febrúar 2024

  • Án dóms og laga

    Á Íslandi segjumst við búa í lýðræðisríki, sem virðir mannréttindi. Meginreglan um vernd þeirra kemur fram með ýmsum hætti í stjórnskipan okkar og lögum. M.a. skiptum við ríkisvaldinu í þrjá valdþætti, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald.

    Til mannréttinda heyrir að ekki megi sakfella borgara fyrir refsiverða háttsemi, nema brot sé sannað lögfullri sönnun, eftir að hinn sakaði hefur fengið að verja sig með því að tala máli sínu og véfengja málatilbúnað ákæranda, m.a. sönnunarfærslu sem hann hefur uppi. Það eru handhafar dómsvaldsins sem einir mega kveða upp úr um sök sakaðra manna og þá að undangenginni lögfullri málsmeðferð.

    Nú er auðvitað ekki bannað í opnu upplýsingasamfélagi að flytja fréttir af málum, þar sem grunur kann að leika á að brotið hafi verið gegn refsilögum. Þeir sem þetta gera verða samt að gæta sín. Þeim ber skylda til að virða þær takmarkanir sem við öll búum við og felast í að mega ekki fullyrða um sakir annarra borgara, sem þeir sjálfir segja rangar, án þess að um þær hafi verið fjallað á agaðan hátt fyrir dómi og þá með þeirri niðurstöðu að sök hins sakaða manns teljist sönnuð eftir að hann hefur notið óskerts réttar til að færa fram varnir sínar. Við verðum reglulega vör við að þessar einföldu meginreglur eru brotnar og þar með réttur þeirra sem fyrir sökum eru hafðir. Á síðustu tímum hefur t.d. sökuðum borgurum verið meinað að taka þátt í íþróttakappleikjum ef þeir hafa verið sakaðir um brot, sem þeir segjast ekki hafa framið og ekki hafa verið sönnuð.

    Ég hygg að hér séu blaða- og fréttamenn í mestri áhættu um að brjóta af sér. Það freistar þeirra stundum að birta frásagnir af borgurum sem fela í sér dylgjur og jafnvel beinar fullyrðingar um lögbrot þeirra. Þeir slá sjálfa sig þá til riddara fyrir slíkt hátterni; kalla sig „rannsóknarblaðamenn“ og gefa þá í skyn að þeir hafi höndlað sannleikann um afbrot og megi því sakfella þann sem í hlut á, þó að alls ekki hafi verið fjallað um ætlaða sök hans með þeim hætti sem hið siðaða þjóðfélag krefst að gert sé. Almenningur gætir sín oft ekki á þessu. Menn taka þá oft undir svona sakfellingar og hrópa jafnvel húrra fyrir hinum glaðbeitta ákæranda.

    Svona „dómar“ eru oftast mjög meiðandi fyrir þá sem fyrir sökum eru hafðir hvort sem þeir hafa brotið af sér eða ekki. Menn ættu að muna að þeir kunna sjálfir að verða fyrir barðinu á svona ásökunum og sakfellingum án þess að hafa fengið að njóta þess réttar sem lög mæla.

    Ég aðhyllist þá aðferð við sakfellingar sem réttarríkið beitir. Hvað um þig lesandi góður?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Bókun 35

    Róbert Spanó er vel metinn íslenskur lögfræðingur sem m.a. hefur gegnt embætti forseta Mannréttindadómstóls Evrópu. Hann skrifaði sérkennilega grein í Morgunblaðið s.l. fimmtudag 22, febrúar 2024. Þar heldur hann því fram að svonefnd bókun 35 leiði til þess að eldri íslensk lög skuli ganga fyrir yngri lögum ef þau fyrrnefndu eiga rót sína að rekja til EES samningsins og ekki er kveðið skýrt á um það í hinum yngri lögum að þau skuli gilda framar þeim eldri, þegar efnislegt misræmi felist í þessum tvennu lögum. Þetta geti t.d. gerst fyrir mistök Alþingis við setningu hinna yngri laga. Þá geti eldri lögin gengið fyrir hinum yngri. Telur hann þetta leiða af EES samningnum og felist ekki í því skerðing á fullveldi Íslands.

    Þetta fær að mínum dómi ekki staðist. Það tilheyrir fullveldi Íslands að löggjafinn (Alþingi) setji lögin. Í því felst auðvitað að yngri lög skuli gilda framar hinum eldri ef þau eru annars efnis.

    Mér finnst undarlegt að vel fram gengnir íslenskir lögfræðingar skuli telja þessu háttað á annan veg. Af því myndi leiða afsal fullveldis sem stjórnarskráin leyfir ekki.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Friðhelgi og frelsi

    Í 71. gr. stjórnarskrár er kveðið á um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Með vísun til þessa ákvæðis tel ég stjórnvöldum óheimilt að meina mönnum að fara til heimila sinna og starfsstöðva nema að lágmarki sé sýnt fram á að öðrum mönnum stafi hætta af för þeirra þangað. Líklega halda stjórnvöldin því ekki einu sinni fram að slík hætta stafi af heimför þeirra sem eiga heimili í Grindavík. Ákvæðin í 3. mgr 71. gr. stjórnarskrár um að takmarka megi friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu eru bundin við að ógnað sé réttindum annarra. Stjórnvöldin hafa bannað fólki sem býr í Grindavík för þangað og munu þau styðja bannið við 23. og 24. gr laga nr. 82/2008 um almannavarnir. Þetta bann hlýtur að byggjast á þörf til að vernda íbúana fyrir sjálfum sér. Til þess hafa stjórnvöldin ekki heimild ef á annað borð verður talið, eins og hér á landi, að borgarar búi almennt við persónulegt frelsi. Telja verður að heimildir laga um almannavarnir hljóti að víkja fyrir ákvæðum stjórnarskrár. Persónulegt frelsi eigendanna heimili þeim m.a. að stofna sjálfum sér í hættu ef einhver hætta er ferðinni á annað borð. Benda má á til skýringar að ekkert í settum lögum bannar mönnum t.d. að svipta sjálfa sig lífi ef því er að skipta og ekki verður mönnum refsað fyrir þann gjörning.

    Íbúum í Grindavík er kunnugt um þær hættur sem stjórnvöld kveðast telja að séu til staðar þar. Fari þeir þangað er þeim því ljóst að þeir bera sjálfir ábyrgð á för sinni.

    Það er m.ö.o. ekki hér á landi til að dreifa almennri lagareglu sem bannar mönnum að stofna lífi sínu í hættu með ýmis konar starfsemi og gera menn það iðulega án afskipta stjórnvalda, svo sem við iðkun alls kyns íþrótta. Má þar t.d. nefna fjallgöngur við hættulegar aðstæður, langsund í köldum sjó, flug úr mikilli hæð með tilbúnum vængjabúnaði, fallhlífarstökk o.m.fl. Lendi menn í lífsháska, sem þeir þekktu fyrir, geta þeir ekki átt kröfu um að opinberar hjálparsveitir komi þeim til bjargar.

    Telja verður að þessi réttur manna sé varinn af 71. gr. stjórnarskráinnar og gangi hann því framar reglum í almennum lögum sem yfirvöldin hafa byggt á ákvarðanir sínar um bann við för og fastri búsetu í Grindavík.

    Hér eru á ferðinni spurningar um þýðingarmikil atriði sem snerta lagalegan grundvöll þjóðfélags okkar. Rétt er að hafa nokkur orð um það.

    Frumeiningar í ríki okkar, sem og annarra þjóða, eru mennirnir sem búa á vettvangi þeirra. Vald ríkisins stafar frá þeim, a.m.k. þar sem lýðræðislegt skipulag ríkir. Það felur í sér að stjórnendur ríkisins sækja vald sitt til fólksins í landinu og bera ábyrgð á meðferð þess gagnvart því. Borgararnir eiga í grunninn að ráða sjálfir eigin málefnum, enda raski þeir ekki hagsmunum annarra. Þrátt fyrir þetta eru dæmi um að ríkið fari með vald í málefnum, sem snúa að borgurum í heild og samskiptum þeirra á milli. Rekstur dómstóla, sem byggist á lögum er dæmi um þetta. Jafnframt getur ríkisvaldið ráðist til sameiginlegra verka sem snerta hagsmuni margra, jafnvel allra borgara. Dæmi um það er vegagerð í landinu og stofnun og rekstur annarra samgöngumannvirkja. Þessi starfsemi ríkisins byggist á settum lögum og raskar ekki stjórnarskrárvörðum réttindum borgaranna.

    Sumir handhafar ríkisvalds virðast líta á ríkið sem eins konar félag, þar sem stjórnendur þess ráði hvaða málefnum borgaranna sem er. Þeir geti sagt félagsmönnum til um hvers kyns breytni þeirra. Þetta er misskilningur. Stjórnskipan okkar samkvæmt stjórnarskránni byggist á því að borgararnir hafi frelsi til að ráða sér sjálfir í málefnum sem ekki snerta aðra. Þeir bera þá ábyrgð á því sem þeir taka sér fyrir hendur og hróflar ekki við réttindum annarra. Það breytir engu þó að almennir borgarar kunni að vera á sama máli og handhafar ríkisvaldsins um þetta.

    Mannréttindaákvæði stjórnarskrár ganga fyrst og fremst út á að vernda menn fyrir öðrum mönnum; ekki bara þeim sem beita aðra menn ofbeldi, heldur líka þeim sem vilja ráðskast með hagsmuni annarra án heimildar þeirra sjálfra.

    Vera má að sumir sjái hvorki né skilji takmarkanirnar á valdi ríkisins á þann veg sem hér er talið. Þeir halda þá að handhafar ríkisvaldsins megi fara með vald sitt eins og þeim þóknast. Almennir borgarar hafi ekkert um þetta að segja nema þá kannski á kjördegi. Þetta stenst ekki í lýðfrjálsu ríki. Svo mörg voru þau orð.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hentaði illa

    Svo furðulegt sem það er hafa ofsatrúarmenn á Íslandi tekið upp baráttu til stuðnings hryðjuverkasamtakanna Hamas í stríðinu gegn Ísrael. Þetta baráttufólk hefur þá helst ekkert viljað vita að upphaf átakanna nú var árás Hamas á saklausa borgara í Ísrael 7. október s.l. Hinir íslensku baráttumenn virðast hafa gripið hvert tækifæri til að styðja hinar palestinsku vígasveitir í þessu stríði án þess þá að nefna upphafið 7. október.

    Það hljóp því á snærið hjá ofsatrúarmönnum, þegar fram kom að palestínskur maður óskaði eftir að fá að taka þátt fyrir Íslands hönd í söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva þetta árið. Stóð ekki lengi á háværum stuðningi þessara Íslendinga við manninn og lag hans án þess þó að vita neitt um lagið sem hann hugðist flytja. Þeir höfðu þá ekki einu sinni hlustað á það áður en baráttan hófst. Virtust margir þeirra telja þá strax að þetta væri lagið sem senda skyldi til keppninnar enda væri það sýnishorn um stuðning Íslendinga við Hamas-liða í þessu stríði.

    Þá kom í ljós að þessi söngfugl hugðist flytja kúrekalag í bandarískum stíl „Wild West/Villta vestrið“ í keppninni. Þetta hentaði illa fyrir íslensku baráttumennina. Og viti menn. Barátta þeirra til stuðnings laginu þagnaði samstundis.

    Það er ekki hægt að harma það að að ofsatrúarmenn, sem taka einhliða afstöðu með öðrum aðilanum í þessu dapurlega stríði, skuli fá svona kyrfilega á baukinn.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Kulnun í vinnunni

    Nú berast tíðindi af því að ríkisstarfsmenn, sem eiga að sjá um endurgreiðslur á virðisaukaskatti, geti ekki sinnt starfi sínu til fulls vegna kulnunar! Má fræðast um þessi skelfilegu tíðindi í frétt Morgunblaðsins laugardaginn 27. janúar s.l.

    Í frétt blaðsins kemur fram að fyrirbærið kulnun hafi fyrst komið fram á árinu 1974. Vandamál hafi skapast við skilgreiningu á fyrirbærinu og mun fræðimenn hafa greint á um það efni. Meginskýringin virðist vera sú að starfsmennirnir verði þreyttir. Virðast þeir hafa notið veikindaforfalla vegna þess arna.

    Ég trúi því vel að vinna við endurgreiðslu á virðisaukaskatti valdi því að starfsmenn verði loppnir í vinnunni, sérstaklega ef þeir eru látnir vinna við opna glugga í kuldunum sem hafa herjað á okkur að undanförnu.

    Ekki munu finnast dæmi um að starfsmenn fyrri tíðar hafi kulnað svona heiftarlega í kroppnum eins og nú tíðkast hjá skattinum. Þá liggja ekki fyrir upplýsingar um að þessa sjúkdóms gæti hjá starfsmönnum einkafyrirtækja sem ekki fá laun sín greidd úr ríkissjóði.

    Við þessu verður snarlega að bregðast. Réttast væri að fjölga ríkisstarfsmönnum verulega og þá sérstaklega þeim sem kólnar hjá skattinum. Fyrirtæki sem fá virðisaukaskatt endurgreiddan munar sjálfsagt ekkert um að endurgreiðslurnar verði lækkaðar svo nota megi aurana sem sparast til að greiða laun þeirra sem bætast við hjá skattinum og verður kalt í vinnunni.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Séra Friðrik

    Reglan um að menn skuli teljast saklausir þar til sekt þeirra hefur verið sönnuð gildir á Íslandi (2. mgr. 70. gr stjórnarskrár). Þetta er ekki bara lagaregla heldur einnig siðferðisregla sem við teljum flest að gildi um samskipti okkar. Ég þekki dæmi um að margir telji orðróm duga til að fella á menn sök. Orðrómur hefur tilhneigingu til að magnast, því mannfólkið smjattar á honum og eykur við hann ósannindum frá eigin brjósti. Um þetta þekki ég skýr dæmi. M.a. heyrast raddir sem telja menn seka um brot, þó að dómstólar hafi sýknað þá, þar sem sökin sé ósönnuð. Engin sök hefur sannast á séra Friðrik Friðriksson. Nú er fjarlægð stytta af honum, sem stóð við Lækjargötu í Reykjavík. Þeir sem hafa svívirt minninguna um þennan góða mann, eins og t.d borgaryfirvöld í Reykjavík, sem láta nú fjarlægja styttuna, ættu að skammast sín.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður