júlí 2023

  • Nýting orkuauðlinda

    Náttúruauðlindir eru með verðmætustu eignum Íslendinga á sama tíma og aðrar þjóðir eiga þess ekki sama kost að framleiða umhverfisvæna orku. Þær verða að una við kol og olíu til framleiðslu á rafmagni. Náttúruverndarsinnar annarra landa horfa öfundaraugum til okkar, enda er vinnsla endurnýjanlegrar orku áhrifamesta aðgerðin gegn losun koldóoxíðs út í andrúmsloftið.

    En ekki á Íslandi. Nú sitja við stjórnvöl þessara mála á Íslandi ráðamenn af vinstri væng stjórnmálanna, sem virðast hafa megna andúð á nýtingu þessara auðlinda. Þannig var a.m.k. um sinn fallið frá byggingu Hvammsvirkjunar í Þjórsá sem er mjög hagkvæm virkjun með mikla framleiðslugetu. Svo er að sjá sem þessir forhertu ráðamenn telji að bygging þessarar virkjunar muni spilla náttúru landsins. Þetta er ótækt sjónarmið. Öll mannvirki breyta ummerkjun á byggingarstað. Landsvirkjun, sem byggt hefur virkjanir okkar, er þekkt af því að ganga vel um umhverfi þeirra, og er það þessu fyrirtæki til sóma.

    Við Íslendingar erum í þeirri forréttindastöðu að við okkur blasa hagkvæm tækifæri til þess að nýta orku fallvatna, vindorku og jarðvarma til raforkuframleiðslu. Þessi nýting fellur vel að markmiðum um minni losun koldóoxíðs og er þar að auki grundvöllur þess að að hér verði lífvænlegt atvinnulíf til frambúðar.

    Það er undarlegt svo ekki sé meira sagt að þessi afturhaldssömu stjórnvöld skuli sitja í skjóli Sjálfstæðisflokksins, sem ætti að vilja framfarir á þessu sviði ef marka má almenn viðhorf flokksins. Kominn er tími til að losa þjóðina við þetta afturhald svo hægt sé að nýta þessar verðmætu orkulindir, okkur öllum til hagsbóta.

    Þótt fyrr hefði verið.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Stjórnmálastefna

    Ég hef stutt Sjálfstæðisflokkinn allt frá því ég komst til vits og ára. Nú hefur sá flokkur breyst í að verða stefnulítill flokkur sem tekst aðallega á við flokka lýðskrums og vinstrimennsku um fáfengileg dægurmál í því skyni að ná af þeim atkvæðum. Það mun auðvitað ekki takast. Flokknum ber hins vegar að fylgja gömlum stefnumálum sínum sem og öðrum nýjum sem byggja á sama hugmyndagrunni. Þá mun hann afla sér meira fylgis en hann nú virðist hafa auk þess sem stjórnmál eiga að snúast um að koma fram hugsjónum en ekki að víkja frá þeim í atkvæðasöfnun. Hér fara á eftir þau mál sem ég tel að tilheyri hugsjónum flokksins og honum ber að setja í öndvegi. Þau ættu m.a. að valda því að hann segi sig úr lögum við samstarfsflokka sína í ríkisstjórn. Ég er sannfærður um að þá muni hann geta aukið fylgi sitt til mikilla muna við næstu kosningar :

    Meginviðhorf í stefnu flokksins verði að láta íslenska borgara njóta frelsis til orðs og æðis og gæta þess í leiðinni að hver og einn beri ábyrgð á gjörðum sínum.

    Lögð verði áhersla á að einstakir borgarar eigi að njóta mannréttinda með ábyrgð. Sú meginregla skal gilda að setta lagaheimild þurfi til að skerða frelsi borgaranna. Slíkar skerðingar nái ekki til þeirra réttinda sem vernduð eru í stjórnarskrá eða styðjast við skuldbindingar gagnvart öðrum þjóðum.

    Náttúrulegar auðlindir eru með verðmætustu eignum Íslendinga á sama tíma og aðrar þjóðir eiga þess ekki sama kost að framleiða umhverfisvæna orku. Við eigum að nýta þessa auðlind svo sem kostur er hér innanlands eða með því að ráðstafa afrakstri hennar til erlendra aðila, annað hvort með því að þeir nýti hana hér á landi eða með því að flytja hana til þeirra sé þess kostur.

    Það á að vera meginmarkmið að íslenskir borgarar eigi og reki starfsemi atvinnufyrirtækja í landinu en ekki ríkisvaldið, stofnanir þess og fyrirtæki. Þetta á meðal annars við um margvíslega starfsemi í heilbrigðiskerfinu. Þetta er til þess fallið að uppræta spillingu, því menn fara betur með eigið fé en annarra.

    Frelsi manna til orða og athafna eiga ekki að takmarkast af öðru en réttindum annarra. Allir skulu vera jafnir fyrir lögunum. Ekkert okkar hefur heimild til að sitja yfir hlut annarra með því að bjóða og banna, eins og svo margir vilja sífellt gera. Sumir vilja flokka mannfólkið eftir þjóðerni, litarhætti, trúarbrögðum, kynferði, kynhneigð, gáfum eða hverju því öðru sem greinir einn mann frá öðrum. Til þess hafa menn yfirleitt enga heimild.

    Dómurum við Hæstarétt verði fækkað í fimm. Fara ber yfir lagareglur um dómstóla og starfsemi þeirra. Þar er þýðingarmest að afnema með öllu aðild starfandi dómara að skipun nýrra. Þurfi að kalla inn varadómara skuli dómsmálaráðherra annast það.

    Með samdrætti á starfsemi ríkisins verður unnt að draga úr skattheimtu. Á það við hvort sem um ræðir beina skatta eða skatta sem lagðir eru á almenna neyslu manna eða afnot þeirra af eignum í eigu ríkisins eða annarra opinberra aðila.

    Flokkurinn á að fallast á að til landsins fái að flytjast erlent fólk. Þar ber aðallega að hafa tvennt í huga: Að um sé að ræða fólk sem nýtir hér starfsorku sína og athafnasemi eða þá sem hallir standa og vilja leita hingað til að forðast ofbeldi á heimaslóðum sínum.

    Binda ber opinbera aðstoð sem mest við þá sem þurfa á henni að halda í stað þess að aðstoða alla sem notið geta opinberrar aðstoðar þó að þeir hafi sjálfir fjárhagslegt bolmagn til að njóta hennar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Frumkvöðuls minnst

    Afar ánægjuleg tíðindi berast nú af íslenska fyrirtækinu Kerecis og sölu hlutafjár þess til lækningavörufyrirtækisins Coloplast sem skráð er í Danmörku. Nam söluverð hlutafjárins 1,3 milljörðum bandaríkjadala, sem mun vera ein stærsta sala á íslensku fyrirtæki sem um getur.

    Coloplast er fyrirtæki sem mun nýta þorskroð í plástur til sáragræðinga á erfið húðsár. Hefur slík meðferð fengið viðurkenningu á alþjóðlegum markaði. Fyrirtækið er stofnað á Ísafirði og hefur velgengni þess verið ævintýri líkust hér á landi og erlendis.

    Þegar þessi tíðindi berast minnist ég vinar míns Jóns Braga Bjarnasonar, sem ásamt Ágústu Guðmundsdóttur prófessor í matvælaefnafræði, stofnaði á árinu 1999 fyrirtækið Ensímtækni, sem síðar varð Zymetech. Jón Bragi og Ágústa voru frumkvöðlar í nýtingu þorskensíms í húðáburð, Pensím, sem hefur notið mikillar velgengni til lækninga á húðmeinum. Er þessi áburður afar áhrifamikill við þau mein. Til dæmis hefur fjölskylda mín notað hann með miklum og góðum árangri allt frá því hann kom á markað fyrir rúmum 20 árum síðan.

    Jón Bragi var prófessor í lífefnafræði við Háskóla Íslands. Hann fæddist 1948 en féll ótímabært frá á árinu 2011. Hann var frumkvöðull við nýtingu þorskensíma í húðvörur. Þegar nú berast tíðindi af velgengni Coloplasts við nýtingu þorskroðs, m.a. sem launúða gegn veirusýkingum í öndunarvegi er ástæða til að minnast Jóns Braga og frumkvæðis hans. Blessuð sé minning öðlingsins Jóns Braga Bjarnasonar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Spilling

    Að undanförnu hafa komið upp mál þar sem einstaklingar og hópar eru grunaðir um að hafa að ólögum náð sér í verulegar peningafjárhæðir vegna þess eins að þeir hafi komist í aðstöðu til þess.

    Nýjustu dæmin eru kennd við Íslandsbanka og Lindarhvol. Þar hafa einstaklingar náð sér í háar fjárhæðir í tengslum við sölu hlutabréfa, sem verið hafa í eigu íslenska ríkisins. Það er eins og mannfólkið hafi tilhneigingu til að falla fyrir freistingum til að skara eld að eigin köku ef það einfaldlega telur sig komið í aðstöðu til þess og þá er sama hvað lögmætinu líður.

    Mál af þessum toga hafa oft komið upp á Íslandi á undanförnum árum og áratugum. Jafnan er þolandinn þá íslenska ríkið eða með öðrum orðum almenningur í landinu. Þetta stendur gjarnan í tengslum við ráðstöfun fjár ríkisins og þá oftast í formi hlutabréfa þess eða eignarhluta í atvinnufyrirtækjum, oft í tengslum við sölu á slíkum verðmætum.

    Menn ættu að taka eftir því að misnotkun af þessu tagi kemur miklu síður upp þegar ráðstafað er eignarhlutum í fyrirtækjum í einstaklingseigu. Af hverju ætli það sé? Það er vegna þess að þá gæta eigendurnir sjálfir fjár síns og þeir sem sælast til þess verða þá að svíkja það úr höndum eigendanna sjálfra. Það er sjaldnast hægt vegna þess að eigendurnir gæta þess.

    Af þessu má draga þá almennu ályktun að við ættum að hætta að gera íslenska ríkið að þátttakanda í rekstri fyrirtækja í atvinnulífinu. Hann á heima í höndum einstaklinga og félaga þeirra. Við gagngerar breytingar í þá átt myndi strax draga verulega úr spillingu á borð við þá sem þjóðin hefur mátt líða fyrir og lýst er að framan. Nóg er nú samt.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Dulbúið misrétti

    Sá mæti blaðamaður Ásgeir Ingvarsson ritaði grein í Viðskiptablað Morgunblaðsins miðvikudaginn 5. júli s.l. sem hann kallar „Ranglæti verður ekki bætt með ranglæti.“ Í grein sinni segir Ásgeir frá þróun sem orðið hefur áberandi í Bandaríkjunum, þar sem vegur einstaklinga úr þeim hópum fólks sem í fortíðinni hefur verið mismunað, hefur nýverið verið bættur svo að þeir séu nú við ráðningu í störf teknir framyfir þá sem í fortíðinni hafa notið betri stöðu vegna óskyldra eiginleika. Þar er þá um að ræða eiginleika, sem ekki hafa skipt máli í því starfi sem um ræðir, svo sem kynferði eða húðlit.

    Dæmi um þetta eru konur, sem í gegnum tíðina hafa þótt standa körlum að baki, og svarta menn sem hafa þótt eftirbátar hinna hvítu. Í fortíðinni hefur fólk úr þessum hópum verið beitt rangindum vegna þátta sem hreint ekki koma við hæfileikum þess til að gegna þeim störfum sem um ræðir.

    Hér hafa verð höfð endaskipti á hlutunum sem einatt leiða til þess að hinir hæfustu eru ekki valdir til starfanna heldur aðrir hæfileikaminni t.d. vegna húðlitar eða kynferðis. Þetta brýtur í bága við sjónarmið um jafnrétti borgaranna sem þó njóta verndar í stjórnarskrá.

    Við Íslendingar könnumst vel við þróun af þessu tagi. Einkum hefur nú síðustu árin orðið áberandi sú þróun hér á landi að konur séu teknar fram yfir hæfileikameiri karla til alls konar ábyrgðarstarfa. Ég man t.d. eftir því að við skipun tveggja dómara við Hæstarétt á árinu 2020 urðu tvær konur fyrir valinu sem vafalaust stóðu a.m.k. tveimur umsækjendum af karlkyni að baki. Kona sat þá í embætti dómsmálaráðherra. Eftir þennan gjörning lét hún mikinn í fjölmiðlum og hrósaði hún sér af því að hafa jafnað kynjahlutfall dómara í réttinum með því að skipa konurnar. Öllum sem til þekktu var hins vegar ljóst að a.m.k. tveir karlmenn, sem um sóttu, stóðu þessum, annars ágætu konum, framar að því er hæfni og starfsreynslu snerti. Sýnilegt var að ákvörðun ráðherrans byggðist á kynferði umskjendanna en ekki hæfni þeirra til að gegna þessum embættum. Kannski hefur hún verið að sverma eftir atkvæðum kvenna í kosningum?

    Finna má mörg hliðstæð dæmi um svona ráðningar fólks til starfa, bæði hjá ríkisvaldinu og einkafyrirtækjum. Þetta virðist ráðast af viðleitni þeirra, sem skipa í störfin, til að sýna hversu þeir eru hlynntir jafnrétti kynjanna. Það gerist þá á kostnað viðleitninnar til að skipa hæfustu einstaklingana. Og þjóðfélagið líður fyrir þó að ekki sé unnt aðlegga tölulegan mælikvarða á skaðann sem af þessu leiðir.

    Í raunverulegu jafnrétti felst t.d. að séu sjö konur sem um dómarastöðu sækja taldar standa karlmönnum framar, á Hæstiréttur að vera skipaður sjö konum. Hér á kynferði umsækjenda um embætti engu máli að skipta.

    Hvenær ætli mönnum lærist að raunverulegt jafnrétti til skipunar í störf næst ekki fyrr en einstaklingarnir verða metnir á grundvelli hæfileika sinna en ekki kynferðis, húðlitar eða annarra eiginleika sem engu máli skipta fyrir það starf sem í hlut á?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður