mars 2024

  • Forkastanleg framkoma

    Það er alveg forkastanleg framkoma Knattspyrnusambands Íslands við þá knattspyrnumenn sem hafa verið hafðir fyrir sökum um kynferðisbrot en þeir andmæla og ekki hafa verið sönnuð. Sambandið setur þá sem svona stendur á um í bann við að taka þátt í kappleikjum á vegum þess.

    Hvaðan kemur þessu sambandi heimild til að sakfella þá sem svona stendur á um? Þessi framkvæmd er auðvitað mjög íþyngjandi fyrir þá knattspyrnumenn sem hlut eiga að máli bæði gagnvart almenningi og stundum jafnvel í starfi sem atvinnumenn í knattspyrnu. Er ekki unnt að bíða með að beita þá viðurlögum þar til rétt yfirvöld í landinu hafa leyst úr máli þeirra á þann veg að sökin teljist sönnuð? Kannski búið sé að fá andstæðingum íslenska landsliðsins vopn í hendur til að hindra þessa pilta í þátttöku í kappleikjum gegn þeim?

    Ég segi bara við fyrirsvarsmenn KSÍ: Hættið þessari ósanngjörnu valdbeitingu. Þið farið ekki með guðlegt vald sem heimilar ykkur svona framferði. Munið að reglan um sakleysi þar til sekt er sönnuð gildir ekki bara við meðferð mála fyrir dómi. Þetta er líka regla af siðferðilegum toga sem gildir í samskiptum borgaranna yfirleitt.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Minning um Pál Bergþórsson

    Tengdafaðir minn Páll Bergþórsson er látinn. Ég kynntist dóttur hans Kristínu á árinu 1972, þegar hún var 19 ára og ég 24. Við höfum verið saman síðan. Og ég því verið þátttakandi í fjölskyldulífi þessa mæta manns í rúma hálfa öld.

    Á netsíðu Vísis voru núna eftir andlátið rifjaðir upp ýmsir þættir í starfs- og æviferli Páls. Þar er m.a. sagt að hann hafi verið staðfastur sósíalisti og tekið á yngri árum þátt í ýmsum trúnaðarstörfum á vettvangi sósíalista.

    Sá sem ekki þekkir til gæti þess vegna að spurt hvort ekki hafi verið stirt á milli okkar tengdafeðganna af þessum sökum, þar sem ég hef löngum lýst viðhorfum sem stangast á við þau sem hér að framan er lýst.

    Því er til að svara að þvert á móti voru samskipti okkar alla tíð vinsamleg og á jákvæðum nótum. Þau einkenndust af gagnkvæmri virðingu og kurteisi, enda var Páll hreinasti heiðursmaður og einstaklega ljúfur í allri framkomu. Raunar fannst mér oftast að við værum jafnvel meira sammála en ósammála, t.d. um réttindi borgaranna til orðs og æðis.

    Páll var kvæntur mikilli sómakonu, Huldu Baldursdóttur, sem er öllum sem kynntust henni afar minnisstæð. Hún andaðist á árinu 2013. Við bárum öll mikla virðingu fyrir henni og þótti afar vænt um hana. Ég tel að hún hafi haft mikil og varanleg áhrif á eiginmanninn, sem og þrjú börn þeirra.

    Samskipti Páls við og börnin okkar Kristínar einkenndist líka af vináttu og ást. Þau voru enda mjög hænd að honum og þótti vænt um hann, eins og best kom fram nú á síðustu stundum lífs hans.

    Páll Bergþórsson var í öllum skilningi stór maður sem lét ekki þvarg daganna villa sig af leið. Eftirmælin hans nú sýna þetta betur en nokkuð annað.

    Jón Steinar Gunnlaugsson

  • Um misbeitingu valds

    Hinn 17. mars s.l. var birtur á Eyjunni pistill eftir þann mæta sagnfræðing Björn Jón Bragason sem hann nefnir „Misbeiting valds þarf að hafa afleiðingar“. Þar nefnir hann til sögunnar merka bók sem hann skrifaði um framferði Seðlabankans gegn útgerðarfyrirtækinu Samherja hf., þar sem bankinn fór um nokkurra ára skeið með offorsi gegn fyrirtækinu og olli því miklu fjárhagslegu tjóni. Enginn fótur var fyrir þessari aðför bankans gegn fyrirtækinu sem hefur ekki einu sinni verið beðið afsökunar á þessari framgöngu, hvað þá boðið skaða- og miskabætur, eins og Björn nefnir að þekkist í nágrannalöndunum þegar svona stendur á. Í Noregi voru t.d. fyrirsvarsmenn þolandans Transocean sýknaðir af refsikröfum efnahagsstofnunarinnar Ökokrim, sem síðan þurfti að biðja fyrirtækið og forsvarsmenn þess afsökunar á framferði sínu og greiða háar bætur til þolandans og fyrirsvarsmanna hans.

    Yfirbót af þessu tagi þekkist ekki hér á landi. Hér virðist svona löglaus aðför að fyrirtækjum og fyrirsvarsmönnum þeirra ekki hafa neinar afleiðingar, þó að vera megi unnt fyrir þolendurna að höfða mál á hendur árásarmönnum með kröfum um bætur. Slík málsókn yrði hins vegar erfið hér á landi, þar sem lagalegt siðferði er miklu bágbornara en í nágrannalöndunum. Þeir aðilar sem misfara með valdheimildir sínar ættu líka að þurfa að sæta refsiábyrgð, sbr. t.d. ákvæði í XIV. kafla almennra hegningarlaga.

    Í grein sinni vísar Björn Jón m.a. til kenninga þekktra erlendra heimspekinga um réttarríkið þar sem rökstutt er að til hugtaksins réttarríkis heyri að þeir, sem hafi umboð ríkisvaldsins til að framfylgja og beita lögunum, skuli bera ábyrgð á eigin starfi í samræmi við lög.

    Grein Björns Jóns gefur tilefni til þess að nefna til sögunnar viðtalsþætti sem hann gerði haustið 2021 um langvarandi misnotkun opinbers valds hér á landi. Lýsti ég þar í sex viðtalsþáttum margháttaðri misnotkun opinbers valds sem ég hef um áratuga skeið upplifað í starfi mínu sem lögmaður og gagnrýnt með rökstuðningi í bókum mínum. Heiti á þessum þáttum er „Það skiptir máli“ og má finna þá t.d. á hlaðvarpi Morgunblaðsins og Spotify (Það skiptir máli). Þeim sem hafa áhuga er bent á þessa þætti. Þar er unnt að fræðast um misbeitingu ríkisvalds hér á landi gegnum árin, sem yfirvöld hafa sjaldnast borið nokkra ábyrgð á, hvorki með afsökunarbeiðnum né bótagreiðslum og þaðan af síður refsingum. Geta menn þá velt því fyrir sér hvort unnt sé að kalla okkar ríki réttarríki í skilningi þeirra heimspekinga sem um hafa fjallað.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Með grimmustu skepnum jarðar?

    Ég horfði nýverið aftur á kvikmyndina Schindler‘s List. Myndin var gerð 1993 af hinum þekkta kvikmyndargerðarmanni Steven Spielberg og byggð á raunverulegum atburðum í síðari heimsstyrjöldinni. 

    Þetta er alveg mögnuð kvikmynd. Kannski er þó réttara að nota þetta orð um atburðina sem hún lýsir. Fjallað er um aðgerðir þýska iðnrekandans Oscars Schindlers undir lok styrjaldarinnar þegar honum tókst að bjarga 1100 gyðingum frá þeim örlögum að verða drepnir í gasklefum Þjóðverja. Þessi maður var í stríðsbyrjun félagi í Nasistaflokknum en snerist gegn morðæði nasistanna undir lok styrjaldarinnar þegar hann áttaði sig á framferði þeirra Þá auðnaðist honum að bjarga þessu fólki. Schindler er nú virtur fyrir gjörðir sínar sem einn af merkilegri mannvinum sögunnar.

    Vitað er að nasistarnir drápu um 6 milljónir Gyðinga í síðari heimsstyrjöldinni. Þeir litu ekki á fólkið sem menn heldur nánast dýrategund sem þyrfti að útrýma. Notuðu þeir oftast gasklefa sína til að smala fólkinu þar inn og drepa það síðan með banvænu gasi.

    Kvikmyndin er talin með bestu og áhrifamestu kvikmyndum sögunnar. Atburðirnir sem hún lýsir eru byggðir á raunverulegum atburðum. Maður verður beinlínis miður sín eftir að hafa horft á þetta. Það er eins og grimmd mannskepnunar eigi sér engin takmörk. Þessir atburðir áttu sér stað fyrir nokkrum áratugum í ríki sem byggt var menntuðu fólki sem var að því leyti ekki svo ólíkt okkur og öðrum núlifandi íbúum Vesturlanda.

    Kannski felur þessi kvikmynd í sér lýsingu á því að mannskepnan sé meðal grimmustu skepna jarðarinnar. Við réttar aðstæður virðast miklu fleiri tilbúnir að taka þátt í svona geðveikislegu framferði gegn meðbræðrum sínum en flest okkar gera sér grein fyrir. Þess vegna ættum við að horfa á þessa mynd með reglulegu millibili til að minna okkur á hversu ófullkomin við erum og hvað þarf að varast í heimi mannanna.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Misbeiting valds

    Þeim sem láta sig stjórnskipan ríkisins varða er flestum kunnugt um meginregluna um skiptingu ríkisvaldsins í þrjá efnisþætti, sem hver um sig hefur sínum aðskildu verkefnum að sinna. Löggjafarvaldið er í höndum Alþingis, framkvæmdavaldið í höndum ríkisstjórnar og dómsvaldið í höndum dómstóla. Ein helstu rökin fyrir þessari skipan felast í því að með þessari skiptingu sé valdið temprað. Einn af þessum valdhöfum geti ekki tekið sér fyrir hendur að fara með vald sem öðrum er falið.

    Þrátt fyrir þetta hefur því verið haldið fram að handhöfum dómsvaldsins sé heimilt að taka sér löggjafarvald við meðferð dómsvaldsins. Í 61. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um valdheimildir dómstóla. Þar segir í skýrum texta ákvæðisins: „Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum“.

    Ýmsir lögfræðingar héldu því fram á fyrri tímum að vald dómstóla skyldi fara langt út fyrir þetta. Meðal þeirra voru jafnvel fræðimenn í lögfræði sem kenndu laganemum aðferðafræði. Þannig skrifaði einn þeirra: 

    Strax á yngri árum mínum í lögfræðinni áttaði ég mig á því að þetta viðhorf fengi ekki staðist og færi beinlínis gegn valdmörkum dómstólanna, eins og þeim var og ennþá er lýst í stjórnarskránni. Átti ég af þessu tilefni í ritdeilu við kunnan fræðimann í lögfræði, sem lýst er í bók minni „Í krafti sannfæringar“, sjá einkum bls. 126 og áfram.

    Það eru margháttuð rök fyrir því að vald dómstólanna sé bundið við að dæma bara eftir lögunum en ekki móta nýjar lagareglur í úrlausnum sínum. Sumar þessara röksemda eru svo sterkar að þær ættu að duga til þess að taka af allan vafa. Meðal fjölmargra dæma um misnotkun á þessu valdi eru svonefnd umboðssvik sem refsað var fyrir eftir „hrunið“ án þess að lagaskilyrði væru til þess. Þarna var um beitingu refsinga að ræða og var sérstaklega af þeirri ástæðu óheimilt að refsa á tilbúnum og ótækum grunni, eins og gert var.

    Svo er öllum ljóst að að dómendur sækja ekki umboð til almennings eins og löggjafinn gerir og bera því ekki lýðræðislega ábyrgð á verkum sínum. Af þessu og ýmsum frekari röksemdum, sem m.a. er gerð grein fyrir í skrifum mínum, er fyrrgreind valdskipting ríkisvaldsins ljós. Tel ég að þetta hafi nú dugað til að sannfæra yfirleitt alla lögfræðinga sem og almenna borgara um réttmæti þessara sjónarmiða. Samt sjáum við ennþá dómendur taka sér vald, sem þeir hafa ekki, til að víkja frá lagareglum og beita viðmiðunum sem beinlínis fara gegn settum lögum og þá yfirleitt til að geta komið fram persónulegum sjónarmiðum við úrlausnir sínar. 

    Allir Íslendingar, hvort sem þeir eru lögfræðimenntaðir eða ekki, ættu að andæfa þessum sjónarmiðum og láta í sér heyra ef þeir verða varir við að dómstólar fari út fyrir valdheimildir sínar, því að í því felst einfaldlega misbeiting valds þeirra.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Manndráp á báða bóga

    Mikið er um þessar mundir fjallað hér á landi um „stríðið fyrir botni Miðjarðarhafs“. Menn ættu að reyna leggja niður fyrir sér sína eigin afstöðu til einstakra þátta í þeim atburðum sem þarna hafa orðið að undanförnu og standa nú yfir.

    Mín afstaða er nokkurn veginn svona:

    Ég er andvígur öllum morðárásum sem þarna eru réttlættar með því að tilgangurinn helgi meðalið.

    Þannig fordæmi ég árás Hamas-liða á Ísrael 9. október og einnig „gagnárás“ Ísraelsmanna þar sem saklausum borgurum er slátrað með skelfilegum hætti.

    Ég tel að öðrum þjóðum beri siðferðileg skylda til að reyna að stilla til friðar og veita fórnarlömbum þessara manndrápa alla þá hjálp sem unnt er án þess að gera sig að þátttakendum í vopnuðum átökum þarna.

    Sumir telja sér trú um að hernaður Ísraelsmanna réttlætist af þeirri „trúarlegu“ (?) afstöðu múhameðstrúarmanna að vanvirða konur og samkynhneigða. Þó að efnislega megi fallast á afstöðu kristinna manna um þetta, getur hún aldrei réttlætt dráp á saklausu fólki á þann veg sem raun ber vitni. Þarna eins og annars staðar í heiminum á að gilda raunverulegt jafnrétti manna.

    Ég tel að öllum aðilum þessara morða beri skylda til að láta af stríðsátökum til að „leysa“ ágreiningsefni sín. Eina boðlega leiðin til að leysa úr deilum manna felst í friðsamlegum samningum um það sem skilur deiluaðila að. Morðárásir fela ekki í sér lausnir á ágreiningi manna. Þeir ættu að skilja að slikar aðfarir hafa aldrei leyst ágreining á mannsæmandi hátt. Lykill að friði felst í því að stríðandi aðilar læri að skilja hver annan og afstöðu til lifnaðarhátta sem reynast vera frábrugðnir þeirra eigin, með þeim fyrirvara að mannréttindi séu virt.

    Það eru ekki auðveld verkefni sem þessi afstaða byggist á en okkur ber öllum að reyna.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður