október 2023

  • Killers of the Flower Moon

    Ég fór að sjá kvikmyndina „Killers of the Flower Moon“ sem komin er til sýninga hér á landi. Þessi mynd er gerð af hinum fræga leikstjóra Martin Scorsese og skartar í aðalhlutverkum leikurunum Leonardo DiCaprio, Robert De Niro og Lily Gladstone. Söguþráður myndarinnar er um Osage-ættbálk indjána í Oklahoma í byrjun síðustu aldar, þegar fundist hafði olía í landi ættbálksins og aðkomumenn fluttu inn á svæðið í því skyni að koma undir sig landinu og þar með olíuauðnum sem þar var að finna. Þar er atkvæðamestur William Hale eða kóngurinn sem Róbert De Niro leikur og handbendi hans frændinn Ernest, sem leikinn er af DiCaprio. Segir sagan af ástarsambandi Ernests við Molly Burkhart sem er af Osage ættbálknum. Hún er snilldarlega leikin af Lily Gladstone, sem segja má að steli senunni í kvikmyndinni.

    Meginefni myndarinnar er frásögn af glæpaverkum aðkomumannanna gegn fólkinu af þessum ættbálki. Er stuðst við raunverulega atburði. Tilgangurinn er að ná undir sig auðnum sem felst í olíulindunum á svæðinu. Aðgerðunum stjórnar William Hale og notar hann m.a. vitgrannan frænda sinn Ernest til að hafa milligöngu um að láta fremja morð á fólkinu úr ættbálkinum, sem átti stærsta hlutann af þessum auðæfum, og gera frændann að erfingja þess með því að kvænast Molly eftir að aðrir úr fjölskyldu hennar höfðu verið myrtir.

    Þetta er stórkostleg kvikmynd. Lýsir hún illvirkjum manna sem ásælast auð og er ekkert heilagt í þeirri viðleitni. Þetta er stef sem fylgt hefur mannkyninu um aldaraðir og valdið því að með réttu má telja mannskepnuna grimmasta dýr jarðarinnar. Grófasta dæmið um slíka háttsemi er kannski dæmið um fjöldamorð Þjóðverja á gyðingum á árum síðari heimsstyrjaldarinnar í Evrópu.

    Kvikmynd þessi er áhrifamikil lýsing á svona glæpaverkum. Sýnir hún vel hvernig fégræðgin leiðir menn til ólýsanlegra glæpa gagnvart fólki sem er vanbúið til að verjast slíkri háttsemi. Við lok myndarinnar eru flestir áhorfendur sjálfsagt fullir óhugnaðar. Er það ekki síst vegna þess að þarna er stuðst við atburði sem raunverulega áttu sér stað.

    Í Morgunblaðinu 28. október birtist dómur um kvikmyndina. Er þar talið að á henni séu annmarkar sem felast í því að frásögnin snúist meira um glæpaverk aðkomumanna en lifnaðarhætti þeirra sem fyrir þeim verða. Þetta er skrítinn dómur. Auðvitað er áhersla lögð á framferði þeirra sem glæpaverkin fremja. Um það fjallar myndin. Ég segi bara við lesendur: Farið og sjáið þessa harmþrungnu kvikmynd og látið ekki sérkennilegan dóm í þessu „blaði allra landsmanna“ fæla ykkur frá því. Kvikmyndin styrkir okkur í þeirri afstöðu að fordæma glæpi sem framdir eru til þess að auðga þá sem glæpina fremja. Við höfum svona háttsemi fyrir augunum daglega, þó að hún sé ekki jafn harmþrungin og lýst er í þessari kvikmynd.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Heilræði

    Eftir að hafa lifað langa ævi tel ég mig hafa lært eftirfarandi sannindi: Ekki leita hamingjunnar hjá öðrum. Leitið hennar í sjálfum ykkur með því að breyta ávallt rétt að ykkar eigin mati. Hlustið á skoðanir annarra en ekki láta þær ráða skoðunum ykkar fyrr en þið hafið að yfirveguðu ráði lagt mat á þær. Munið líka að lífshamingjan er ekki fólgin í að sækjast eftir ríkidæmi og völdum. Hún er fólgin í ástinni og þá fyrst og fremst á þeim sem næstir ykkur standa, oftast maka ykkar og börnum. Leyfið ykkur sjálfum að sofna að kvöldi sátt við afstöðu ykkar og gjörðir á deginum sem liðinn er. Þá mun svefninn veita ykkur hvíld og styrk til að fást við verkefni næsta dags.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Sjálftaka

    Sagt hefur verið frá því í fjölmiðlum að einstakir lögmenn og stofur þeirra hafi tekið tugi milljóna króna í þóknun á mánuði fyrir að hafa stýrt skiptum á slitabúum félaga sem komin eru í þrot. M.a. var nú sagt frá því í blaði að þekktur lögmaður á stórri stofu hefði haft 25 milljónir í tekjur á mánuði við slit á svona búi á árinu 2015. Þá hefur komið í ljós að lögmannsstofa þessa manns hafi tekið viðlíka þóknanir fyrir slitastjórn í öðrum þrotabúum. Hið sama mun eiga við í tilvikum þar sem aðrar stofur eiga hlut að máli.

    Þetta er með miklum ólíkindum og er stétt lögmanna til mikils vansa. Svo mun standa á að slitastjórarnir sjálfir skammta sér svona þóknanir. Þeir sem eiga fjárhagsmuni í búunum virðast ekki vilja að bera þessa sjálftöku undir dóm, hverju sem þar er um að kenna.

    Þetta framferði lögmannanna er stórlega vítavert og hlýtur að brjóta gróflega gegn starfsskyldum þeirra við að gæta þeirra hagsmuna, sem þeim er trúað fyrir. Ekki er ólíklegt að í þetta kunni að varða við ákvæði almennra hegningarlaga. Í ofanálag hefur þessi háttsemi þau áhrif að lögmannastéttin er stimpluð sem hópur ræningja sem notfærir sér aðstöðu sína til að féfletta aðila sem eiga fjárhagslega hagsmuni undir.

    Ástæða er til að skora á alla þá sem hafa orðið fyrir barðinu á þessari sjálftöku lögmanna til að bregðast nú við og leita allra lögmætra leiða til að draga þessa sjálftökumenn til ábyrgðar fyrir háttsemi sína.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

    Viðbót: Þó að ekki komi það fram í pistli mínum var þar verið að fjalla um skiptameðferð á Straumi í textanum. Ég byggði það sem ég skrifaði á pistli úr Mannlífi. Nú hefur mér verið bent á að nauðasamningum fyrir Straum-Burðarás lauk á árinu 2010. Hef ég sannreynt að það er rétt. Lögmaðurinn, sem er að vísu ekki heldur nafngreindur, hafði því ekki þær þóknunartekjur sem ég taldi í þessari frásögn. Biðst ég velvirðingar á þessu því öll viljum við hafa það sem sannara reynist. Hvað sem þessu líður er samt stóra málið að margir lögmenn notuðu tækifærið við slitameðferð, einkum banka eftir hrunið, að sjálftaka sér þóknanir sem fóru fram úr öllu velsæmi.

  • Ég er ekki að grínast

    Eins og ég hef skrifað um áður, komu í nóvember 2016 opinberlega fram upplýsingar um að nokkrir dómarar Hæstaréttar hefðu átt umtalsverðar hlutafjáreignir í íslensku bönkunum í hruninu svonefnda. Höfðu þessir dómarar þá orðið fyrir umtalsverðu fjártjóni. Allt að einu höfðu þeir setið í dómi gegn bankamönnum sem voru sakaðir og dæmdir fyrir að hafa valdið hruni bankanna og þar með tjóni dómaranna. Fengu bankamennirnir þunga refsidóma fyrir þessar sakir. Við meðferð málanna vissi enginn um þessa hagsmuni dómaranna. Við blasti að þeir höfðu af þessum sökum verið vanhæfir til setu í dómi yfir þessum sakborningum.

    Svo furðulegt sem það má teljast töldu einhverjir að þetta hefði ekki valdið vanhæfi dómaranna í sakmálunum. Meðal þeirra var þáverandi formaður dómarafélagsins. Kom hann fram í fjölmiðlum til að verja dómarana og mótmælti því harðlega að þeir hefðu af þessum sökum verið vanhæfir til meðferðar dómsmálanna yfir bankamönnunum. Hann hét og heitir ennþá Skúli Magnússon. Situr hann nú í embætti umboðsmanns Alþingis og skilaði nýverið áliti um að fjármálaráðherra hefði verið vanhæfur til að skrifa uppá sölu ríkisbanka sem bankasýslan hafði samið um við kaupendur hans, þ.m.t. við félag sem faðir ráðherrans hafði átt hlut í. Aðild ráðherrans að þessum samningum var einungis formlegs eðlis og hafði hann ekkert haft með þessa sölu að gera.

    Allir ættu að sjá að þessar sakir ráðherrans voru hreinir smámunir við hliðina á hæfi dómaranna í málunum á hendur bankamönnunum. Samt skrifaði umboðsmaðurinn núna álit þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að ráðherrann hefði verið vanhæfur við uppáskrift á samninginn um sölu bankans. Var umboðsmaðurinn greinilega búinn að skipta um skoðun á reglum um vanhæfi og hafði þar snúist um heilan hring.

    Ég birti fyrir nokkrum dögum á fasbókarsíðu minni slóð að Kastljósþætti frá 7. desember 2016, þar sem þáverandi formaðurinn hafði af ákafa varið dómarana gegn ásökun um að hafa verið vanhæfir við meðferð sakamálanna sem þá voru til umræðu. Hér er þátturinn.

    Og ég er ekki að grínast.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hegningarlög umskrifuð

    Þættir RÚV um hrunið á síðustu dögum hafa verið fróðlegir og þar hefur ýmislegt komið fram sem skýrir hluta af þeirri atburðarás sem varð. Tvennt fannst mér þó vanta í frásögnina, sem hvort tveggja snertir framgöngu Hæstaréttar í sakamálunum sem voru höfðuð gegn stjórnendum bankanna.

    Það fyrra voru dómar á hendur þeim fyrir að hafa gerst sekir um brot sem nefnast umboðssvik. Þessi brot eru gerð refsiverð með 248. gr almennra hegningarlaga, þar sem lýst er svonefndum auðgunarbrotum. Í upphafi kaflans um auðgunarbrot er svofellt ákvæði sem á við öll brot sem kaflinn tekur til: „Fyrir brot þau, er í þessum kafla getur, skal því aðeins refsa, að þau hafi verið framin í auðgunarskyni.“

    Í 248. gr. er umboðssvikabrotinu lýst svo: „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.“

    Af þessum ákvæðum leiðir að ekki má refsa fyrir umboðssvik nema tilgangur brotamanns til auðgunar með broti sé sannaður í málinu. Í forsendum dóms ber þá að skýra með fullnægjandi hætti hvernig sú sönnun er fundin.

    Margir þeir sem sakfelldir voru í þessum hrunmálum voru taldir hafa gerst sekir um umboðssvik. Í forsendum dómanna var þó hvergi skýrt hvernig sönnun um tilgang til auðgunar væri fundin, enda liggur fyrir að slíkur tilgangur vakti ekki fyrir þessum mönnum. Þeir voru einfaldlega að reyna að bjarga bönkunum frá fjártjóni þó að viðleitni þeirra til þess hafi sjálfsagt ekki verið gáfuleg eða vel heppnuð.

    Í forsendum Hæstaréttar í þessum málum var annað skilyrði sett í staðinn fyrir skilyrðið um auðgunarásetning. Í staðinn var sakfellingin sögð byggjast á því að hinir ákærðu hefðu með háttsemi sinni valdið mikilli hættu á að viðkomandi banki yrði fyrir fjártjóni. Þetta geta dómstólar ekki gert. Þeir verða beita ströngum mælikvarða á lögákveðin skilyrði fyrir refsingum og er auðvitað algerlega óheimilt að setja inn ný skilyrði í stað þeirra sem lagaákvæði kveður á um. Í dómum réttarins er að finna mörg dæmi um að ekki sé unnt að refsa mönnum nema sannað sé að öll skilyrði refsireglu séu uppfyllt.

    Ég þekki engin önnur dæmi um að Hæstiréttur hafi farið fram með þessum hætti. Það er eins og dómurunum við réttinn hafi legið mikið á um að sakfella hina ákærðu. Kannski til að sýna landsmönnum að rétturinn væri nú ekki feiminn við að beita þá hörðum viðurlögum fyrir fall bankanna og það fjártjón sem margir biðu fyrir vikið. Dómstólar mega hins vegar aldrei láta meinta afstöðu almennings til sakbornings hafa minnstu áhrif á dóma sína.

    ______________

    Í beinu framhaldi af þessu síðastnefnda kemur hitt atriðið sem aðeins var lítillega minnst á í sjónvarpsþáttunum en var samt grafalvarlegt. Þar á ég við beina hagsmuni sumra dómara Hæstaréttar af fjárhag bankanna, þar sem dómararnir höfðu sjálfir tapað háum fjárhæðum við hrunið. Þetta hefði auðvitað átt að leiða til vanhæfis þeirra dómara sem svona stóð á um. Verið var að dæma um sakir bankamanna fyrir að hafa valdið þessu tjóni. Um þetta vissi enginn þegar dómarnir voru kveðnir upp, því dómararnir þögðu um þetta og dæmdu svo sakborningana til frelsissviptinga. Þetta var ljótur leikur.

    Stórtækastur í þessu virðist hafa verið Markús Sigurbjörnsson þáverandi forseti Hæstaréttar. Samkvæmt upplýsingum úr Glitni-banka hf. hafði hann átt 13.832 hluti í Glitni-banka hf. sjálfum. Síðan hafði hann afhent þessum sama banka 61.450.000 krónur til svonefndrar eignastýringar í janúar og febrúar 2008. Lá fyrir að þessir fjármunir höfðu rýrnað um 7.607.000 krónur (verðbréfasjóðir) í hruninu.

    Hér tek ég dæmi af dómi yfir einum hinna sakfelldu M, sem hafði verið dæmdur af Hæstarétti 3. desember 2015 fyrir umboðssvik til að sæta fangelsi í 2 ár (H.478/2014). Þrír aðrir sakborningar voru í sama dómi dæmdir fyrir umboðssvik. Þessar sakfellingar voru allar byggðar á því að ákærðu hefðu valdið bankanum verulegri fjártjónsáhættu við lánveitingu til fyrirtækisins BK-44 ehf. Ekki var í forsendum dómsins minnst á auðgunartilgang.

    Einn dómaranna í þessu máli var Markús Sigurbjörnsson forseti Hæstaréttar. Eftir að fram voru komnar upplýsingar um ofangreint fjártjón hans í hruninu, freistaði M þess að fá mál sitt endurupptekið vegna vanhæfis þessa dómara. Beindi hann beiðni sinni til endurupptökunefndar á árinu 2017. Féllst nefndin á beiðnina með úrskurði 23. október 2020. Ekki er þörf á því hér að reifa forsendur nefndarinnar fyrir niðurstöðu sinni. Mál M var svo endurupptekið og dæmt með hæstaréttardómi 25. júní 2022 (mál nr. 35/2020). Var ekki fallist á að Markús hefði verið vanhæfur til að dæma í máli M og var hinu endurupptekna máli því vísað frá Hæstarétti.

    Þetta var kostuleg niðurstaða svo ekki sé meira sagt. Byggðist hún á því að fjártjón Markúsar dómara yrði ekki talið verulegt, þegar „horft er til þeirra efnahagsáhrifa sem þorri almennings þurfti að þola á þessum tíma“. Þá gæti umrædd rýrnun heldur ekki talist veruleg í íslensku samhengi og „þegar litið er til þess óstöðugleika í efnahagsmálum sem gætt hefur hér á landi á liðnum áratugum í samanburði við nágrannalönd.“

    Ekki er á því nokkur vafi að fjártjón dómara, á borð við það sem Markús Sigurbjörnsson varð fyrir, veldur vanhæfi dómara, þegar maður, sem talinn er hafa átt þátt í að valda tjóninu, er sóttur til saka vegna þess. Þegar þessi dómur var kveðinn upp hafði Markús Sigurbjörnsson látið af störfum. Dóminn kváðu upp hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Karl Axelsson auk tveggja settra dómara af neðri dómsstigum. Skal minnt á að Markús Sigurbjörnsson hafði verið eins konar guðfaðir dómaranna, þ.m.t. þeirra sem kváðu upp dóminn.

    Mannréttindadómstóll Evrópu mun hafa til meðferðar kæru, þar sem hæfi Markúsar til meðferðar hrunmálanna er borið undir dóminn. Hefur meðferð málsins þar ytra tekið langan tíma en talið er líklegt að heyrast muni frá dómstólnum innan tíðar.

    Þetta er einfaldlega enn eitt dæmið um misnotkun Hæstaréttar í þágu annarlegra viðhorfa dómaranna, sem alls ekki eiga né mega koma við sögu við úrlausn mála hjá dómstólum og þá allra síst hjá æðsta dómstól þjóðarinnar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Vonlaus aðferð

    Það er ekkert minna en skelfilegt að sjá hvernig flestar þjóðir heimsins hafa á undanförnum áratugum fengist við þann vanda sem vissulega fylgir notkun manna á fíkniefnum. Í sjónvarpsþáttum, t.d. þáttaveitunni Netflix, hafa m.a. verið sýndir fróðlegir þættir sem bera nafnið Narcos. Þetta eru leiknir þættir sem styðjast við raunverulega framvindu mála í Kólumbíu í Suður-Ameríku á síðari hluta 20. aldar. Þar var háð blóðug styrjöld stjórnvalda í landinu gegn glæpamönnum sem framleiddu og dreifðu fíkniefnum. Þessi efni voru í stórum stíl flutt ólöglega til Bandaríkjanna, þar sem salan var gríðarleg og stjórnvöld réðu ekki neitt við neitt í að hindra dreifinguna.

    Þetta er harmþrungin saga. Í stríðinu gegn fíkniefnum hefur gríðarlegur fjöldi fólks látið lífið, þar með talinn mikill fjöldi almennra borgara sem hafa í sjálfu sér aldrei verið sjálfviljugir þátttakendur. Þó að stefna margra ríkja hafi mildast á undanförnum árum, sýna rannsóknir að miklu fleiri láta lífið í þessu stríði heldur en myndu verða fíkniefnunum sjálfum að bráð ef þau yrðu einfaldlega leyfð eins og áfengi. Og margs konar annað böl fylgir hinni opinberu bannstefnu gegn fíkniefnunum. Haldið er lífi í undirheimum, þar sem glæpir þrífast og löggæslan ræður ekkert við. Ungmenni, sem leiðast út í neyslu, verða fórnarlömb glæpamanna. Þau fjármagna neysluna með glæpum og vændi. Efnin sem dreift er geta verið stórhættuleg meðal annars vegna þess að stundum er reynt að drýgja þau með íblöndun annarra efna. Og þó að afstaðan hafi mildast er árangurinn af þessari skelfilegu stefnu smávægilegur. Efnin flæða yfir á Vesturlöndum og yfirvöldin ráða ekkert við vandann.

    Þjóðir heims ættu að taka sig saman um að breyta þeirri stefnu mannfórna sem þær flestar fylgja í þessum málaflokki. Það ætti hreinlega að leyfa að minnsta kosti flestar tegundir fíkniefna. Efnin yrðu þá framleidd undir vörumerkjum og dreift á almennum markaði eins og áfengið. Það er líka löngu sannað að þeir sem lenda í erfiðleikum vegna neyslu efnanna eiga sér miklu meiri von um bata með samskonar aðferðum og dugað hafa áfengissjúklingum, það er að fara í meðferð til að læra að skilja vanmátt sinn gagnvart þessum efnum og taka ábyrgð á eigin lífi.

    Breytt stefna í þessum málum er til þess fallin að kippa fótunum undan starfsemi glæpamanna sem nærast á banninu og undirheimagróskunni sem það leiðir af sér. Það er löngu kominn tími til að þjóðir heims vakni og átti sig á því að stefnan sem fylgt hefur verið á þessu sviði er bara eins konar helstefna með glæpum og mannfórnum sem unnt er að draga úr svo um munar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður