nóvember 2023

  • Ósómi í Hæstarétti

    Við stofnun Landsréttar var gerð meginbreyting á skipan og starfsháttum dómstóla í landinu. Fólst hún fyrst og fremst í því að stofnaður var nýr dómstóll, Landsréttur, og var tilgangurinn sá að létta álaginu af Hæstarétti, sem var allt of mikið. Varð Landsréttur almennur áfrýjunardómstóll í stað Hæstaréttar sem aðallega skyldi framvegis dæma í málum sem rétturinn sjálfur veitti áfrýjunarleyfi fyrir. Þessar breytingar gengu í gildi 1. janúar 2018.

    Á heimasíðu Hæstaréttar eru birtar ársskýrslur réttarins aftur í tímann. Þar kemur í ljós að dæmd mál voru um 760 á ári fram að þessum breytingum. Hafa ber í huga að ekki fór fram munnlegur málflutningur í kærumálum sem flutt voru skriflega. Þau gátu verið 2-400 á ári. Þá sátu 9 dómarar í réttinum en urðu 7 við breytingarnar. Frá og með árinu 2019 hefur rétturinn aðeins dæmt að meðaltali í 30-60 málum á ári. Þetta var fyrirsjáanlegt en samt var dómurum aðeins fækkað um tvo. Til samanburðar get ég nefnt að árið 2010, þegar ég var dómari við réttinn, dæmdi ég í u.þ.b 320 málum. Það voru að meðaltali 2 mál á hverjum starfsdegi mínum það ár. 

    Í viðbót við dómana veitir rétturinn áfrýjunarleyfi. Beiðnir um þær hafa verið 70-170 á árunum 2018-2022. Þrír eða fjórir löglærðir aðstoðarmenn eru í réttinum og tel ég víst að þeir geri drög að svörum við óskum um þessi leyfi, þannig að varla fer mikill tími hjá dómurunum í vinnu við þau. Þessar beiðnir eru afgreiddar skriflega og fer því ekki fram munnlegur málflutningur við afgreiðslu þeirra. Þá eru allmörg tilvik á þessum árum eftir breytinguna, þar sem varadómarar tóku sæti í dómsmálum sem flutt voru við réttinn.

    Við blasir að fækka hefði átt dómurum í fimm, svo sem var raunin á síðustu öld, þar til málafjöldinn fór að vaxa í kringum 1970.

    Dómararnir sjálfir vildu við breytingarnar 2018 að fjöldi þeirra yrði sjö, þó að aðeins fimm dómarar ættu að sitja í dómi í flestum tilvikum. Það var auðvitað látið eftir þeim eins og jafnan er gert á Íslandi þegar svona mekilegir gæslumenn hagsmuna sinna óska þess. Þeir hafa bara viljað létta á starfsálaginu, líklega til að geta lifað náðugra lífi. Svo hafa þeir að auki viljað fá tækifæri til að sinna öðrum störfum við hliðina á dómsstörfunum. Um það eru mörg dæmi. Til dæmis eru tveir þeirra skipaðir eða settir í stöður prófessora við lagadeild Háskóla Íslands svo furðulegt sem það er. Ekki eru að minni hyggju þekkt mörg önnur dæmi um að sami maður hafi verið af ríkinu skipaður í tvær fullgildar stöður samtímis. Það ætti alls ekki að vera heimilt. Við fyrri tíðar skipanir hæstaréttardómara sögðu þeir, sem gegnt höfðu prófessorstöðum, störfum sínum lausum, þegar þeir fengu skipun sem dómarar. Dæmin eru svo um að dómararnir afli sér nú drjúgra tekna með öðrum störfum jafnhliða þægilegum dómarastörfum sínum.

    Í viðbót við þessi ósæmilegu starfskjör dómaranna hafa þeir náð til sín og klíkubræðra sinna valdinu til að ákveða hverjir skuli verða nýir dómarar þegar embætti losna. Mörg dæmi eru um að þá séu valdir vinir eða skyldmenni. Umsagnir um hæfni umsækjenda breytast milli ára eftir því hverjir sækja um. Verðleikar í fyrri umsögnum hverfa fyrir öðrum þáttum. Þetta eru sýnilega aðferðir til að koma að vinum og skyldmennum en ekki þeim, sem öllum sem til þekkja er ljóst að eru hæfustu umsækjendurnir. Of langt mál yrði í þessari stuttu grein að reifa umsagnir um umsækjendur sem sótt hafa um dómaraembætti við réttinn.

    Það er tillaga mín að þeir stjórnmálamenn sem um þetta þinga eigi að ganga í það verk að breyta lögum til að uppræta allan þennan ósóma. Þeir ættu að afla upplýsinga um heildartekjur dómaranna og hvaðan þær séu fengnar í einstökum tilvikum. Þessar upplýsingar ætti svo að birta almenningi, þó að ekki væri til annars en að menn geti við rekstur mála sinna vitað hvort einstakir dómarar teljist hæfir til setu sem dómarar í máli þeirra. Auk þess eru þetta upplýsingar sem almenningur á að mínum dómi rétt á að fá til aðhalds þessum valdamönnum íslenska ríkisins sem taka svo afdrifaríkar ákvarðanir um málefni fólksins.

    Svo á auðvitað að fækka dómurum réttarins í fimm. Verkefnin kalla ekki á fleiri hæstaréttardómara. Þetta myndi líka spara umtalsverð útgjöld úr fjárvana ríkissjóði.

    Þess skal getið að ég gaf út ritið „Veikburða Hæstiréttur“ á árinu 2013, þar sem gerð er ítarleg grein fyrir breytingum sem ég tel að gera þurfi á lagareglum um Hæstarétt, ef rétturinn á að geta staðið undir nafni.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Háskólamenn

    „Við undirrituð, starfsfólk við Háskóla Íslands, lýsum yfir stuðningi við palestínsku þjóðina, baráttu hennar fyrir tilvistarrétti sínum gegn ísraelskri nýlendustefnu og þjóðarmorði.“

    Þetta eru inngangsorð sem 315 íslenskir háskólakennarar sameinuðust um í síðustu viku. Þar var ekki minnst á hver voru upptök stríðsátakanna í Palestínu, en þau voru hryðjuverkaárás Hamas-samtakanna í Palestínu á Ísrael sem áttu sér stað 7. október s.l. Þar voru saklausir borgarar drepnir í stórum stíl og aðrir fluttir sem gíslar til Palestínu.

    Íslensku kennararnir segjast leita sannleikans en minnast ekki á upphaf þeirra átaka sem þarna er fjallað um. Menn sem elska sannleikann geta varla fjallað um þessa atburði án þess að nefna upphafið. Hryðjuverkamennirnir vissu vel hver viðbrögð Ísraelsmanna yrðu en létu sér það í léttu rúmi liggja. Virðast þeir ekki láta sig það nokkru skipta þó að aðgerðir þeirra hafi leitt til fyrirsjáanlegra mannvíga á báða bóga, þar sem saklausir borgarar og börn yrðu fórnarlömb mannvíganna. Þvert á móti virðast hryðjuverkamennirnir nota fólkið sem eins konar skildi fyrir árásum Ísraelsmanna.

    Menn geta spurt sjálfa sig hvort nokkurt ríki í veröldinni hefði látið það afskiptalaust að ráðist yrði á það á þann hátt sem Hamas gerði 7. október. Þessir íslensku háskólamenn virðast telja að Ísraelsmenn hefðu ekkert átt að bregðast við. Það er sannarlega hörmulegt að saklausir borgarar og börn skuli verða fórnarlömb í stríði eins og þarna er háð. Sannleiksleitandi íslenskir háskólamenn ættu hins vegar að segja alla söguna í stað þess að koma fram sem hlutdrægir baráttumenn gegn öðrum aðilanum í þessu dapurlegu atburðum. Þjóðfélagsrýnirinn Guðmundur Ólafsson sagðist á fasbókinni vera stoltur af kennurunum. Mér finnst að hann hefði frekar átt að skammast sín fyrir þá.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hryðjuverkasamtök

    Hópur Íslendinga hefur tekið sig saman um að styðja múslima sem mynda hryðjuverkasamtökin Hamas í stríðinu gegn Ísrael, þó að þessi samtök hafi stofnað til þessa stríðs með hryðjuverkum í október s.l. Þessi árás var gerð, þrátt fyrir að árásarmenn vissu að með henni væri friðsælum palestínumönnum stefnt í hættu með viðbrögðum Ísraelsmanna. Svo var að sjá að þá gilti einu þó að lífi þessa fólks væri stofnað í hættu með því að hafa af því skjól fyrir Ísraelsmönnum.

    Í seinni tíð hefur sú framvinda orðið í Svíþjóð að þar „starfa“ glæpagengi Múhameðstrúarmanna sem leggja það fyrir sig að myrða fólk þar í landi. Saklausir Svíar þora margir ekki út úr húsi af ótta við þessa glæpamenn. Væri nú ekki ráð fyrir íslensku samtökin að álykta um stuðning sinn við glæpagengin í Svíþjóð? Þeir hljóta að vilja vera samkvæmir sjálfum sér, eða hvað?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Lífsgæfa

    Í byrjun september 1972 hlotnaðist mér lífsgæfa sem hefur dugað mér síðan. Ég kynntist minni frábæru eiginkonu. Tíminn sem liðinn er telur rúmlega 51 ár. Hún á afmæli í dag 14. nóvember. Það er ekki hægt að hugsa sér betri lífsförunaut en hana. Börnin eru 5 og barnabörnin 15. Þetta stórveldi höfum við skapað saman, þó að hún eigi mestan heiðurinn af því. Hún sinnir þessu fólki með ómældri ást og umhyggju. Takk lífsástin mín fyrir þennan tíma sem getið hefur þetta kraftaverk af sér.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Gengur fram fyrir skjöldu

    Einn er sá maður úr hópi lögfræðinga sem reynist óþreytandi við að verja fullveldi Íslands. Sá heitir Arnar Þór Jónsson. Hann birtir nú í vikunni tvær greinar í Morgunblaðinu, þar sem hann sýnir fram á að nýgenginn dómur Hæstaréttar Noregs, sem féllst á takmarkað framsal þar í landi á fullveldi Noregs til evrópska stofnana, hafi ekki minnstu þýðingu fyrir íslenskan rétt. Rökstyður Arnar Þór mál sitt með markvissum hætti sem ekki verður á móti mælt.

    Tvö atriði standa upp úr í rökfærslu Arnars Þórs. Í fyrsta lagi er að finna í stjórnarskrá Noregs ákvæði sem leyfir takmarkað framsal fullveldis landsins til evrópskra stofnana. Slíkt ákvæði er ekki að finna í stjórnarskrá okkar Íslendinga. Auk þess má segja að niðurstaðan í Noregi hafi byggst á vafasamri túlkun stjórnarskrárinnar þar í landi. Í þessu tilviki hafi rétturinn gengið lengra en hann hafði heimild til að réttum lögum. Þess utan skiptir túlkun í Noregi ekki nokkru máli hér á landi, þar sem við erum fullvalda og sækjum því ekki lögfræðilegar úrlausnir til annarra þjóða þó að tengdar séu okkur. Her á landi gildir hin íslenska stjórnarskrá en ekki sú norska.

    Íslenskir Evrópusinnar hafa vísað til þessa norska dóms með andagt til stuðnings málflutningi sínum um heimildina til að framselja fullveldi okkar Íslendinga. Arnar Þór sýnir fram á að slík heimild er ekki til staðar hér á landi. Hann á mikinn heiður skilinn fyrir baráttu sína fyrir fullveldi Íslands, sem ræðst ekki af þessum norska dómi. Ég tek ofan hatt minn fyrir þessum sanna Íslendingi sem jafnan er reiðubúinn til að ganga fram fyrir skjöldu til varðveislu á grunnréttindum okkar Íslendinga. Takk Arnar Þór!

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Mogginn

    Við gamlingjarnir látum á sjá með aldrinum. Ég er t.d. hættur að skrifa greinar í Moggann eins og ég gerði reglulega um áratuga skeið. Ég hef þess í stað skrifað pistla á Fasbókarsíðu mína og birt þær líka jafnóðum á heimasíðu skrifstofu minnar jsg.is. Líklega hefur dregið eitthvað úr eldmóði við greinarskrifin þó að ég telji þau áfram einkennast af viðhorfum um frelsi og ábyrgð sem ég vil sjá stjórnmálin í landinu einkennast af í miklu ríkari mæli en nú er orðið. Samt fæ ég yfirleitt athugasemdir frá lesendum greinanna sem oftast telja þær eiga erindi og láta í ljósi ánægju með þær. Ætli ég eigi því ekki eftir að halda þessum skrifum áfram um sinn, a.m.k. meðan ég hef þrek til og einhver nennir að lesa.

    Nú er svo komið að Mogginn er eina dagblaðið sem gefið er út á landsvísu og kemur út daglega. Dofnað hefur yfir stjórnmálaskrifum blaðsins og sýnir það ekki sömu snerpu í því efni og áður. Mér finnst blaðið frekar leggja áherslu á að geðjast öllum. Í því felst undanlátsemi við viðhorf þeirra sem telja afskipti ríkisins af málefnum borgaranna sjálfsögð í miklu ríkari mæli en áður var. Þetta birtist líka í efnistökum blaðsins um almenn málefni í þjóðlífinu. Kannski er þetta afleiðing af því að ekki eru lengur gefin út blöð sem boða öndverða stefnu við þá sem Mogginn hefur lengst af staðið fyrir. Mogginn varð 110 ára fyrir nokkrum dögum. Ég er áskrifandi að blaðinu og les það á hverjum degi. Mér finnst blaðið vera besta fréttablaðið sem gefið er út hér á landi. Á hinn bóginn tel ég að stjórnmálaskrif blaðsins ekki lengur helgast af þeirri hugsjón um frelsi og ábyrgð sem áður var, hvað sem því veldur.

    Ég var blaðamaður við blaðið um skamma hríð á fyrstu árum starfsævi minnar og rennur því blóðið til skyldunnar. Ég skrifaði fréttir af Alþingi og svo var mér trúað fyrir að skrifa stundum pistla í Staksteina, sem ætlast var til að birtu m.a. hvassa gagnrýni á sameignarstefnu stjórnmálanna. Á þessum árum voru stjórnmálaskrifin í blaðinu talin geta skipt máli um framvindu mála. Þau byggðu í grunninn á sömu stjórnmálahugsjón og ég hef sjálfur haft alla tíð og viljað byggja skrif mín á þó að birt væru á öðrum vettvangi. Ríkisafskipti eru nú einkennandi fyrir gang stjórnmálanna í landinu. Brýn þörf er á að blaðið sýni hvasst andóf gegn þeim sósíalísku viðhorfum sem stjórna þessu.

    Ég læt það nú eftir mér að hvetja blaðið til dáða. Mér finnst að blaðið ætti að skera upp herör gegn sósíalismanum og láta skrif sín aðallega snúast um hugsjónina um frelsi og ábyrgð og hvort sjónarmið um þessa hugsjón hafi þau áhrif á gang mála í landinu sem verðugt væri.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður