Nú hafa umbjóðendur okkar á lögmannsstofunni hætt við fyrirhugaða málsókn á hendur ríkinu til að fá hnekkt banni við því að þeir tækju á ný yfirráð yfir fasteignum sínum í Grindavík. Ekki veit ég gjörla hver er ástæða þeirra fyrir þessu.
Eins og flestir vita byggðu þessir menn sjónarmið sín á því að ríkisvaldið hefði ekki heimild til að vísa þeim á brott úr bænum og þar með úr húsum sínum. Lá fyrir að ástæða yfirvaldanna fyrir þessari ákvörðun var sú að hætta væri á eldgosi í bænum, sem gæti orðið þeim að fjörtjóni, ef þeir byggju þar, þegar það gerðist. Þeir höfðu hins vegar byggt fyrirætlanir sínar um málsókn aðallega á því að ekki væri unnt að banna þeim afnot af eigum sínum af þessari ástæðu. Þeir nytu réttar til að nýta eignir sínar, enda væri þeim kunnugt um hugsanlega hættu sem vísað væri til og bæru því sjálfir ábyrgðina á því að flytja aftur inn í hús sín. Töldu þeir að þessi réttur þeirra væri varinn af stjórnarskránni og gengi því framar reglum í lögum um almannavarnir sem yfirvöldin byggðu á ákvarðanir sínar um bann við fastri búsetu í húsunum.
Þetta mál hefur vakið upp spurningar um þýðingarmikil atriði sem snerta lagalegan grundvöll þjóðfélags okkar. Nokkur orð um þetta.
Frumeiningar í ríki okkar eru mennirnir sem búa á vettvangi þess. Vald ríkisins stafar frá þeim, þar sem lýðræðislegt skipulag ríkir, sem felur það í sér að stjórnendurnir draga vald sitt frá fólkinu og bera ábyrgð á meðferð þess gagnvart þeim. Borgararnir eiga í grunninn að fara sjálfir með vald í sínum eigin málefnum, enda raski þeir ekki hagsmunum annarra. Þrátt fyrir þetta fer ríkið með vald í málefnum sem snúa að borgurum í heild og samskiptum þeirra á milli. Rekstur dómstóla getur verið dæmi um þetta. Jafnframt getur ríkisvaldið ráðist til sameiginlegra verka sem snerta hagsmuni margra, jafnvel allra borgara. Dæmi um það er vegagerð í landinu og stofnun og rekstur annarra samgöngumannvirkja.
Margir virðast líta á ríkið sem eins konar félag, þar sem stjórnendur þess ráði hvaða málefnum borgaranna sem er. Þeir geti sagt félagsmönnum til um hvers kyns breytni þeirra. Þetta er að mínum dómi mikill misskilningur. Stjórnskipan okkar samkvæmt stjórnarskránni byggist á því að borgararnir hafi frelsi til að ráða sér sjálfir í málefnum sem ekki snerta aðra. Þeir bera þá ábyrgð á því sem þeir taka sér fyrir hendur og hróflar ekki við réttindum annarra.
Mannréttindaákvæði stjórnarskrár ganga fyrst og fremst út á að vernda menn fyrir öðrum; ekki bara þeim sem beita aðra menn ofbeldi, heldur líka þeim sem vilja ráðskast með málefni sem öðrum koma ekki við og vilja ekki taka þátt í.
Þegar grannt er skoðað gekk Grindavíkurmálið út á þetta. Höfðu handhafar ríkisvaldsins heimildir til að banna mönnum nýtingu eigna sinna á þann hátt að ekki skaðaði aðra? Kannski hvorki sjá menn né skilja takmarkanirnar á valdi ríkisins á þann veg sem að framan greinir? Þeir halda þá að handhafar ríkisvaldsins megi fara með vald sitt eins og þeim þóknast. Almennir borgarar hafi ekkert um þetta að segja nema þá kannski á kjördegi. Ef þetta eru almenn viðhorf almennings í landi okkar er málum illa komið.
Við skulum vona að svo sé ekki.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður