Friðvænlegasta ráðið

Á nánast hverjum degi fáum við skelfilegar fréttir af ofbeldisverkum manna sem telja sig þurfa að ná sér niðri á öðrum. Þetta geta verið glæpaverk innan okkar eigin samfélags en stærst eru samt ofbeldisverkin sem eitt ríki fremur á öðrum ríkjum og þar með lifandi fólki sem þar býr. Það er ekki auðvelt að benda á ráðin sem duga best gegn svona háttsemi. Ég held samt að eitt ráð dugi frekar en önnur, en það er að kynnast af heilum hug þeim sem ofbeldinu beita og þeim sem þurfa að þola það; reyna að öðlast skilning á viðhorfum þeirra og lífsháttum. Skilningur á þessu er friðvænlegasta ráðið í heimi mannanna, því sérhver maður er ólíklegur til að vilja fremja ofbeldisverk á öðru fólki ef hann þekkir þarfir þess og sjónarmið.

Þó að við getum ekki hvert og eitt valdið neinum straumhvörfum í þessu getum við kannski með sameiginlegu átaki haft áhrif til að draga úr ofbeldinu. Hvert og eitt okkar hefur fyrst og fremst áhrifavald yfir sjálfum sér. Nýtum þau yfirráð til að kynnast öðrum og skilja þarfir þeirra. Gerum þetta sem flest að fyrirheiti fyrir árið sem er nú að hefjast.

Gleðilegt ár.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður