janúar 2024

  • Að gæta orða sinna

    Það er eins og íslenska þjóðin hafi orðið fyrir miklu áfalli við 8 marka tap landsliðs okkar í leiknum við Ungverja á Evrópumótinu í handbolta sem nú stendur yfir. Hvers vegna ætli að svo sé? Við erum á þessu móti að etja kappi við mörg af bestu landsliðum heims í handbolta. Það má vissulega fallast á að liðsmenn okkar hafi oft sýnt betri leik en birtist okkur þarna. Við getum hins vegar varla gert fyrirfram ráð fyrir að sigra alla andstæðinga okkar á svona sterku móti. Okkar leikmenn eiga góða daga og slæma eins og gerist í öllum íþróttum. Þetta var einn af þeim slæmu.

    Ég held að ástæðan fyrir þessu mikla áfalli þjóðarinnar vegna þessa taps eigi aðallega rót sína að rekja til þess að fyrirsvarsmenn liðsins, leikmenn þess sem og fréttamenn og fjölmargir aðrir „sérfræðingar“ hafi verið búnir að skapa allt of glaðbeittar væntingar um sigur okkar manna. Allir töluðu þeir fyrir leikinn eins og það væri öruggt mál að okkar lið myndi sigra. Málið snerist eingöngu um að spá um úrslitin í tölum, þar sem við höfðum alltaf betur. Ég held að menn ættu nú að hugsa ráð sitt. Þegar framundan er leikur við eina af sterkustu þjóðum Evrópu ættum við ekki að gera ráð fyrir því að sigur okkar manna sé fyrirsjáanlegur. Í þessu eins og öðru má fullyrða að menn ættu að gæta orða sinna. Og kannski gætu okkar liðsmenn átt betri dag í kappleikjum sínum ef fyrirfram hefur verið gert ráð fyrir þeim möguleika að viðkomandi leikur kunni að tapast. Fyrirfram sigrar í viðfangsefnum lífsins hafa aldrei kunnað góðri lukku að stýra. Þeir geta miklu fremur lagt álag á keppnismenn okkar sem þeir a.m.k. stundum geta ekki staðið undir. Hér sem endranær er auðmýkt og lítillæti áreiðanlega besta veganestið. Sigur er líka miklu ánægjulegri þegar hann hefur unnist á leikvellinum en ekki í sjálfumgleði okkar fyrirfram.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Ógnvænleg barátta gegn fíkniefnum

    Að undanförnu hafa í sjónvarpi birst myndir sem sýna blóðuga styrjöld stjórnvalda gegn glæpamönnum sem framleiða og dreifa fíkniefnum. Þetta á sér ekki síst stað í ríkjum Suður-Ameríku. Nú síðast hafa borist ógnvænlegar fréttir um þetta frá Ekvador. Þar er fólk úr fíkniefnaheiminum svipt lífi í stórum stíl.

    Baráttan gegn þessum efnum veldur líka miklum hörmungum á Vesturlöndum, þar á meðal á Íslandi. Þannig sjáum við hér á landi afbrotamenn fremja glæpi undir áhrifum þessara efna, þ.m.t. manndráp. Þessa dagana er í fréttum sagt frá hörmulegum örlögum konu á Selfossi sem fékk ekki læknishjálp um langan tíma vegna þess að maður, sem er jafnvel talinn hafa banað henni, kallaði ekki á hjálp, þar sem hann var upptekinn við að fela fíkniefni sín.

    Sagan af baráttunni gegn fíkniefnunum er harmþrungin. Í stríðinu gegn þeim hefur gríðarlegur fjöldi fólks látið lífið, þar með talinn mikill fjöldi almennra borgara sem margir hverjir hafa í sjálfu sér aldrei verið sjálfviljugir þátttakendur. Þó að stefna margra ríkja hafi e.t.v. mildast á undanförnum árum, sýna rannsóknir að miklu fleiri láta lífið í þessu stríði heldur en myndu verða fíkniefnunum sjálfum að bráð ef þau yrðu einfaldlega leyfð eins og áfengi. Og margs konar annað böl fylgir hinni opinberu bannstefnu gegn fíkniefnunum. Haldið er lífi í undirheimum, þar sem glæpir þrífast og löggæslan ræður ekkert við. Ungmenni, sem leiðast út í neyslu, verða fórnarlömb glæpamanna. Þau fjármagna neysluna með glæpum og vændi. Efnin sem dreift er geta verið stórhættuleg meðal annars vegna þess að stundum er reynt að drýgja þau með íblöndun annarra efna. Og þó að afstaðan kunni að hafa mildast er árangurinn af þeirri viðleitni smávægilegur. Efnin flæða yfir á Vesturlöndum og yfirvöldin ráða ekkert við vandann.

    Þjóðir heims ættu að taka sig saman um að breyta þeirri stefnu mannfórna sem þær flestar fylgja í þessum málaflokki. Það ætti hreinlega að leyfa að minnsta kosti flestar tegundir fíkniefna. Efnin yrðu þá framleidd undir vörumerkjum og dreift á almennum markaði eins og áfengið. Það er líka löngu sannað að þeir sem lenda í erfiðleikum vegna neyslu efnanna eiga sér miklu meiri von um bata með samskonar aðferðum og dugað hafa áfengissjúklingum, það er að fara í meðferð til að læra að skilja vanmátt sinn gagnvart þessum efnum og taka ábyrgð á eigin lífi.

    Breytt stefna í þessum málum er til þess fallin að kippa fótunum undan starfsemi glæpamanna sem nærast á banninu og undirheimagróskunni sem það leiðir af sér. Það er löngu kominn tími til að þjóðir heims vakni og átti sig á því að stefnan sem fylgt hefur verið á þessu sviði er bara eins konar helstefna með glæpum og mannfórnum sem unnt er að draga úr svo um munar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • „Í pólitík“

    Fyrir liggur að matvælaráðherra braut af ásetningi gegn lögum þegar hún bannaði hvalveiðar s.l. sumar. Eftir að Umboðsmaður Alþingis gaf út álit sitt, en efni þess er hafið yfir allan vafa, hefur hún lýst berum orðum yfir, að lögin um hvalveiðar frá 1949 séu svo gömul að hún hafi ekki þurft að fara eftir þeim. Hún sé „í pólitík“ og þurfi hvorki að hlíta lögum né beita meðalhófi, svo sem henni var skylt að gera.

    Fyrir liggur að fram verður borin þingsályktunartillaga um vantraust á ráðherrann, þegar Alþingi kemur saman eftir jólaleyfi síðar í þessum mánuði. Að undanförnu hafa fjölmiðlar, eins og eðlilegt er, spurt þingmenn stjórnarflokkanna hvort þeir hyggist styðja tillöguna. Þá víkur svo við að þeir, hver af öðrum, segjast ekki vera búnir að ákveða sig. Hvers vegna ætli það sé? Er einhver vafi á því að ráðherrann braut freklega gegn lögunum, eins og hann hefur sjálfur viðurkennt, og olli með því háu fjártjóni sem skattgreiðendum verður gert að greiða eftir að dómur hefur gengið um skyldu ríkissjóðs til að greiða þær?

    Og þá kemur spurningin sem rís ef og þegar afgreiða á tillöguna um vantraust í þinginu. Málið liggur alveg ljóst fyrir. Ráðherrann braut gróflega af sér með þeim hætti að alþingismenn geta ekki verið í nokkrum vafa um afstöðu sína til tillögunnar um vantraust. Eru þingmennirnir „bara í pólitík“, eins og ráðherrann, þannig að hrossakaup milli stjórnarflokka geti valdið því að þingmennirnir muni skrifa upp á framferði ráðherrans með því að greiða atkvæði gegn tillögunni? Er pólitíkin í landinu svona gjörspillt?

    Ástæða er til að taka fram að háttsemi ráðherrans braut bersýnilega gegn lögum nr. 4/1963 um ráðherraábyrgð, sbr. 2.-4. og 8.-10. gr. þeirra. Samkvæmt þessum lögum geta brot gegn þeim bæði varðað ráðherra refsingu (11. gr.) og skaðabótaskyldu (13. gr.) vegna þess tjóns sem hann hefur valdið ríkissjóði. Kannski ráðherrann telji þessi lög svo gömul að þau gildi ekki lengur?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Lögin of gömul?

    Það var ótrúlegt að heyra í hvalveiðiráðherranum í kvöldfréttum sjónvarps. Hún sagði að lögin um hvalveiðarnar væru frá 1949 og þess vegna þyrfti ekki að fara eftir þeim; þau væru svo gömul. Svo væri efni þeirra ómögulegt og hún væri á öðru máli en lögin um hvernig standa ætti að málum. Hún hefði því ákveðið að fara ekki eftir lögunum. Svo hún hefði því bannað hvalveiðar með dags fyrirvara og valdið stórfelldu tjóni hjá þeim sem höfðu stundað þessar veiðar og hugðust halda því áfram. Loks kvaðst hún ekki ætla að taka neina ábyrgð á ólögmætri aðför sinni að veiðimönnum. Og sjáið til; hún mun sitja áfram. Þjóð sem á ráðherra sem haga sér svona án þess að bera nokkra ábyrgð. hlýtur að vera vel sett, eða hvað? Kannski er þetta bara grín?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Stjórnsýsla án ábyrgðar

    Það fór eins og ég spáði. Ráðherra hvalveiða mun ekki þurfa að víkja úr embætti, þó að fyrir liggi að hann (hún) hafi valdið ríkissjóði bótagreiðslum vegna ólögmætrar stöðvunar hvalveiða s.l. sumar, Þessar greiðslur munu væntanlega kosta þjóðina tugi milljóna króna. Flokkssystir ráðherrans, sem situr í embætti forsætisráðherra, hefur komist að þessari niðurstöðu og formenn hinna stjórnarflokkanna lagt blessun sína yfir. Þetta er ótrúlegt. Stór hluti þjóðarinnar virðist í þokkabót vilja kjósa forsætisráðherrann í embætti forseta Íslands og er því spáð að hún sé liklegri öðrum til að ná kjöri. Þá liggur það fyrir. Einstakir ráðherrar eru ekki bundnir af landslögum við embættisfærslur sínar ef þeir eru persónulega þeirrar skoðunar að lögin ættu að vera annars efnis en þau eru. Getur verið að þjóðin verðskuldi þessa stjórnendur? Svari nú hver fyrir sig.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður