Aðferðir í lögfræði

Eins og ég hef áður lagt áherslu á verður dómari sem leitar að réttri niðurstöðu í máli sem hann dæmir, að ganga út frá því aðeins ein niðurstaða sé rétt. Þó að fleiri en ein niðurstaða komi til greina má hann ekki telja sér trú um að hann megi velja þá sem honum hugnast best. Beiting réttarheimilda ræður en ekki persónuleg afstaða dómarans.

Dómstólar mega ekki byggja dóma sína á öðru en beitingu réttarheimilda sem í gildi voru þegar atvik máls áttu sér stað. Margir lögfræðingar telja að honum sé heimilt að byggja dóma sína á lögum sem síðar voru sett en voru ekki komin í gildi þegar atvik máls urðu. Þetta er honum óheimilt.

Viðurkenndir fræðimenn í lögfræði, halda því fram að dómstólum sé heimilt að setja ný lög; jafnvel að þeir takist á við löggjafann um lagasetninguna. Þetta er fjarstæða. Dómstólar hafa enga slíka heimild enda er skýrt í stjórnarskránni að þeir skuli starfa eftir lögum. Þá er auðvitað átt við lög sem í gildi voru þegar atvik máls urðu. Þeir hafa heldur ekkert umboð frá almenningi til lagasetningar, eins og alþingismenn hafa.

Þessi sannindi um lögfræðilegar úrlausnir ættu sem flestir að þekkja, til þess að geta forðast misnotkun af hálfu þeirra sem fara með dómsvaldið í landinu. Hafa skal nokkur orð um þetta.

Við úrlausn deilumála fyrir dómi er beitt því sem við lögfræðingar köllum réttarheimildir. Þeim og einungis þeim má beita þegar leyst er úr málum. Þýðingarmikið er að menn átti sig á því að í þessu felst mikil takmörkun á því valdi sem dómarar fara með. Þeir hafa ekki nokkra heimild til að láta persónulega eða pólitíska afstöðu hafa áhrif á niðurstöðu sína um sakarefni dómsmálanna. Þar á efni viðeigandi réttarheimildar að ráða, en stundum þurfa dómstólar að leysa úr ágreiningi um hvert það sé.

En hverjar eru þá réttarheimildirnar sem við nefnum svo? Þar standa efst á blaði hin settu lög; æðst er stjórnarskráin en síðan þau lagafyrirmæli sem löggjafinn, Alþingi, hefur sett og birt hafa verið almenningi með lögmæltum hætti. Almenn lög verða að samþýðast stjórnarskrá og eiga dómstólar úrskurðarvald um hvort svo sé ef á þetta reynir í málum sem réttilega eru fyrir þá lögð. Á grundvelli heimilda í settum lögum setja svo handhafar framkvæmdavalds stjórnsýslufyrirmæli, sem nefnd eru reglugerðir, tilskipanir o.fl. Falla slík stjórnsýslufyrirmæli undir það sem lögfræðingar kalla „sett lög í rýmri merkingu.“ Allar þessar settu reglur verður að birta almenningi áður en þær taka gildi. Er kveðið á um skylduna til þess í 27. gr. stjórnarskrárinnar.

Dómstólar verða auðvitað að leggja dóm á málin þó að ekki sé til að dreifa settri lagareglu um þann ágreining sem fyrir dóm er lagður. Þá koma til „réttlægri“ heimildir. Fræðimenn getur greint á um hvernig eigi að skilgreina að minnsta kosti sumar þeirra. Yfirleitt eru hér að minnsta kosti nefndar sem réttarheimildir, réttavenja, fordæmi og meginreglur laga og jafnvel eðli máls, sem svo er nefnt.

Ekki er það ætlun mín hér að fara ofan í saumana á skilgreiningum á þessum heimildum réttarins en í því efni geta menn haft mismunandi sjónarmið. Ég legg hins vegar áherslu á meginatriði sem ég tel að ávallt verði að leggja til grundvallar við úrlausn á réttarágreiningi, það er að reglan sem beitt er hafi verið til þegar þau lögskipti áttu sér stað sem ágreiningi valda. Málið snúist um að finna hana. Það geti aldrei komið til greina að dómstóllinn hafi heimild til að búa til nýja reglu og beita henni síðan afturvirkt á ágreiningsefnið.

Svo undarlega sem það kann að hljóma í huga lesandans eru uppi kenningar meðal lögfræðinga um að dómstólar hafi heimildir af þessu tagi. Þessu hafna ég alfarið. Það er eins og menn haldi því þá fram í alvöru að leysa skuli úr réttarágreiningi með því að fela úrlausn hans mönnum sem hafi heimild til að móta nýja reglu og beita henni síðan afturvirkt til lausnar á honum. Slíkt gengur aldrei upp.

Það er til dæmis þýðingarmikil grunnregla í réttarríki að lög séu birt áður en þeim er beitt. Við Íslendingar höfum, svo sem fyrr var nefnt, lögfest í stjórnarskrá fyrirmæli um þetta. Afturvirk „dómaralög“ geta aldrei uppfyllt þá þýðingarmiklu kröfu. Kannski telja sumir að deila um þetta skipti ekki miklu máli. Þar er ég á öðru máli. Sá maður sem starfar sem dómari verður að gera sér skýra grein fyrir mörkum þess mikla þjóðfélagsvalds sem hann fer með. Hugsun hans um þetta er til þess fallin að hafa bein og óbein áhrif á öll hans störf.

Í umræðum íslenskra lögfræðinga um réttarheimildir og starfsemi dómstóla hef ég sagt að menn verði ávallt að ganga út frá því að einungis ein niðurstaða sé rétt í dómsmálinu. Réttarheimildin sem beita beri hafi verið til staðar þegar atvik málsins urðu. Málið snúist um að finna hana og beita henni til úrlausnar á ágreiningi málsaðila. Ganga verði út frá því við leitina að ein niðurstaða sé rétt. Dómarinn megi aldrei telja sér trú um að hann eigi val milli fleiri kosta. Raunar hljóta þeir sem telja hann eiga slíkt val að þurfa þá að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem þeir telja að honum beri að beita við valið. Nema þeir telji hann eiga „frjálst“ val.

Það er að mínum dómi undarlegt ef skoðanir um þetta eru skiptar meðal lögfræðinga, svo augljóst sem þetta ætti að vera. Hefur til dæmis einhver einhvern tíma séð í forsendum dóms lýst tveimur jafngóðum niðurstöðum, þar sem dómari hefur klykkt út með því að lýsa yfir því að hann hafi ákveðið að taka aðra fram yfir hina? Auðvitað ekki. Er þetta þá vegna þess að þessi aðferðafræði sé leyndarmál? Dómarinn megi gera þetta en bara ekki segja frá því? Það er satt að segja ótrúlegt að menn skuli heyra alvörugefna lögfræðinga, jafnvel meðal starfandi dómara, láta uppi það sjónarmið að dómarar eigi svona valrétt.

Ég hef ekki legið á skoðunum mínum á þessu. Ég hef aldrei sagt að þessi leit að hinni einu réttu niðurstöðu sé ávallt auðveld eða kunni ekki að orka tvímælis. Ég hef hins vegar talið afar þýðingarmikið að þeim, sem með dómsvaldið fara, sé ljós sú takmörkun á valdi þeirra sem felst í því að þeir eru að leita viðeigandi réttarheimildar en ekki skapa hana.

Það getur sjálfsagt verið freistandi fyrir þá sem fara með þjóðfélagsvald á ákveðnu sviði að beita því án þeirra takmarkana sem við eiga. Þannig geta þeir komið fram áhugamálum sínum hvort sem þau eru af stjórnmálalegum toga eða tengjast persónulegum áhugamálum. Einhvern tíma heyrði ég tilbúna dæmisögu um Bandaríkjamann sem vildi banna almenningi þar í landi að eiga skotvopn. Hann bauð sig fram til þings með baráttumál sitt á vörunum og var fjarri því að ná kjöri því mikill meirihluta Bandaríkjamanna vildi fá að eiga skotvopn. Maðurinn fór þá bara í lögfræðinám, tók lögfræðipróf og varð dómari. Í því starfi fékk hann tækifæri til að komast að þeirri niðurstöðu sem dómari að almenn skotvopnaeign væri óheimil. Til rökstuðnings bjó hann bara til nýja reglu sem kvað á um þetta. Ætli það sé svona sem menn vilja að dómstólar starfi?

Svo undarlegt sem það kann að virðast hef ég á undanförnum áratugum nokkrum sinnum orðið fyrir hálfgerðum árásum fyrir skoðanir mínar á meðferð réttarheimilda og þeirri viðmiðun að sá sem leysir úr hafi ekki val milli margra kosta heldur verði að ganga út frá því að hann sé að leita að einni réttri niðurstöðu. Sérstaklega virtist orðræða mín um þetta hafa farið fyrir brjóstið á gömlum kennara mínum, Sigurði Líndal prófessor, sem beinlínis veittist að mér á opinberum vettvangi vegna þess arna. Í bók minni „Í krafti sannfæringar“, sem kom út á árinu 2014 (sjá bls. 113-136), gerði ég nokkra grein fyrir deilum mínum við Sigurð meðal annars um þetta, því mér finnst hún sýna ákveðinn kjarna í álitaefnum sem þessu tengjast og þá einnig í skoðunum mínum um réttarheimildirnar.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður