júní 2024

  • Sannfæring þingmanna

    48. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo:

    Fyrir þinginu liggur nú tillaga um vantraust á matvælaráðherra vegna fáheyrðs ofbeldis sem hann hefur beitt Hval hf. með ráðherravaldi sínu. Ráðherrann er þingmaður Vinstri grænna og tekur við af fyrri ráðherrum þess flokks við þau lögbrot sem í þessari háttsemi felast.

    Nú er talið að alþingismenn, sem opinberlega hafa lýst forsmán á þessari háttsemi ráðherrans, hyggist greiða atkvæði gegn þessari tillögu í því skyni að halda lífi í ríkisstjórninni sem nýtur stuðnings flokks þess sem þeir tilheyra.

    Gangi málið fram með þessum hætti er það ekkert minna en algjör niðurlæging fyrir Alþingi og þá einkum þingmennina sem hér eiga hlut að máli. Þeir virðast þá fremur fylgja fyrirmælum flokksforystu sinnar en sannfæringu sinni.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Heimildarlaus valdbeiting

    Leiðari Morgunblaðsins s.l. föstudag 14. júní ber fyrirsögnina „Loftslag, lýðræði og óvinir þess“. Þar er fjallað um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) fyrir skömmu þar sem tekin var til greina krafa um að lýðræðislegur meirihluti svissneskra borgara hefði brotið mannréttindi á borgurum landsins með því að gera ekki nóg í loftslagsmálum. Í Sviss væri beint lýðræði í hávegum haft, en þjóðaratkvæðagreiðsla hafði farið þar fram um loftslagsaðgerðir árið 2021. Nú hefðu báðar deildir svissneska þingsins hafnað þessum dómi, m.a. á þeirri forsendu að MDE hefði farið út fyrir valdsvið sitt og viðhaft óþolandi afskipti af svissnesku lýðræði.

    Sá sem hér skrifar tekur kröftuglega undir þessa afstöðu Morgunblaðsins. Þessi dómstóll hefur ekki, frekar en aðrir dómstólar yfirleitt, vald til að hnekkja ákvörðunum löggjafans í aðildarríkjum MDE.

    Lítum aðeins á skiptingu valds milli æðstu stofnana ríkisvalds á Íslandi sem telja má sambærilega því sem gildir í öðrum lýðræðisríkjum í Evrópu. Ríkisvaldinu er skipt í þrjá þætti: löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Hver þessara þátta byggir valdheimildir sínar á ákvæðum í stjórnarskrám ríkjanna, sem í grunninn kveða á um lýðræði, þ.e. að handhafar ríkisvaldsins sæki vald sitt til almennings (kjósenda). Hér á landi fer löggjafinn þannig með lýðræðislegt vald sem almennir kjósendur veita honum í Alþingiskosningum til afmarkaðs tíma í senn.

    Handhafar framkvæmdarvalds njóta afleidds lýðræðislegs umboðs til valdheimilda sinna, þar sem þeir verða að styðjast við meiri hluta þingsins . Þeir þurfa síðan að byggja valdskotnar ákvarðanir sínar á ákvæðum í stjórnarskrá sem veitir þeim slíkar heimildir í einstökum málum með settum lögum.

    Samkvæmt íslensku stjórnarskránni fara dómstólar ekki með neitt sambærilegt vald. Upphafsákvæði 61. gr. hennar segir svo um valdheimildir þeirra: „Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum.“ Þetta er að sínu leyti sama staða og gildir um valdheimildir alþjóðlegra dómstóla til að dæma um réttarstöðu borgara í einstökum aðildarríkjum. Til þess þurfa þeir heimildir sem þurfa að byggja á stjórnskipulegum innanlandsreglum aðildarríkjanna. Slíkar reglur veita þessum alþjóðlegu dómstólum ekki heimildir til að setja nýjar lagareglur um réttarstöðu borgara aðildarríkjanna. Og þá ekki til að túlka reglur út fyrir efni lagareglna sem réttlega hafa verið lögleiddar með lýðræðislegum hætti. Sjálftaka þessara dómstóla brýtur svo einnig gegn fullveldi þjóðanna sem byggist á stjórnarskrám þeirra semg fæstar hafa gefið frá sér.

    Gagnrýni Morgunblaðsins á fyrrgreindan dóm MDE byggist á þessum gildu sjónarmiðum. En hvað þá um íslenska dómstóla? Mega þeir byggja dóma sína á öðru en íslenskum lögum, sem Alþingi hefur sett? Ég hef í mörg ár mælt fyrir þeim málstað að dómstólar hafi ekki heimild til slíks. Þeim beri bara að dæma eftir lögum, en Alþingi setur þau samkvæmt stjórnarskránni á grundvelli þess lýðræðislega umboðs sem þingið hefur og getið var um að framan. Samt er málinu svo háttað að íslenskir dómstólar hafa um langan aldur tekið sér vald til lagasetningar á hliðstæðan hátt on MDE gerði í fyrrgreindum dómi. Dæmi eru um að íslenskir fræðimenn hafi haldið því berum orðum fram að dómstólar fari með heimildir af þessu tagi. Einn skrifaði t.d.: „Viðurkennt er að dómsvaldið eigi að vera sjálfstætt og því mega dómstólar aldrei verða ambátt löggjafans. En þetta hefur enga merkingu nema dómsvaldið hafi sjálfstæðar valdheimildir nokkurn veginn til jafns við löggjafann til að móta reglur sjálfstætt eða að minnsta kosti til aðhalds og mótvægis.“

    Þessi „fræðikenning“ stenst auðvitað enga skoðun. Dómstólar sem „móta reglur sjálfstætt“ eru með öllu ábyrgðarlausir af lagasetningu sinni. Hún er andlýðræðisleg alveg eins og dómur MDE á dögunum.

    Þó að ég hafi í bókum mínum á undanförnum áratugum nefnt mörg dæmi um svona misnotkun á dómsvaldinu hefur mér fundist að almenningur í landinu hafi látið sér fátt um finnast. Ég hef ekki fylgst nákvæmlega með dómsýslunni síðan en hef sterka tilfinningu fyrir því að þetta hafi ekkert lagast. Beini ég því til starfandi hæstaréttarlögmanna að nefna til sögunnar dóma frá síðustu árum sem sýna þetta. Ég þekki dæmi um að ákvæði um refsiverða háttsemi verið „snyrt til“, svo refsa megi mönnum fyrir lögbrot til að þóknast þannig almenningi í landinu. Ég hef sterka tilfinningu fyrir því að svo sé. Ástæða er til að hvetja dómara til að láta ekki freistast af slíku hátterni. Fjölmiðlar hafa því miður ekki, svo mér sé kunnugt, fjallað um þetta þegar það gerist hjá dómstólum hér innanlands. Heldur ekki Morgunblaðið, þó að á vettvangi þess sé nú réttilega fjallað um valdbeitingu erlendra dómstóla eins og nefnt var fyrst í þessum pistli.

    Guð blessi Ísland!

     Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Þá var ég ungur

     
    Er ekki ráð að mannfólkið beini stundum huganum að raunverulegum gildum í lífinu, fremur en að vera upptekið af þrasi daganna sem oftar en ekki snýst um hégóma og tildur en ekki það sem skiptir það mestu máli þegar allt kemur til alls?
    Sá sem skrifar þessar línur hefur lengi verið þeirrar skoðunar að traustasta samband í mannheimi, sem sjaldan brestur, sé samband móður og barns. Þegar ég og faðir minn sátum á kenderíi saman fyrir mörgum áratugum fórum við gjarnan með ljóð. Ljóðabókin Illgresi eftir Örn Arnarson var í uppáhaldi hjá okkur. Þar er margar ljóðaperlur að finna. Ein þeirra var í sérstöku uppáhaldi okkar. Ég held við höfum verið sammála um að fegurra ljóð hefði ekki verið samið á Íslandi. Hvað finnst þér lesandi góður?
    Mamma var fædd 3. júní 1923. Pabbi dó 3. júní 1979. Þessi dagur hefur því alltaf átt sérstakt sæti hjá mér.
    Skyggnumst aðeins um sviðið.
    ——-
    Hinn 12. desember 1884 ól Ingveldur Sigurðardóttir, þá 34 ára, son. Þetta gerðist á bænum Kverkártungu á Langanesströnd. Drengurinn var sjöunda barn hennar og eiginmannsins Stefáns Árnasonar. Hjónin bjuggu við lítil efni. Á harðindaárunum eftir 1880 svarf að þeim og þurftu þau snemma árs 1887 að bregða búi sakir fátæktar. Þau réðust sem vinnuhjú að Miðfirði. Eldri börnin urðu þau að láta frá sér en héldu drengnum. Hann hét Magnús. Stefán drukknaði vorið 1887 í Miðfjarðará þegar Magnús litli var tveggja ára gamall. Eftir það var hann í umsjá móður sinnar, sem varð nokkrum árum síðar bústýra á Þorvaldsstöðum í Miðfirði. Drengurinn þótti pasturslítill og var talinn latur til vinnu. Eina skjólið hans var móðirin sem unni honum og annaðist um hann í hörðum heiminum. Var hann hjá henni allt til þess að hann hélt til Reykjavíkur til náms um tvítugt.
    Ingveldur andaðist vorið1925. Líklega hefur henni þá ekki hugkvæmst að hún ætti eftir að lifa um ókomna tíð í hjarta þjóðarinnar sem táknmynd þess bands milli einstaklinga sem ekkert fær grandað, og verða þar í reynd ódauðleg.
    Magnús sonur hennar fékkst við kveðskap og kom yfirlætislaus ljóðabók hans Illgresi fyrst út á árinu 1924. Hann orti undir skáldanafninu Örn Arnarson. Það ódauðlega ljóð sem hann orti til móður sinnar varð ekki til fyrr en degi var tekið að halla í lífi hans sjálfs, en Magnús andaðist 1942. Það ár kom út ný útgáfa af Illgresi og var þar fyrst birt ljóðið „Þá var ég ungur“.
    Þetta ljóð er snilldarverk. Efni þess þarf ekki að lýsa. Það talar fyrir sig sjálft.
    ——-
    Hreppsómaga-hnokki
    hírðist inni á palli,
    ljós á húð og hár.
    Steig hjá lágum stokki
    stuttur brókarlalli,
    var svo vinafár.
    Líf hans var til fárra fiska metið.
    Furðanlegt, hvað strákurinn gat étið.
    Þú varst líknin, móðir mín,
    og mildin þín
    studdi mig fyrsta fetið.
    Mér varð margt að tárum,
    margt þó vekti kæti
    og hopp á hæli og tám.
    -Þá var ég ungur að árum.-
    „En þau bölvuð læti“,
    rumdi ellin rám.
    Það var eins og enginn trúa vildi,
    að annað mat í barnsins heimi gildi.
    Flúði ég til þín, móðir mín,
    því mildin þín
    grát og gleði skildi.
    Lonta í lækjar hyli,
    lóan úti í mónum,
    grasið grænt um svörð,
    fiskifluga á þili,
    fuglarnir á sjónum,
    himinn, haf og jörð –
    öll sú dásemd augu barnsins seiddi.
    Ótal getum fávís hugur leiddi.
    Spurði ég þig móðir mín,
    og mildin þín,
    allar gátur greiddi.
    Út við ystu sundin
    -ást til hafsins felldi-
    undi lengstum einn,
    leik og leiðslu bundinn.
    Lúinn heim að kveldi
    labbar lítill sveinn.
    Það var svo ljúft, því lýsir engin tunga,
    af litlum herðum tókstu dagsins þunga.
    Hvarf ég til þín móðir mín,
    og mildin þín
    svæfði soninn unga.
    Verki skyldu valda
    veikar barnahendur.
    Annir kölluðu að.
    Hugurinn kaus að halda
    heim á draumalendur,
    gleymdi stund og stað.
    „Nóg er letin, áhuginn er enginn“.
    Ungir og gamlir tóku í sama strenginn,
    allir nema móðir mín,
    því mildin þín
    þekkti dreymna drenginn.
    Heyrði ég í hljóði
    hljóma í svefni og vöku
    eitthvert undralag.
    Leitaði að ljóði,
    lærði að smíða stöku
    og kveða kíminn brag.
    Ekki jók það álit mitt né hróður.
    Engum þótti kveðskapurinn góður.
    Þú varst skjólið, móðir mín,
    því mildin þín
    vermdi þann veika gróður.
    Lífsins kynngi kallar.
    Kolbítarnir rísa
    upp úr öskustó.
    Opnast gáttir allar,
    óskastjörnur lýsa
    leið um lönd og sjó.
    Suma skorti verjur og vopn að hæfi,
    þótt veganestið móðurhjartað gæfi.
    Hvarf ég frá þér móðir mín,
    en mildin þín
    fylgdi mér alla ævi.
    Nú er ég aldinn að árum.
    Um sig meinin grafa.
    Senn er sólarlag.
    Svíður í gömlum sárum.
    Samt er gaman að hafa
    lifað svo langan dag.
    Er syrtir af nótt, til sængur er mál að ganga,
    -sæt mun hvíldin eftir vegferð stranga-
    þá vildi ég móðir mín,
    að mildin þín
    svæfði mig svefninum langa.
    Magnús Stefánsson hlaut ekki mikinn veraldlegan frama meðan hann lifði. Nafn hans mun hins vegar lifa með ljóðum hans um ókomna tíð. Og Ingveldur Sigurðardóttir mun lifa sem táknmynd þeirra tengsla mannlífsins sem aldrei bregðast.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Frammistaða við talningu atkvæða

    Frammistaða kjörstjórna við talningu atkvæða í forsetakosningunum í gær var frekar bágborin. Allir vita að þjóðin bíður fyrir framan sjónvarpstækin sín eftir upplýsingum um tölur úr talningunni. Það komu smáar tölur úr tveimur kjördæmum stuttu eftir að kjörfundi lauk kl. 22 en síðan ekki fleiri tölur fyrr en vel eftir miðnætti. Þessi frammistaða er óboðleg. Það er enginn vandi að koma fram með fyrstu tölur úr öllum kjördæmum rétt upp úr kl.22. Kjörstjórn tekur kjörkassa kl. t.d. 20 og fer með þá í talningarsal sem er læstur undir lögregluvernd. Inn í salinn fara svo talningarmenn sem hefja flokkun og talningu atkvæða strax. Þá verða fyrstu tölur úr öllum kjördæmum tilbúnar upp úr kl. 22. þegar kjörfundi lýkur, þannig að unnt er að birta þær þá strax. Það á auðvitað að vera skylt að standa svona að birtingu talna svo fólk geti fylgst með upphafi talningarinnar miklu fyrr en núna. T.d. þarf gamalt fólk, sem langar til að fylgjast með, að geta komist í háttinn miklu fyrr en nú er.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður