Afar ánægjuleg tíðindi berast nú af íslenska fyrirtækinu Kerecis og sölu hlutafjár þess til lækningavörufyrirtækisins Coloplast sem skráð er í Danmörku. Nam söluverð hlutafjárins 1,3 milljörðum bandaríkjadala, sem mun vera ein stærsta sala á íslensku fyrirtæki sem um getur.
Coloplast er fyrirtæki sem mun nýta þorskroð í plástur til sáragræðinga á erfið húðsár. Hefur slík meðferð fengið viðurkenningu á alþjóðlegum markaði. Fyrirtækið er stofnað á Ísafirði og hefur velgengni þess verið ævintýri líkust hér á landi og erlendis.
Þegar þessi tíðindi berast minnist ég vinar míns Jóns Braga Bjarnasonar, sem ásamt Ágústu Guðmundsdóttur prófessor í matvælaefnafræði, stofnaði á árinu 1999 fyrirtækið Ensímtækni, sem síðar varð Zymetech. Jón Bragi og Ágústa voru frumkvöðlar í nýtingu þorskensíms í húðáburð, Pensím, sem hefur notið mikillar velgengni til lækninga á húðmeinum. Er þessi áburður afar áhrifamikill við þau mein. Til dæmis hefur fjölskylda mín notað hann með miklum og góðum árangri allt frá því hann kom á markað fyrir rúmum 20 árum síðan.
Jón Bragi var prófessor í lífefnafræði við Háskóla Íslands. Hann fæddist 1948 en féll ótímabært frá á árinu 2011. Hann var frumkvöðull við nýtingu þorskensíma í húðvörur. Þegar nú berast tíðindi af velgengni Coloplasts við nýtingu þorskroðs, m.a. sem launúða gegn veirusýkingum í öndunarvegi er ástæða til að minnast Jóns Braga og frumkvæðis hans. Blessuð sé minning öðlingsins Jóns Braga Bjarnasonar.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur