apríl 2024

  • Synjunarvald gegn virkjunum

    Ég hef tekið það fram í skrifum mínum á fasbók, að dýrustu verðmæti þjóðarinnar fælust í þeim auðlindum náttúrunnar sem unnt væri að virkja til okuframleiðslu án þess að grípa þyrfti til kola eða olíu eins og nauðsynlegt er víðast hvar erlendis.

    Í gær skrifaði ég á fasbók greinarstubb til stuðnings framboði Höllu Hrundar Logadóttur til embættis forseta Íslands. Tók ég þá fram að stuðningurinn væri „að því tilskildu að hún myndi ekki beita sér gegn virkjunum ef hún kæmist í stólinn.“ Ég féll svo frá þessum stuðningi, þegar ég taldi mig hafa fengið vitneskju um að þetta væri ekki rétt. Hefði ég þá fengið heimildir, sem ég taldi traustar fyrir því að hún væri andvíg virkjunum til orkuframleiðslu.

    Nú hef ég fengið úr herbúðum hennar heimildir fyrir því að þessi skoðanaskipti mín stæðust ekki. Konan væri fylgjandi virkjunum á náttúruvænum orkugjöfum rétt eins og ég. Legg ég nú til við hana að taka afdráttarlaust fram opinberlega, að hún styðji náttúruvænar virkjanir á orku og muni ekki beita synjunarvaldi forseta á lög frá Alþingi um slíkar virkjanir ef til kæmi. Þetta ættu líka aðrir forsetaframbjóðendur að gera.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Afturhald og siðleysi

    Það er furðulegt að nær helmingur stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins hyggist samkvæmt könnun Morgunblaðsins kjósa Katrínu Jakobsdóttur í embætti forseta Íslands í komandi kosningum. Þessi kona hefur verið í forystu þeirra sem hafa árum saman hindrað virkjun okkar náttúruvænu orku til rafmagnsframleiðslu í landinu, þannig að nú þurfum við að framleiða raforku með olíu. Í orku fallvatna og jarðvarma felast einhverjar verðmætustu auðlindir landsins. Svo hefur hún verið í forystu fyrir þá landsmenn sem hafa viljað drepa börn í móðurkviði alveg fram að fæðingu.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Lystisemdir dómara á kostnað skattgreiðenda

    Landsréttur tók til starfa 1. janúar 2018. Löngu var tímabært að stofna þetta dómstig til að létta of miklu álagi af æðsta dómstólnum Hæstarétti. Sagt hefur verið frá því í fréttum að núverandi dómsmálaráðherra sé með fækkun dómara Hæstaréttar til athugunar. Þær hugmyndir að fækka þurfi dómurunum við réttinn eru sjálfsagðar og hafa verið uppi um margra ára skeið en ávallt sætt andmælum forseta réttarins.

    Fyrir breytingarnar 2018 störfuðu 9 dómarar í föstum stöðum við Hæstarétt. Lá auðvitað fyrir að þeim yrði fækkað vegna stórfellds samdráttar í verkefnum réttarins. Sýnilega voru efni til að hverfa aftur til þess fjölda dómara við Hæstarétt sem skipuðu dóminn fyrst eftir stofnun hans árið 1920, en þá voru þeir 3 eða  5 talsins. Tekið var að fjölga þeim upp úr 1970 vegna málafjöldans sem þá hafði verið mjög vaxandi og varð síðar meginástæða þess að Landsréttur var stofnaður.

    Fyrir tilverknað dómaranna í Hæstarétti var samt ákveðið að skipaðir yrðu 7 dómarar í réttinn eftir breytinguna 2018, en ekki 5 eins og bersýnilega hefði verið meira en nægilegt. Þetta hefur haft þau áhrif að eftir að Landsréttur tók til starfa hafa dómendur í Hæstarétti verið fleiri en þörf er á og hafa þeir því, eins og kunnugt er, sinnt öðrum störfum meðfram dómsstörfunum. Sumir þeirra eru meira að segja fast skipaðir í kennarastöður við lagadeild Háskóla Íslands. Aðrir hafa gegnt öðrum störfum, aðallega hjá ríkinu. Auk þess fá þeir miklu meiri tíma en áður til orlofsferða til annarra landa og hafa a.m.k. sumir þeirra nýtt sér þann möguleika.

    Landsmönnum er flestum ljóst að brýn þörf er og hefur verið á því að spara útgjöld ríkisins. Það samrýmist varla viðleitni til þess, að hafa starfandi hátt launaða embættismenn, sem hafa ekki nóg að gera og geta þess vegna gamnað sér við aðra sýslan á kostnað ríkisins. Nú er liðinn nægur tími til að unnt sé að meta störf dómaranna og bera starfsálagið saman við stöðuna fyrir breytingarnar 2018. Við samantektina sem hér fylgir er eingöngu stuðst við ársskýrslur Hæstaréttar sem birtar eru eftirá um hvert ár fyrir sig. Af handahófi voru borin saman árin 2010 og 2022, þ.e. fyrir og eftir stofnun Landsréttar.

    Þá kemur þetta m.a. í ljós:

    Árið 2010 voru kveðnir upp 710 dómar en 60 dómar árið 2022. Dæmdum málum hefur því fækkað um 650 eða ca. 88%. Beiðnum um áfrýjunarleyfi hefur hins vegar fjölgað, en hafa verður í huga að vinna við afgreiðslu þeirra er miklu minni en við þau mál sem ganga til dóms. Ef fjölda þessara beiðna er bætt við fjölda dæmdra mála kemur í ljós að málunum fækkar (milli áranna 2010 og 2022) úr 767 í 232, þ.e.a.s. um meira en tvo þriðju hluta.

    Að því er snertir starfsálag á einstaka dómara við Hæstarétt eru hér á eftir bæði taldir dómar og málsskotsbeiðnir. Gert er ráð fyrir að 5 dómarar sinni hverju máli þrátt fyrir að sjaldan sitji nema 3 við afgreiðslu málsskotsbeiðna. En þær eru, eina og áður sagði, miklu fleiri en áður eftir breytinguna 2018.

    Í ljós kemur að árið 2010 tók hver dómari þátt í 426 afgreiðslum (bæði dómum og málsskotsbeiðnum) en árið 2022 í 165 afgreiðslum. Ef dómurum yrði fækkað í 5 myndi afgreiðslum á hvern dómara fjölga í 232. Hér minnkar fjöldi málanna um rúmlega 50% en þá ber að hafa í huga að afgreiðslur á málsskotsbeiðnum voru miklu fleiri á árinu 2022 en var á viðmiðunarárinu 2010.

    Með fylgir fylgiskjal með tölum úr ársskýrslum Hæstaréttar.

    Það er hreinlega hneykslanlegt að stjórnvöld og löggjafi skuli láta undan kröfum Hæstaréttar um að 7 dómarar skuli skipa réttinn eftir fyrrnefndar breytingar, sem hafa haft í för með sér að þessir hátekjumenn ríkisins hafa haft jafn rúman tíma til starfa sinna og fram kemur í ársskýrslum réttarins. Þeir hafa bæði getað bætt við sig öðrum vel launuðum störfum, oft hjá ríkinu, og spókað sig í skemmtiferðum til útlanda. Þetta gerist á kostnað skattgreiðenda. Hér er að finna enn eitt dæmið um sóun á fjármunum ríkisins. Sýnilega þykir þeim sem um þinga sjálfsagt að skattgreiðendur beri kostnaðinn af lystisemdum dómaranna.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

    Fylgiskjal

    Upplýsingar úr ársskýrslum Hæstaréttar Íslands.

      Fjöldi upp kveðinna dóma og málskotsbeiðna í Hæstarétti fyrir og eftir stofnun Landsréttar, sem tók til starfa 1. janúar 2018.

      Við stofnun Landsréttar var dómurum í Hæstarétti fækkað úr 9 í 7.

      Hér er gerður samanburður á fjölda upp kveðinna dóma og málskotsbeiðna í Hæstarétti, annars vegar á árinu 2010 og hins vegar á árinu 2022.

      Haft skal í huga að starf að málskotsbeiðnum er að jafnaði mun veigaminna en starf í dæmdum málum.

      Árið 2010 voru kveðnir upp 710 dómar og 57 málskotsbeiðnir afgreiddar eða samtals 767 mál afgreidd. Settir voru 4 varadómarar til þess að setjast í einstök mál, líklega oftast vegna vegna vanhæfis fastra dómara.

      Á árinu 2022 voru kveðnir upp 60 dómar og 172 málskotsbeiðnir afgreiddar eða samtals 232 mál afgreidd. Settir voru 11 varadómarar til að setjast í einstök mál. Ekki er líklegt að það hafi alltaf verið vegna vanhæfis fastra dómara.

      Ef meðaltöl eru notuð við samanburð á starfsálagi einstakra dómara og gert ráð fyrir 5 dómurum í hverju máli (varadómarar ekki meðtaldir) lítur dæmið svona út og eru þá afgreiðslur málskotsbeiðna taldar með:

      Árið 2010:

    5 dómarar í 767 málum: Samtals 3835 afgreiðslur. Ef þeim er jafnskipt á 9 dómara hefur hver þeirra tekið þátt í 426 afgreiðslum.

      Árið 2022:

    5 dómarar í 232 málum: Samtals 1160 afgreiðslur. Ef þeim er jafnskipt á 7 dómara hefur hver þeirra tekið þátt í 166 afgreiðslum. Ef dómurum yrði fækkað í 5 myndi hver dómari taka þátt í 232 afgreiðslum.

      Í tölunum hér að ofan er ekki talinn sá fjöldi mála, þar sem varadómarar voru settir. Þeir voru mun fleiri á árinu 2022 (8) en á árinu 2010 (4). Ekki er unnt að sjá í ársskýrslum réttarins í hve mörgum málum varadómarar sátu en þau hafa sýnilega verið mun fleiri á árinu 2022 en á árinu 2010. Eitt og sér er það mjög undarlegt því málin sem til meðferðar komu á árinu 2022 voru miklu færri en 2010.

      Þessar upplýsingar ætti dómsmálaráðherra að hafa í huga þegar hann flytur frumvarp sitt um fækkun dómaranna. 

  • Fróðlegir sjónvarpsþættir

    Ég horfði nýlega á fjóra sjónvarpsþætti sem Þóra Arnórsdóttir gerði um hrunið 2008. Þættirnir eru sagðir að mestu byggðir á bók sem sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson skrifaði um atburðina og kom út á árinu 2009.

    Sjálfsagt hafa menn mismunandi skoðanir á umfjöllun Þóru og Guðna á ýmsu sem varðar þessa harmrænu atburðarás í sögu þjóðarinnar. En eitt finnst mér sérstaklega áhugavert. Það er lýsingin sem þarna birtist á háttsemi fjölmargra Íslendinga þegar ráðist var að ýmsum ráðamönnum þjóðarinnar með offorsi og upphrópunum og þeim kennt um þessa hörmulegu atburði. Þar bar mest á ósanngjörnum og beinlínis ósæmilegum árásum á ýmsa menn, sem gegnt höfðu stjórnunarstörfum á þeim tíma þegar þessi ósköp dundu yfir. Þeir voru úthrópaðir á fjöldafundum, einkum á Austurvelli og skiltum veifað þar sem þeim var lýst sem óþokkum sem valdið hefðu þeim ósköpum sem dunið höfðu á þjóðinni. Og ekki nóg með það. Veist var að þeim með líkamlegu ofbeldi þannig að kalla varð til lögreglu.

    Í þáttunum kemur fram að hatrammastar voru árásirnar á Geir H. Haarde, sem var forsætisráðherra á þessum tíma og Davíð Oddsson seðlabankastjóra. Helst mátti skilja á háttsemi mótmælendanna að þessir menn hefðu valdið hruninu af ásetningi í því skyni að skaða almenning og hlaða undir svonefnda útrásarvíkinga sem rekið höfðu nokkur fyrirtækja sinna erlendis og orðið þar fyrir stórfelldum áföllum. Þessar ásakanir voru fáránlegar. Atburðir voru alþjóðlegir og hreint ekki bundnir við Ísland.

    Framganga margra manna á þessum tíma var að mínum dómi ósæmileg. Vera má að eftirá hafi mátt gagnrýna stjórntök trúnaðarmanna almennings í aðdraganda hrunsins, en fráleitt var að ráðast að þeim með þeim hætti sem lýst var í þáttum Þóru. Engin ástæða er til að efast um að þessir menn höfðu borið hag almennings á Íslandi fyrir brjósti í störfum sínum fyrir hrunið, þó að æskilegt hefði verið að þeir hefðu séð fyrir þá atburði sem skullu á. Um þá vissu þeir ekki meira en ráðamenn í öðrum löndum.

    Það er sorglegt að sjá myndræna lýsingu á skrílshætti margra Íslendinga á þessum tíma. Þeir sem tóku þátt í að veitast að trúnaðarmönnum almennings á þann hátt, sem lýst er í þáttunum, ættu nú að skammast sín fyrir framkomu sína og heita því með sjálfum sér að haga sér ekki svona aftur, þó að skaðlegir atburðir á borð við hrunið verði í landinu. Þá er málefnaleg gagnrýni sjálfsögð en ekki þau viðbrögð sem lýst er að framan. Reynum að haga okkur eins og siðmenntað fólk fremur en að taka þátt í skrílslegri háttsemi sem beinist að þeim meðbræðrum okkar sem við sjálf höfum valið til trúnaðarstarfa. Sjálfsagt hafa þeir gert mistök við stjórnsýslu sína en það fær auðvitað ekki staðist að þessir menn hafi valdið hörmungum þjóðarinnar á þessum tíma af ásetningi. Og ofbeldisfull hegðun, eins og lýst er í vönduðum þáttum Þóru, á einfaldlega aldrei rétt á sér.

    Svo vill til að ég þekki persónulega til þeirra manna, sem urðu helst fyrir fyrrnefndum árásum, og veit að störf þeirra byggðust allan tímann á því sem þeir töldu vera almenningi fyrir bestu, þó að það hafi ekki heppnast sem skyldi. Ég var með þeim í þeim hópi manna sem kenndur hefur verið við Eimreiðina og veit því hvað ég er að tala um. Hörmungar hrunsins hafa áreiðanlega valdið þeim miklum harmi, rétt eins og öðrum Íslendingum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Dauðans alvara

    Á liðnum árum hef ég einatt fundið að íslenskum stjórntökum á málefnum sem skipta okkur öll miklu máli. Þá hef ég oft beint skeytum að Sjálfstæðisflokknum sem ég hef stutt vegna þess ég hef talið að hann væri líklegastur til endurbóta. Hann hefur nú lengi verið í samvinnu við þann stjórnmálaflokk sem ég hef talið mesta afturhaldið í stjórnmálunum hérlendis. Og nú stendur til að endurnýja bræðralagið, þó að ákjósanlegt tækifæri hafi gefist til að slíta því. Lítum á nokkur atriði sem koma upp í hugann.

    Íslendingar ættu að geta verið sammála um að vistvænar orkuauðlindir okkar í fallvötnum og jarðvarma hljóta að teljast með allramestu auðlindum sem þjóðin á. Sérstaklega á þetta við í heimi sem sveltur af orkuskorti. Við ættum því að virkja þessar auðlindir baki brotnu og gera ráðstafanir til að koma orkunni til annarra þjóða eða leyfa erlendum mönnum að nýta hana hér á landi. En það gerist ekki. Og ástæðan er sú að svonefndir áhugamenn um óspillta náttúru hindra það. Þeir tilheyra flestir afturhaldinu sem Sjálfstæðisflokkurinn vinnur með og lætur stjórna ser á margan hátt. Þetta gerist þó að ekki sjáist að virkjanir valdi neinum náttúruspjöllum.

    Við erum, eins og aðrar þjóðir kringum okkur, búin að koma okkur í alvarleg vandræði vegna innflutnings fólks, sem er að flýja bágborið ástand heima fyrir. Engin leið virðist vera til að koma böndum á þessa vá í nafni lands og þjóðar. Þar hefði helst átt að vera unnt að treysta á Sjálfstæðisflokksins. En hann bregst.

    Það er greinilegt velferðarmál fyrir þjóðina að hindra frekari skattaáþján í landinu. Það gerist ekki. Þvert á móti eykst hún. Og Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt vexti hennar og viðgangi.

    Það er stundum ógnvænlegt að sjá hvernig handhafar þriðja valdþáttarins, dómstólarnir haga sér. Þeir telja sig hafa vald til að setja lög í samkeppni við löggjafann, Alþingi. Og gera það óspart. Verst er þegar þeir láta sig hafa það að beita menn refsiviðurlögum þó að þeir hafi ekkert brotið af sér. Þá láta þeir sig hafa það að breyta skilyrðum laga til refsinga með því að breyta lögum um leið og dómar eru upp kveðnir. Þessi háttsemi dómstólanna er stundum verri en brotin sem sakborningar eru ákærðir fyrir. Og Sjálfstæðisflokknum virðist standa á sama um þetta.

    Dómarar fá sjálfir að ráða því að þeir sitja óþarflega margir, a.m.k. við æðsta dómstólinn, Hæstarétt. Það er til þess að þeir geti aflað sér aukatekna í öðrum störfum og skroppið í orlofsferðir til útlanda, þegar þeim þóknast. Svo eru þeir búnir að ná undir sig valdinu til að skipa vini sína og kunningja í dómarahópinn þegar staða losnar. Þetta eru handhafar þess þáttar ríkisvaldsins, sem næst gengur borgurunum. Undir þá heyrir m.a. að dæma menn til refsingar, svipta þá forræði yfir börnum sínum og leggja fjárhag þeirra í rúst svo dæmi séu tekin. En öllum virðist vera sama svo lengi sem þeir sjálfir lenda ekki í klóm þessara valdsmanna, sem eru ábyrgðarlausir af misgjörðum sínum. Þeir sitja áfram í stöðum sínum svo lengi sem þeir eru ekki taldir hafa keypt sér meira áfengi en sæmilegt er talið, þó að þeir hafi þá engar lagareglur brotið.

    Og Sjálfstæðisflokkurinn lætur eins og honum komi þessar misgjörðir ekki við, þó að á það sé ítrekað bent með eftirminnilegum hætti.

    Um víða veröldina sjáum við að þjóðum vegnar best, þar sem ríkisafskipti af atvinnulífinu eru minnst. Þar bera þeir sem minnstar hafa tekjurnar miklu meira úr bítum heldur en hliðstæðum hópum í ríkjum sem beita borgarana valdskotnum ákvörðunum valdhafanna sem oftast eru af einhverri tegund sósíalista og þykjast helst hugsa um hag þeirra sem minnst hafa. Þeir eru samt leiddir til slátrunar ef þeir andæfa stjórntökum valdsmanna. Og Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt í því hér á landi að beita borgara valdbrögðum af sósíalískum toga, þó að aftökum sé ekki beitt.

    Ég gæti talið upp mörg fleiri dæmi um skaðvænlega stjórnarhætti valdhafa í okkar landi. Þetta stafar oftast af því að sá flokkur, sem við héldum að treysta mætti, bregst vonum okkar. Hann situr árum saman við völd í skjóli vinstrisinna sem vilja beita menn ofríki í þágu sósíalismans. Það er eins og Sjálfstæðisflokkurinn óttist nú ekkert frekar en að ganga til kosninga. Þá virðist valdasetan skipta meira máli en velferð landsmanna.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Stefnumál eða hvað?

    Í október á síðasta ári skrifaði ég stutta grein á vef skrifstofu minnar og á fasbók um „Ranglátan skatt“. Í henni var fjallað um erfðafjárskatt og færð rök fyrir því að með honum væru sömu tekjurnar skattlagðar tvisvar; annars vegar þegar tekna væri aflað og hins vegar aftur þegar þær gengju til erfingja. Var m.a. nefnt að Svíar og Norðmenn hefðu afnumið þennan rangláta skatt og látin í ljós sú von að Sjálfstæðisflokkurinn flytti lagafrumvarp um afnám hans. Sá flokkur færi með fjármálaráðuneytið og stæði það ekki öðrum flokki nær að beita sér fyrir þessu réttlætismáli, sem hlyti að styðjast við stefnu hans um lækkun skatta í landinu. Fleiri en ég hafa birt sjónarmið sín í þessa veru.

    Ekkert verður vart við viðbrögð við þessum tilmælum. Ekkert heyrist um málið frá þessum „hugsjónaflokki“. Er það virkilega svo að þessi flokkur meini ekkert með því sem hann segir og haldi bara áfram skattlagningu sem er beinlínis ósiðleg að mínu áliti og fjölmargra annarra stuðningsmanna hans. Það er ekki skrítið að fylgi kjósenda hans skuli nú fara hratt minnkandi. Það hlýtur að gerast þegar stjórnmálaflokkur stendur ekki við stefnumál sín, þótt hann sé kominn í aðstöðu til þess. Aflað er fjár í því skyni að geta eytt meira fé til atkvæðakaupa. Ætli það sé hugsanlegt að áhrifin séu öndverð þessu markmiði?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður