Dulbúið misrétti

Sá mæti blaðamaður Ásgeir Ingvarsson ritaði grein í Viðskiptablað Morgunblaðsins miðvikudaginn 5. júli s.l. sem hann kallar „Ranglæti verður ekki bætt með ranglæti.“ Í grein sinni segir Ásgeir frá þróun sem orðið hefur áberandi í Bandaríkjunum, þar sem vegur einstaklinga úr þeim hópum fólks sem í fortíðinni hefur verið mismunað, hefur nýverið verið bættur svo að þeir séu nú við ráðningu í störf teknir framyfir þá sem í fortíðinni hafa notið betri stöðu vegna óskyldra eiginleika. Þar er þá um að ræða eiginleika, sem ekki hafa skipt máli í því starfi sem um ræðir, svo sem kynferði eða húðlit.

Dæmi um þetta eru konur, sem í gegnum tíðina hafa þótt standa körlum að baki, og svarta menn sem hafa þótt eftirbátar hinna hvítu. Í fortíðinni hefur fólk úr þessum hópum verið beitt rangindum vegna þátta sem hreint ekki koma við hæfileikum þess til að gegna þeim störfum sem um ræðir.

Hér hafa verð höfð endaskipti á hlutunum sem einatt leiða til þess að hinir hæfustu eru ekki valdir til starfanna heldur aðrir hæfileikaminni t.d. vegna húðlitar eða kynferðis. Þetta brýtur í bága við sjónarmið um jafnrétti borgaranna sem þó njóta verndar í stjórnarskrá.

Við Íslendingar könnumst vel við þróun af þessu tagi. Einkum hefur nú síðustu árin orðið áberandi sú þróun hér á landi að konur séu teknar fram yfir hæfileikameiri karla til alls konar ábyrgðarstarfa. Ég man t.d. eftir því að við skipun tveggja dómara við Hæstarétt á árinu 2020 urðu tvær konur fyrir valinu sem vafalaust stóðu a.m.k. tveimur umsækjendum af karlkyni að baki. Kona sat þá í embætti dómsmálaráðherra. Eftir þennan gjörning lét hún mikinn í fjölmiðlum og hrósaði hún sér af því að hafa jafnað kynjahlutfall dómara í réttinum með því að skipa konurnar. Öllum sem til þekktu var hins vegar ljóst að a.m.k. tveir karlmenn, sem um sóttu, stóðu þessum, annars ágætu konum, framar að því er hæfni og starfsreynslu snerti. Sýnilegt var að ákvörðun ráðherrans byggðist á kynferði umskjendanna en ekki hæfni þeirra til að gegna þessum embættum. Kannski hefur hún verið að sverma eftir atkvæðum kvenna í kosningum?

Finna má mörg hliðstæð dæmi um svona ráðningar fólks til starfa, bæði hjá ríkisvaldinu og einkafyrirtækjum. Þetta virðist ráðast af viðleitni þeirra, sem skipa í störfin, til að sýna hversu þeir eru hlynntir jafnrétti kynjanna. Það gerist þá á kostnað viðleitninnar til að skipa hæfustu einstaklingana. Og þjóðfélagið líður fyrir þó að ekki sé unnt aðlegga tölulegan mælikvarða á skaðann sem af þessu leiðir.

Í raunverulegu jafnrétti felst t.d. að séu sjö konur sem um dómarastöðu sækja taldar standa karlmönnum framar, á Hæstiréttur að vera skipaður sjö konum. Hér á kynferði umsækjenda um embætti engu máli að skipta.

Hvenær ætli mönnum lærist að raunverulegt jafnrétti til skipunar í störf næst ekki fyrr en einstaklingarnir verða metnir á grundvelli hæfileika sinna en ekki kynferðis, húðlitar eða annarra eiginleika sem engu máli skipta fyrir það starf sem í hlut á?

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður