júní 2023

  • Hugsun þrælsins?

    Hvaða heimild hefur íslenska ríkið til að banna borgurum landsins að veiða villt dýr, eins og nú hefur verið gert um hvalina? Ég lít svo á að hér sé um að ræða skerðingu á atvinnufrelsi, sem varði við 75. gr. stjórnarskrárinnar.

    Samkvæmt ákvæðinu má ekki skerða atvinnufrelsi nema almannahagsmunir krefjist þess. Heimild ríkisins til að banna hvalveiðar er þessu skilyrði háð. Samkvæmt því mætti takmarka veiðar á villtum dýrum vegna ofveiði, því þá væru möguleikar annarra til veiðanna skertir. Einnig mætti ríkið sjálfsagt mæla svo fyrir í lögum að ekki megi drepa villt dýr á svæðum sem háð eru yfirráðum einstakra manna svo sem eignarrétti. Það ætti þó ekki að vera þörf á því vegna þess að eigendurnir sjálfir ættu að vera fullfærir til að gæta hagsmuna sinna, m.a. til veiða á sínum eigin löndum og banna þar veiðar annarra.

    Þetta bann við hvalveiðum sýnist mér vera rökstutt með því að hætt sé við að hvalir finni til sársauka við veiðarnar! Þetta er ekki gild ástæða þegar af þeirri ástæðu að hið sama á við um veiðar á öðrum villtum dýrum sem og reyndar á drápi dýra almennt.

    Margir Íslendingar virðast vera búnir að temja sér þá hugsun að handhafar ríkisvalds megi vasast í hvers manns koppi, m.a. með því að banna mönnum hvers kyns háttsemi sem valdamönnum mislíkar, sama hvaða ástæður eru hafðar fyrir því. Landsmenn ættu fremur að átta sig á því meginviðhorfi í ríki sem verndar mannréttindi, að skerðingar á þeim samkvæmt heimildum laga skulu sæta þröngri lögskýringu, sé á annað borð heimilt að setja þau.

    Hvernig væri að Íslendingar hættu að lúta hugsun þrælsins og tækju til við að lifa eins og frjálsir menn?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Aðferðir í lögfræði

    Eins og ég hef áður lagt áherslu á verður dómari sem leitar að réttri niðurstöðu í máli sem hann dæmir, að ganga út frá því aðeins ein niðurstaða sé rétt. Þó að fleiri en ein niðurstaða komi til greina má hann ekki telja sér trú um að hann megi velja þá sem honum hugnast best. Beiting réttarheimilda ræður en ekki persónuleg afstaða dómarans.

    Dómstólar mega ekki byggja dóma sína á öðru en beitingu réttarheimilda sem í gildi voru þegar atvik máls áttu sér stað. Margir lögfræðingar telja að honum sé heimilt að byggja dóma sína á lögum sem síðar voru sett en voru ekki komin í gildi þegar atvik máls urðu. Þetta er honum óheimilt.

    Viðurkenndir fræðimenn í lögfræði, halda því fram að dómstólum sé heimilt að setja ný lög; jafnvel að þeir takist á við löggjafann um lagasetninguna. Þetta er fjarstæða. Dómstólar hafa enga slíka heimild enda er skýrt í stjórnarskránni að þeir skuli starfa eftir lögum. Þá er auðvitað átt við lög sem í gildi voru þegar atvik máls urðu. Þeir hafa heldur ekkert umboð frá almenningi til lagasetningar, eins og alþingismenn hafa.

    Þessi sannindi um lögfræðilegar úrlausnir ættu sem flestir að þekkja, til þess að geta forðast misnotkun af hálfu þeirra sem fara með dómsvaldið í landinu. Hafa skal nokkur orð um þetta.

    Við úrlausn deilumála fyrir dómi er beitt því sem við lögfræðingar köllum réttarheimildir. Þeim og einungis þeim má beita þegar leyst er úr málum. Þýðingarmikið er að menn átti sig á því að í þessu felst mikil takmörkun á því valdi sem dómarar fara með. Þeir hafa ekki nokkra heimild til að láta persónulega eða pólitíska afstöðu hafa áhrif á niðurstöðu sína um sakarefni dómsmálanna. Þar á efni viðeigandi réttarheimildar að ráða, en stundum þurfa dómstólar að leysa úr ágreiningi um hvert það sé.

    En hverjar eru þá réttarheimildirnar sem við nefnum svo? Þar standa efst á blaði hin settu lög; æðst er stjórnarskráin en síðan þau lagafyrirmæli sem löggjafinn, Alþingi, hefur sett og birt hafa verið almenningi með lögmæltum hætti. Almenn lög verða að samþýðast stjórnarskrá og eiga dómstólar úrskurðarvald um hvort svo sé ef á þetta reynir í málum sem réttilega eru fyrir þá lögð. Á grundvelli heimilda í settum lögum setja svo handhafar framkvæmdavalds stjórnsýslufyrirmæli, sem nefnd eru reglugerðir, tilskipanir o.fl. Falla slík stjórnsýslufyrirmæli undir það sem lögfræðingar kalla „sett lög í rýmri merkingu.“ Allar þessar settu reglur verður að birta almenningi áður en þær taka gildi. Er kveðið á um skylduna til þess í 27. gr. stjórnarskrárinnar.

    Dómstólar verða auðvitað að leggja dóm á málin þó að ekki sé til að dreifa settri lagareglu um þann ágreining sem fyrir dóm er lagður. Þá koma til „réttlægri“ heimildir. Fræðimenn getur greint á um hvernig eigi að skilgreina að minnsta kosti sumar þeirra. Yfirleitt eru hér að minnsta kosti nefndar sem réttarheimildir, réttavenja, fordæmi og meginreglur laga og jafnvel eðli máls, sem svo er nefnt.

    Ekki er það ætlun mín hér að fara ofan í saumana á skilgreiningum á þessum heimildum réttarins en í því efni geta menn haft mismunandi sjónarmið. Ég legg hins vegar áherslu á meginatriði sem ég tel að ávallt verði að leggja til grundvallar við úrlausn á réttarágreiningi, það er að reglan sem beitt er hafi verið til þegar þau lögskipti áttu sér stað sem ágreiningi valda. Málið snúist um að finna hana. Það geti aldrei komið til greina að dómstóllinn hafi heimild til að búa til nýja reglu og beita henni síðan afturvirkt á ágreiningsefnið.

    Svo undarlega sem það kann að hljóma í huga lesandans eru uppi kenningar meðal lögfræðinga um að dómstólar hafi heimildir af þessu tagi. Þessu hafna ég alfarið. Það er eins og menn haldi því þá fram í alvöru að leysa skuli úr réttarágreiningi með því að fela úrlausn hans mönnum sem hafi heimild til að móta nýja reglu og beita henni síðan afturvirkt til lausnar á honum. Slíkt gengur aldrei upp.

    Það er til dæmis þýðingarmikil grunnregla í réttarríki að lög séu birt áður en þeim er beitt. Við Íslendingar höfum, svo sem fyrr var nefnt, lögfest í stjórnarskrá fyrirmæli um þetta. Afturvirk „dómaralög“ geta aldrei uppfyllt þá þýðingarmiklu kröfu. Kannski telja sumir að deila um þetta skipti ekki miklu máli. Þar er ég á öðru máli. Sá maður sem starfar sem dómari verður að gera sér skýra grein fyrir mörkum þess mikla þjóðfélagsvalds sem hann fer með. Hugsun hans um þetta er til þess fallin að hafa bein og óbein áhrif á öll hans störf.

    Í umræðum íslenskra lögfræðinga um réttarheimildir og starfsemi dómstóla hef ég sagt að menn verði ávallt að ganga út frá því að einungis ein niðurstaða sé rétt í dómsmálinu. Réttarheimildin sem beita beri hafi verið til staðar þegar atvik málsins urðu. Málið snúist um að finna hana og beita henni til úrlausnar á ágreiningi málsaðila. Ganga verði út frá því við leitina að ein niðurstaða sé rétt. Dómarinn megi aldrei telja sér trú um að hann eigi val milli fleiri kosta. Raunar hljóta þeir sem telja hann eiga slíkt val að þurfa þá að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem þeir telja að honum beri að beita við valið. Nema þeir telji hann eiga „frjálst“ val.

    Það er að mínum dómi undarlegt ef skoðanir um þetta eru skiptar meðal lögfræðinga, svo augljóst sem þetta ætti að vera. Hefur til dæmis einhver einhvern tíma séð í forsendum dóms lýst tveimur jafngóðum niðurstöðum, þar sem dómari hefur klykkt út með því að lýsa yfir því að hann hafi ákveðið að taka aðra fram yfir hina? Auðvitað ekki. Er þetta þá vegna þess að þessi aðferðafræði sé leyndarmál? Dómarinn megi gera þetta en bara ekki segja frá því? Það er satt að segja ótrúlegt að menn skuli heyra alvörugefna lögfræðinga, jafnvel meðal starfandi dómara, láta uppi það sjónarmið að dómarar eigi svona valrétt.

    Ég hef ekki legið á skoðunum mínum á þessu. Ég hef aldrei sagt að þessi leit að hinni einu réttu niðurstöðu sé ávallt auðveld eða kunni ekki að orka tvímælis. Ég hef hins vegar talið afar þýðingarmikið að þeim, sem með dómsvaldið fara, sé ljós sú takmörkun á valdi þeirra sem felst í því að þeir eru að leita viðeigandi réttarheimildar en ekki skapa hana.

    Það getur sjálfsagt verið freistandi fyrir þá sem fara með þjóðfélagsvald á ákveðnu sviði að beita því án þeirra takmarkana sem við eiga. Þannig geta þeir komið fram áhugamálum sínum hvort sem þau eru af stjórnmálalegum toga eða tengjast persónulegum áhugamálum. Einhvern tíma heyrði ég tilbúna dæmisögu um Bandaríkjamann sem vildi banna almenningi þar í landi að eiga skotvopn. Hann bauð sig fram til þings með baráttumál sitt á vörunum og var fjarri því að ná kjöri því mikill meirihluta Bandaríkjamanna vildi fá að eiga skotvopn. Maðurinn fór þá bara í lögfræðinám, tók lögfræðipróf og varð dómari. Í því starfi fékk hann tækifæri til að komast að þeirri niðurstöðu sem dómari að almenn skotvopnaeign væri óheimil. Til rökstuðnings bjó hann bara til nýja reglu sem kvað á um þetta. Ætli það sé svona sem menn vilja að dómstólar starfi?

    Svo undarlegt sem það kann að virðast hef ég á undanförnum áratugum nokkrum sinnum orðið fyrir hálfgerðum árásum fyrir skoðanir mínar á meðferð réttarheimilda og þeirri viðmiðun að sá sem leysir úr hafi ekki val milli margra kosta heldur verði að ganga út frá því að hann sé að leita að einni réttri niðurstöðu. Sérstaklega virtist orðræða mín um þetta hafa farið fyrir brjóstið á gömlum kennara mínum, Sigurði Líndal prófessor, sem beinlínis veittist að mér á opinberum vettvangi vegna þess arna. Í bók minni „Í krafti sannfæringar“, sem kom út á árinu 2014 (sjá bls. 113-136), gerði ég nokkra grein fyrir deilum mínum við Sigurð meðal annars um þetta, því mér finnst hún sýna ákveðinn kjarna í álitaefnum sem þessu tengjast og þá einnig í skoðunum mínum um réttarheimildirnar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Frelsi með ábyrgð

    Öllum mönnum er hollt að leggja sig eftir hugmyndafræði í stjórnmálunum vegna þess að hugmyndir manna um grundvöll samlífs með öðru fólki eru til þess fallnar að gefa lífshlaupi þeirra aukið gildi og færa þeim lífsgleði og hamingju. Mínar hugsanir féllu fljótlega í þann farveg, að ég taldi frelsi einstaklinga með ríka ábyrgð á eigin lífi eiga að vera sú undirstaða sem líf mitt skyldi byggjast á.

    Þegar ég horfi til baka skynja ég að strax innan við tvítugt hafði ég eignast þá sannfæringu um meginatriði í lífinu sem ég hef haldið síðan. Á þeim árum var ég fenginn til að flytja á fundum ungliða í stjórnmálum erindi um hugmyndafræði sem verðugt væri að lifa eftir. Á þessum árum las ég mikið í ritum um stjórnmálaheimspeki. Þetta átti eftir að móta afstöðu mína og hugsjónir.

    Þegar ég les núna erindi sem ég flutti og voru birt opinberlega má vera að mér finnist þau vera ungæðisleg á köflum. En hugsunin sem þar birtist var heiðarleg og hrein. Meginboðskapurinn er sá að þær grunnhugmyndir sem standa að baki lýðræðislegu stjórnkerfi eigi líka við í daglegu lífi manna. Þeir eigi þannig ekki aðeins að fá aðild að landsstjórninni með kosningarétti sínum heldur einnig að fá að ráða sínum eigin málefnum í ríkum mæli og virða rétt annarra til hins sama.

    Í endurminningunni finnst mér að hugsanir um þetta hafi skipt meginmáli fyrir myndun þeirra skoðana í stjórnmálum og raunar um æskilega hætti í daglegu lífi manna sem ég síðan hef haft. Niðurstaðan er að líklega séu þeir fáir sem hlýddu á erindi mín, sem hafi munað mikið af því sem sagt var, þannig að það entist þeim. Það gerði líklega aðeins sá sem talaði! Ég held að málum sé oft svona farið. Til dæmis græddi ég mikið á því að kenna við háskólana og fólst það ekki síst í þeirri vinnu sem ég lagði í undirbúninginn. Vonandi hefur eitthvað líka setið eftir hjá nemendunum. Kennsla hefur að mínu mati fyrst og fremst þann tilgang að vekja áhuga nemenda á viðfangsefninu þannig að þeir verði tilbúnir til að leggja sig sjálfir eftir námsefninu.

    Það er að mínum dómi afar mikils virði fyrir einstaklinga að tileinka sér það sem við stundum köllum lífsskoðun. Þá á ég við afstöðu til lífsins sem ræðst af grunnhugmyndum um hvað sé skynsamlegt og hvað leiði til mests velfarnaðar í lífi einstaklinga en þó kannski umfram allt hvað teljist vera rétt og hvað rangt út frá málefnalegum sjónarmiðum eingöngu og þeim siðferðislegu og lagalegu viðhorfum sem viðkomandi hefur. Þegar tekin er afstaða til mála verða menn að skilja að hagsmunir, sem þeir sjálfir kunna að hafa eða hafa samúð með, mega ekki valda frávikum frá því sem rétt er samkvæmt þeim meginsjónarmiðum sem þeir hafa tileinkað sér og sett í öndvegi í lífi sínu.

    Í skáldsögunni Undirstaðan, eftir þann merka höfund Ayn Rand, sagði frá tveimur tíu ára börnum tala saman um hvað þau hygðust gera í lífinu. Annað þeirra, drengur, svaraði spurningu um hvað hann ætlaði að gera með orðunum. „Það sem er rétt.“ Ekki flókið! (Sjá Ayn Rand „Undirstaðan“ í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur, útg. Almenna bókafélagið 2012, bls. 10.)

    Þó að við tileinkum okkur svona viðhorf þurfum við samt að skilja að engin trygging er fyrir því að við höfum alltaf rétt fyrir okkur. Og við verðum líka jafnan að vera tilbúin til að skipta um skoðun á þeim málefnum sem við tökum afstöðu til ef nýjar upplýsingar eða röksemdir birtast okkur. Þó að engin trygging sé fyrir því að við höfum alltaf rétt fyrir okkur gerir það samt ekkert til svo lengi sem við reynum af einlægum huga að taka þá bestu afstöðu sem völ er á. Meira verður ekki krafist af okkur. Og það sem mestu máli skiptir, við getum sjálf ekki krafist meira af okkur sjálfum.

    Hafi maður breytt rétt, eftir bestu samvisku, getur enginn gert honum neitt. Hann getur staðið aleinn gagnvart málæði, hávaða og fordæmingum án þess að slíkt hreyfi við honum, aðeins ef hann hefur hlýtt kalli samvisku sinnar og gert það sem fólst í svari drengsins í sögu Ayn Rand, „það sem er rétt“, og þá eins og maðurinn hefur metið það sjálfur eftir að hafa reynt að taka tillit til alls sem máli skiptir. (Sjá Ayn Rand „Undirstaðan“ í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur, útg. Almenna bókafélagið 2012, bls. 10.)

    Ég hef líka alltaf haldið upp á orð sem höfð eru eftir Abraham Lincoln lögfræðingi í „Notes on Lawyers“ frá 1850, en Abraham þessi gegndi eins og menn vita embætti forseta Bandaríkjanna nokkrum árum síðar. Orð hans hljóða svo í þýðingu minni: „Reynið alltaf að vera heiðarleg; og ef þið getið ekki að eigin dómi verið heiðarleg í starfi ykkar sem lögfræðingar, verið þá heiðarleg við að gera eitthvað annað.“

    Setjum okkur í svolítið hátíðlegar stellingar og veltum fyrir okkur grundvellinum fyrir því samfélagi sem við öll erum í við annað fólk. Erum við ekki sjálf grunneiningin? Við höfum auðvitað aldrei verið beðin um að semja okkur inn í samfélag við aðra. Flest teljum við samt að okkur beri siðferðileg skylda til þátttöku í slíku samfélagi. Ástæðan er nábýlið við aðra og óhjákvæmileg sameiginleg viðfangsefni okkar og þeirra. Þess vegna beygjum við okkur flest undir að teljast þátttakendur í sameiginlegu skipulagi með öðru fólki.

    Þetta skipulag hefur þróast með ýmsum hætti, til dæmis hafa myndast einingar sem samanstanda af þeim einstaklingum sem byggja ákveðin og skilgreind landsvæði. Þeir mynda saman það sem við köllum ríki og setja sér þar reglur um sambúð sína innan endimarka þess. Við gerum fæst miklar athugasemdir við þetta.

    Meginhugmyndin hlýtur samt að vera sú að einstaklingurinn í slíku samfélagi sé grunneiningin. Hann verður ekki til fyrir samfélagið, heldur er samfélagið til fyrir hann og til að þjóna einstaklingsbundnum þörfum hans. Þessi hugsun mótar þýðingarmikil grunnviðhorf í stjórnskipun okkar og lögum. Til dæmis er það almenn meginregla í okkar réttarkerfi að frelsi manna til orða og athafna eigi helst ekki að takmarkast af öðru en réttindum annarra. Við teljum líka þá meginreglu gilda að setta lagaheimild þurfi til að skerða frelsi einstaklinga og jafnvel að slík heimild dugi ekki til ef skert eru réttindi sem njóta ríkari verndar samkvæmt sérstökum ákvæðum sem við höfum sett í stjórnlög okkar þar að lútandi. Ég tel að miklu máli skipti fyrir þá sem starfa að úrlausn mála í réttarkerfinu að átta sig vel á þessum hugmyndagrundvelli stjórnskipunarinnar.

    Það er líka sérstaklega ástæða til að nefna annan þátt sem að mínum dómi er óaðskiljanlegur hluti af þeirri lífsskoðun sem hér er lýst, en það er virðing fyrir öðru fólki og skilyrðislaus viðurkenning á rétti þess til að haga sínu eigin lífi á þann hátt sem það sjálft kýs svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Mannfólkið er fjölbreytilegt og einstakir menn hafa mismunandi kenndir, hvatir og langanir í lífinu. Allir eiga þar að mínum dómi sama rétt. Ekkert okkar hefur heimild til að sitja yfir hlut annarra með því að bjóða og banna, eins og svo margir vilja sífellt gera. Sumir vilja flokka mannfólkið eftir þjóðerni, litarhætti, trúarbrögðum, kynferði, kynhneigð, gáfum eða hverju því öðru sem greinir einn mann frá öðrum og láta menn njóta misjafns réttar eftir því hverjum þessara „flokka“ þeir tilheyra. Til þess hafa menn yfirleitt enga heimild af þeirri einföldu ástæðu að einn á ekki að ráða neinu um einkahagi annars. Svo einfalt er það.

    Svo er annar eiginleiki sem oft skiptir sköpum í samskiptum milli manna af því að hann er oft nauðsynlegur til að geta haldið vináttu og góðum tengslum á lífi. Þetta er hæfileikinn til að geta beðist afsökunar. Enginn maður kemst hjá því að segja einhvern tíma eða gera eitthvað sem meiðir eða særir annan, jafnvel góðan vin. Hafi maður gert þetta og síðan komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið farið fram af fullri sanngirni gagnvart þeim sem orðum var beint að, tilheyrir það að mínum dómi siðferðislegri skyldu að biðja viðkomandi afsökunar. Stundum hef ég verið of fljótur til að beina skeytum að öðrum án þess að sýna nauðsynlega sanngirni. Ég tel mig í slíkum tilvikum oftast hafa reynt að bæta ráð mitt, ræða málið við þann sem í hlut á og biðja hann afsökunar á frumhlaupinu. Það er regla frekar en undantekning að hrein samskipti af þessu tagi treysti vináttu og gott samband milli manna fremur en að spilla því. Ég hef líka orðið vitni að því að skorturinn á þessum hæfileika hefur leitt af sér sambandsleysi og jafnvel vinslit, sem auðveldlega mátti komast hjá.

    Að mínu áliti skiptir það sköpum fyrir velferð og hamingju manna að njóta frelsis til að stjórna eigin lífi og taka ákvarðanir um hagi sjálfs sín. Þessu verður að fylgja ábyrgð þess manns sjálfs sem í hlut á. Það er lykilatriði. (Sjá um þetta ritið Ábyrgðarkver eftir Gunnlaug Jónsson, sem út kom í Reykjavík 2012. Í ritinu eru færð fram sterk rök fyrir sjónarmiðum um að hver maður skuli njóta frelsis til að taka ákvarðanir í eigin lífi og bera sjálfur ábyrgð á þeim. Ég er kunnugur höfundinum persónulega og veit að hann mælir af heilindum og mannviti.)

    Í samfélagi mannanna er auðvelt að greina alls kyns vandamál, sem einstaklingar og hópar þeirra eiga við að stríða. Úrræði margra felast í að vilja taka á vandanum með opinberum afskiptum og forsjá sem fela í sér skerðingu á athafnafrelsi borgara almennt og krefst skattheimtu og þær takmarkanir á sjálfsforræði borgara sem henni fylgir. Settar eru boð- og bannreglur um alls kyns mannlega breytni og refsing lögð við ef menn fylgja ekki hinni opinberu forskrift. Stundum er eftirlitsstofnunum hins opinbera komið á fót til að gæta að því að menn fari eftir fyrirmælum og tryggja að þeir verði lögsóttir sem ekki hlýða. Þá eru tíðum settar lagareglur sem fela í sér beinan eða óbeinan tilflutning fjármuna á milli borgaranna. Þessi forsjá er að mínum dómi afar óæskileg og gerir ekki annað en að ræna menn ábyrgðinni á sjálfum sér sem er svo bráðnauðsynleg fyrir lífshlaup okkar og hamingju.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Engin málssókn nú

    Skúli Gunnar Sigfússon, sem kenndur hefur verið við Subway, birti á árinu 2021 svæsna grein um vinina Svein Andra Sveinsson lögmann og Benedikt Bogason hæstaréttardómara, sem nú skipar embætti forseta réttarins. Sveinn Andri hafði verið skiptastjóri í EK 1923 ehf. (áður Eggert Kristjánsson hf. heildsala). Segir Skúli að Benedikt hafi misnotað dómsvald sitt í Hæstarétti með því að stýra því að dómi Landsréttar og áður héraðsdóms hafi verið snúið við með þeim hætti að fyrirtæki Skúla, Sjöstjörnunni ehf., hafi verið gert að sæta riftun á kaupsamningi um fasteign að Skútuvogi 3 í Reykjavík með þeim afleiðingum að fyrirtækið hafi þurft að endurgreiða þrotabúinu um hálfan milljarð að ósekju.

    Þetta þrotabú komst í fréttir á sínum tíma vegna óheyrilegrar þóknunar við skiptin sem lögmaðurinn Sveinn Andri lét búið greiða sér. Mun hann hafa tekið um 50.000 krónur á tímann fyrir vinnu sína. Slík fjárhæð þekkist ekki hjá starfandi lögmönnum. Sveinn Andri, sem mun vera persónulegur vinur Benedikts, mun hafa haft mikilla persónulegra hagsmuna að gæta af því að afla þrotabúinu fjár til að geta greitt sér þessa óheyrilega háu þóknun. Hafði hann tugi milljóna í tekjur af málinu.

    Þessi grein Skúla var endurbirt á Vísi nú nýverið fyrir tilstuðlan einstaklings sem lesið hafði greinina og taldi sýnilega ekki viðunandi að réttmæti ásakana Skúla hefði ekki verið rannsakað. Skúli dregur ekki af sér og setur fram afar svæsnar ásakanir á hendur vinunum Sveini Andra og Benedikt.

    Þeir félagar Sveinn Andri og Benedikt hafa neitað ásökunum Skúla. Það vekur hins vegar sérstaka athygli að þeir skuli ekki hafa freistað þess að fá þeim hnekkt fyrir dómi. Hafa menn þá m.a. bent á að Benedikt hikaði ekki við fyrir nokkrum árum að höfða mál á hendur mér fyrir ummæli, sem voru miklu mildari gagnvart honum en ummæli Skúla í ofangreindri grein, enda tapaði Benedikt því máli á öllum þremur dómsstigum. Nú hefst hann hins vegar ekki að.

    Gárungarnir telja að þessi skortur á viðbrögðum við ásökunum Skúla stafi af því að þeir félagar séu hræddir um að við rekstur dómsmáls muni Skúli geta teflt fram upplýsingum, sem sýni réttmæti ásakana hans á hendur vinunum tveimur. Þeir hafa hins vegar áreiðanlega spjallað um þær í fjölskylduboðum, sem þeir bjóða hvor öðrum í, eða hvað?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður