Réttur íbúa í Grindavík

Lagaleg sjónarmið um rétt íbúa í Grindavík til að fara til heimila sinna þrátt fyrir bann stjórnvalda:

1. Óheimilt er að meina mönnum að fara til heimila sinna nema að lágmarki sé sýnt fram á að öðrum mönnum stafi hætta af för þeirra þangað. Líklega halda stjórnvöldin því ekki einu sinni fram að slík hætta stafi af heimförinni. Þannig eru ákvæðin í 3. mgr 71. gr. stjórnarskrár um að takmarka megi friðhelgi heimilis klárlega bundin við að ógnað sé réttindum annarra. Stjórnvöldin virðast einungis styðja bann sitt við þörf á að vernda eigendur húsa í Grindavík fyrir sjálfum sér. Til þess hafa þau ekki heimild ef á annað borð verður talið, eins og hér á landi, að borgarar búi almennt við persónulegt frelsi. Ákvæði 23. og 24. gr laga um almannavarnir, sem stjórnvöld sjálfsagt vísa til, hljóta því að víkja fyrir þessum ákvæðum stjórnarskrár. Persónulegt frelsi eigendanna heimilar þeim m.a. að stofna sjálfum sér í hættu ef einhver hætta er ferðinni á annað borð. Benda má á í framhjáhlaupi að ekkert í settum lögum bannar mönnum t.d. að svipta sjálfa sig lífi ef því er að skipta enda verður engum refsað fyrir þann gjörning.

2. Engar forsendur eru til að telja einu sinni að eigendunum eða fjölskyldum þeirra stafi sjálfum hætta af því að fara á heimili sín. Sönnunarbyrði um þetta hlýtur að hvíla á stjórnvöldunum sem byggja bann sitt á þessu. Sé svona hætta talin vera fyrir hendi hlýtur hún líka að teljast smávægileg og getur hreint ekki talist nægileg til að standa framar rétti eigendanna til nýtingar á eignum sínum.

3. Jafnvel þó að talið verði að eigendurnir stofni lífi sínu í verulega hættu með heimför sinni hafa stjórnvöld ekki heimild til að banna þeim förina. Engin almenn regla bannar mönnum að stofna lífi sínu í hættu og gera menn það iðulega án afskipta stjórnvalda svo sem við iðkun alls kyns íþrótta. Má þar t.d. nefna fjallgöngur við hættulegar aðstæður, langsund í köldum sjó, flug úr mikilli hæð með tilbúnum vængjabúnaði o.m.fl.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður