september 2023

  • Svar við grein lögmanns

    Á Vísi er í dag, 29. sept., að finna grein eftir Sævar Þór Jónsson lögmann, þar sem hann skrifar um gagnrýni, sem ég birti á fasbókarsíðu minni um daginn. Notar greinarhöfundur fyrirsögnina: „Jón Steinar tekur upp hanskann“. Er svo að skilja á honum að ég hafi verið efnislega fylgjandi niðurstöðu dómarans.

    Þessi málflutningur er auðvitað afbökun á efni greinar minnar. Ég var að gagnrýna fréttaflutning RÚV. Þar var fjallað um afgreiðslu dómsins á refsikröfu á hendur sakborningnum. Gagnrýni mín laut að því að í fr,ett RÚV hefði við þessa umfjöllun um dóminn ekki verið vikið að ítarlegum rökstuðningi héraðsdómarans um ástæður þess að refsingin var felld niður.

    Sérfræðilæknir mat þennan sakborning ósakhæfan og var það meginástæða dómsins um niðurfellingu refsingarinnar, eins og dómarinn gerði grein fyrir í forsendum sínum. Í grein minni var spurt:

    „Hvernig getur fréttastofa ríkisútvarpsins sagt frétt þar sem sérstaklega er fjallað um refsiákvörðun dómarans án þess að víkja einu orði að forsendum dómsins fyrir því að felld sé niður refsing á hendur manninum eins og skylt var samkvæmt lögum?“

    Í forsendum dómsins var vísað til ákvæðis í 15. gr almennra hegningarlaga þar sem segir: „Þeim mönnum skal eigi refsað, sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir á þeim tíma, er þeir unnu verkið, til að stjórna gerðum sínum.“

    Með þessum skrifum var ég ekki að taka upp neinn hanska fyrir efnislega niðurstöðu dómarans einfaldlega vegna þess að ég gat auðvitað ekki lagt neinn dóm á réttmæti þeirrar niðurstöðu hans að telja manninn ósakhæfan. Ég var að gagnrýna fréttaflutninginn um dóminn, þar sem ekki var gerð nein grein fyrir þessu.

    Höfundur greinarinnar í Vísi er starfandi lögmaður. Hann virðist vilja breyta almennum hegningarlögum á þann veg að refsa megi mönnum sem eru ósakhæfir vegna óskar brotaþola um það. Um þetta var ég ekki að fjalla, en get af þessu tilefni látið í ljósi þá skoðun mína að mér finnst slík breyting á lögunum ekki koma til greina. Vill lögmaðurinn afnema þessa reglu, sem gildir hvarvetna í hinum vestræna heimi? Hann hefur auðvitað fulla heimild til þeirrar afstöðut, þó að ég efist um að hann fái marga kunnáttumenn til að taka undir það sjónarmið.

    Óþarfi er að hafa mörg orð um þá staðreynd að ofbeldi sem fólk er beitt inni á heimilum þess er með því auvirðislegasta sem þekkist. Á heimilum sínum eiga allir að geta notið öryggis fyrir ofbeldismönnum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Íslenskt velferðarmál

    Í Morgunblaðinu í dag 27. september er birt frétt um að Landsvirkjun hafi á ný sótt um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá. Svonefnd úrskurðarnefnd auðlinda- og umhverfismála hafði með úrskurði 15. júní 2023 sl. fellt fyrra leyfi Landsvirkjunar úr gildi en það leyfi hafði Orkustofnun veitt 6. desember 2022. Þessi úrskurður nefndarinnar er mikill langhundur, þar sem menn vefja málæðinu utan um höfuð sitt til að geta komist að þessari skaðlegu niðurstöðu.

    Ég hef skrifað um það áður að umhverfisvænar náttúruauðlindir eru með verðmætustu eignum Íslendinga, á sama tíma og fæstar aðrar þjóðir eiga sama kost á að framleiða umhverfisvæna orku. Þær verða margar hverjar að una við kol og olíu til vinnslu á rafmagni. Náttúruverndarsinnar annarra landa horfa öfundaraugum til okkar, enda er vinnsla endurnýjanlegrar orku áhrifamesta aðgerðin gegn losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið.

    En ekki á Íslandi. Nú sitja við stjórnvöl þessara mála nefndir og ráðamenn, sem virðast hafa megna andúð á nýtingu þessara auðlinda. Með úrskurðinum frá í sumar var a.m.k. um sinn fallið frá byggingu Hvammsvirkjunar sem er augljóslega mjög hagkvæm virkjun með mikla framleiðslugetu. Svo er að sjá sem þessir áhrifamiklu ráðamenn telji að bygging þessarar virkjunar muni spilla náttúru landsins. Þetta er ótækt sjónarmið. Öll mannvirki breyta ummerkjum á byggingarstað. Húsbyggingar í Reykjavík eru gott dæmi um það! Landsvirkjun, sem byggt hefur virkjanir okkar, er þekkt af því að ganga vel um umhverfi þeirra, og er það þessu fyrirtæki til sóma.

    Við Íslendingar erum í þeirri forréttindastöðu að við okkur blasa hagkvæm tækifæri til þess að nýta orku fallvatna, vindorku og jarðvarma til raforkuframleiðslu. Þessi nýting fellur vel að markmiðum um minni losun koldíoxíðs og er þar að auki grundvöllur þess að að hér verði lífvænlegt atvinnulíf til frambúðar.

    Það er undarlegt svo ekki sé meira sagt að þessi afturhaldssömu stjórnvöld skuli sitja í skjóli Sjálfstæðisflokksins og jafnvel undir yfirstjórn hans. Sá flokkur ætti að vilja framfarir á þessu sviði ef marka má almenn sjónarmið hans. Kominn er tími til að losa þjóðina við afturhald langhundanna svo hægt sé að nýta þessar verðmætu orkulindir, okkur öllum til hagsbóta.

    Það er óskandi að afturhaldinu muni ekki takast að hindra framgang þessarar nýju umsóknar Landsvirkjunar. Verði það reyndin ætti Alþingi án tafar að veita sérstaka lagaheimild til að unnt verði að hrinda þessu þjóðþrifamáli í framkvæmd.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Afbökuð frétt hjá RÚV

    Það er varla frambærilegt að fréttastofa RÚV skuli segja fréttir af dómi í alvarlegu sakamáli á þann hátt sem gert var s.l. sunnudagskvöld. Um er að ræða dóm héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. ágúst s.l. þar sem sakborningi var ekki gerð refsing fyrir endurtekin og alvarleg brot með líkamsárásum á sambýliskonu sína. Sjónvarpað var viðtali við brotaþolann til að lýsa þeirri afstöðu hennar að refsa hefði átt manninum með þungum fangelsisdómi en þvert á móti hefði refsing verið felld niður. Ekkert væri í dóminum tekið tillit til sjónarmiða hennar um að fella hefði átt þungan refsidóm yfir manninum fyrir þessi alvarlegu brot. Svo var að sjá sem fréttamaðurinn sem tók viðtalið við brotaþolann tæki undir þessi sjónarmið. Að minnsta kosti var ekkert reynt að skýra fyrir áhorfendum hvers vegna dómsniðurstaðan var með þessum hætti þó að það sé ítarlega skýrt og rökstutt í forsendum dómsins. Samt var verið að fjalla um refsiákvörðun dómsins.

    Tekið skal fram að svona mál skiptast í tvo þætti. Annars vegar er leyst úr um refsingu brotamanns og hins vegar um bótakröfu brotaþola. Brotaþolinn í þessu máli fékk sér tildæmdar bætur þó að ég geti tekið undir með henni að þær voru alltof lágar. Þær koma refsingu brotamannsins hins vegar ekkert við. Aðildin að refsikröfunni er í höndum saksóknara sem í þessu máli krafðist refsingar yfir manninum eins og venjulegt er.

    Í almennum hegningarlögum er í 15. gr. að finna svofellt ákvæði:

    „Þeim mönnum skal eigi refsað, sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir á þeim tíma, er þeir unnu verkið, til að stjórna gerðum sínum.“

    Í forsendum þessa dóms kemur fram að ákærði hafi játað brot sín undanbragðalaust. Hins vegar væri hann ekki sakhæfur því þar sagði orðrétt:

    „Undir rekstri málsins var X geðlæknir dómkvaddur til að framkvæma
    geðrannsókn á ákærða og leggja læknisfræðilegt mat á hvort andlegt ástand ákærða hafi verið með þeim hætti að hann teljist sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga og ennfremur hvort fangelsisrefsing geti borið árangur í skilningi 16. gr. sömu laga. Er skemmst frá því að segja að matsmaður telur að ákærði hafi frá ársbyrjun 2018 haft nánast stöðug einkenni um geðveiki sem gerðu hann alls ófæran um að hafa stjórn á því ofbeldi sem hann er ákærður fyrir á ákærutímabilinu. Þá hafi ákærða frá vetri 2020 versnað enn frekar og hann verið fárveikur 17. maí 2020 við lok lýsts ákærutímabils. Þá telur
    matsmaður útilokað að refsing í formi fangelsisvistar geti gert ákærða minnsta gagn og líklegt að slík refsing yrði honum skaðleg. Loks telur matsmaður að ekki sé ástæða til að gera frekari ráðstafanir til að hindra að samfélagslegur skaði verði af ákærða, enda sé hann nú í föstu og reglulegu eftirliti hjá Y, sem og hjá geðlækni og taki virkan þátt í flókinni lyfjameðferð til að halda viðvarandi, geðrænum vandamálum í skefjum.“

    Í ákvæðum dómsins um refsinguna segir svo:

    „Með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi, sem samrýmist rannsóknargögnum
    máls, er sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefið að sök ….. og .. þykir rétt heimfærð til refsiákvæða. Með hliðsjón af niðurstöðu dómkvadds matsmanns um að hann telji að ákærði hafi verið ósakhæfur á ákærutímabilinu vegna alvarlegra geðrænna vandamála, sbr. 15. gr. almennra hegningalaga og að þess utan telji matsmaður að fangelsisrefsing geti ekki borið árangur…, sem og að ekki þjóni tilgangi að láta ákærða taka út refsingu á sérstakri stofnun, sbr. 1. og 2. mgr. 16. gr. sömu laga, er það niðurstaða dómsins að hvorki beri að gera ákærða refsingu í málinu né heldur að kveða á um sérstakar ráðstafanir samkvæmt 62. gr. laganna.“

    Hvernig getur fréttastofa ríkisútvarpsins sagt frétt þar sem sérstaklega er fjallað um refsiákvörðun dómarans án þess að víkja einu orði að forsendum dómsins fyrir því að felld sé niður refsing á hendur manninum eins og skylt var samkvæmt lögum? Flestir þeirra sem hlustuðu á þessa furðulegu frétt hafa sjálfsagt talið að mannvonsku dómarans hafi verið um að kenna að manninum var ekki refsað. Er fréttamönnum óskylt að kynna sér málin sem þeir segja fréttir af í því skyni að geta gefið afar ranga mynd af þeim? Ætli þetta falli undir það sem nefnt hefur verið æsifréttamennska? Væri ekki nær að fréttastofa sem rekin er af sjálfu ríkisvaldinu leitist að minnsta kosti við að veita réttar og hlutlausar upplýsingar frekar en að afbaka þær eins og hér var gert?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Brugðist við með þögninni

    Ég hef um langt árabil skrifað greinar um þjóðfélagsmál og birt á opinberum vettvangi. Þar hef ég oftast birt sjónarmið sem byggjast á lífsskoðun minni. Hún felst ekki síst í því að allir eigi að njóta ríkulegs frelsis í eigin lífi en bera fulla ábyrgð á því sem þeir segja og gera.

    Viðhorf mín hafa ekki alltaf notið vinsælda hjá öðrum. Til dæmis skrifaði ég greinar um að mannréttindareglan um sakleysi uns sekt sannast ætti við í refsimálum vegna ásakana um kynferðisbrot. Þá varð ég fyrir heiftarlegum árásum á persónu mína og var jafnvel sakaður um að taka málstað brotamanna gegn réttvísinni. Þetta var auðvitað alger fjarstæða því ég er og hef alltaf verið andvígur ofbeldisbrotum og þá ekki síst í þeim málaflokki sem hér er nefndur.

    Það er bæði undarlegt og ámælisvert að geta ekki tekið þátt í umræðum um þjóðmál án þess að þau séu persónugerð með því að veitast að málshefjanda persónulega.

    Svo hef ég líka upplifað andúð annarra á sjálfum mér fyrir afstöðu mína til fleiri mála. Þá hafa jafnvel gamlir vinir mínir snúið við mér baki og hætt að tala við mig þrátt fyrir viðleitni mína til að halda góðu sambandi við þá sem hafa haft aðrar skoðanir en ég á viðkomandi málefni. Í slíkum tilvikum hef ég sjaldnast notið þess að fá að heyra hvað hafi efnislega valdið þessari andúð. Það hafa þeir einatt ekki getað vegna þess að ég hef forðast að byggja skoðanir mínar á þjónkun við aðra hvort sem er einstaklinga eða hópa. Þetta virðast þeir ekki þola sem binda trúss sitt við hagsmuni sem þeir vilja styðja, þó að skynsamlegar röksemdir mæli ekki með því. Þá virðast oft ekki vera önnur úrræði en að veitast að ræðumanni með því að tala ekki til hans eða við hann.

    Ég man til dæmis vel eftir útkomu bókar minnar „Deilt á dómarana“, á árinu 1987. Hún vakti fyrst í stað ekki nokkra athygli á opinberum vettvangi, og var lítið sem ekkert um hana talað eða skrifað, þó að hún hafi fjallað um mjög alvarleg þjóðfélagsmál. Það breyttist reyndar síðar og er ég farinn að halda að hún hafi haft raunveruleg áhrif á þau málefni sem fjallað var um.

    Mér finnst viðbrögð þagnarinnar heldur smánarleg. Menn eiga miklu fremur að fagna því í orði ef fram koma sjónarmið um þjóðfélagsmál sem þeir vilja ekki samsinna. Slíkt gefur þeim tilefni til að bregðast við þannig að aðrir heyri. Ég hef oft hvatt menn til að andmæla mér ef þeir telja efni standa til og oft lýst því að ég sé tilbúinn að mæta þeim á fundum til að ræða málin, en þá nær alltaf án árangurs. Ég gæti nefnt nokkur dæmi um þjóðþekkta menn sem svona hafa brugðist við.

    Ég læt það því eftir mér, kominn á efri árin, að hvetja menn til að hika ekki við að taka til máls til andófs við skoðunum sem þeir eru andvígir en halda samt í frið og jafnvel vináttu við þá sem hafa birt aðra afstöðu en þeir hafa til þjóðfélagsmálanna.

    Jón Steinar Gunnlaugsson er lögmaður sem lagt hefur það í vana sinn að skrafa um þjóðfélagsmál.