Með breytingum á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar 1995 var kveðið á um jafnrétti í 65. gr., sem hljóðar svo eftir breytinguna:
Segja má að síðari málsgreinin hafi verið óþörf, þar sem kveðið er skýrt á um jafnan rétt kynjanna í þeirri fyrri. Sýnilega er lögð sérstök áhersla á jafnrétti kynjanna með því að endurtaka þetta.
Það er ekki langur tími liðinn síðan mikið misrétti ríkti í þágu karla á Íslandi. Þessa gætti bæði í settum lögum en þó kannski miklu frekar í almennum samskiptum kynjanna. Ég og kona mín máttum t.d. líta kjánalegt dæmi um þetta í vottorði um hjónavígslu okkar á árinu 1974, en þar sagði að Jón Steinar „og brúður“ hefðu gengið í hjónaband. Af þessu mátti jafnvel ráða að presturinn, sem gaf vottorðið út, hafi talið að konan mín héti ekkert sérstakt.
Svona hættir eru núna líklega að mestu leyti að baki. Vonandi er búið að koma á því ástandi í landi okkar, að konur og karlar skuli „njóta jafns réttar í hvívetna“, eins og komist er að orði í stjórnarskránni.
En er þetta svo? Getur verið að fólk, sem hefur aðstöðu til að taka ákvarðanir um hagsmuni annarra og gera upp á milli manna, vilji nú sýna að það verði ekki sakað um að beita misrétti í þágu karla? Þetta getur þá birst þannig að beitt sé misrétti í þágu kvenna. Ég þykist t.d. þekkja dæmi um að matsnefndir um umsækjendur um starf meti stundum konur framar körlum eða jafnar þeim, þó að augljós tilefni séu til hins öndverða. Og þá verður þeim sem stöðu veitir létt verk að fylgja þessu eftir við skipun í starfið og sýna þannig að hann sé mikill jafnréttissinni, þó að hann sé í reynd að beita misrétti milli umsækjenda. Ég kann dæmi um að ráðherra hafi hælst um að hafa aukið jafnrétti milli karla og kvenna þegar hann skipaði komur í opinber embætti, þó að allir hafi vitað að aðrir umsækjendur af karlkyni væru hæfari. Á síðasta ári skrifaði ég blaðagrein um misrétti af þessu tagi við skipun dómara að Hæstarétti. En þetta gildir einnig á öðrum sviðum.
Við eigum að láta alla njóta jafnréttis eins og reglan í stjórnarskránni segir til um. Dulbúið misrétti sem felst í að taka konu fram yfir karlmann vegna kynferðis er ekki betra en ástandið sem var við lýði fyrir nokkrum áratugum, þegar karlar voru teknir fram yfir konur. Ástæða er til að skora á fólk til að taka raunverulegt jafnrétti milli einstaklinga fram yfir misrétti í þágu rétttrúnaðar.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður