fréttir af slæmum kjörum meðbræðra okkar sem þurfa að lifa við skipulag alræðis.

    Flest erum við á þeirri skoðun að réttlætanlegt sé að bæta kjör þeirra sem minna mega sín ef bágindin stjórnast af erfiðum lífskjörum sem menn ráða ekki við. Reglulega heyrist hins vegar málflutningur um að bæta megi kjör alls almennings með því að takmarka frelsi þeirra sem hagnast í viðskiptum og færa hagnaðinn til almennings með valdi í stað viðskipta. Þetta er reyndar að nokkru leyti gert með skattheimtu sem oftast er ranglát og gengur allt of langt. Er ekki einfaldlega skynsamlegra að reyna að skilja hvar velferð okkar liggur og reyna frekar að styrkja hag þeirra sem afla fjár fyrir samfélagið en veikja hann?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður