apríl 2023

  • Afi minn

    Um miðjan þennan mánuð (apríl) birtist í Morgunblaðinu frásögn af því er rúmlega fimmtugur maður, Hilmar Þór, fann föður sinn eftir að hafa leitað hans um margra ára bil. Við erfðafræðilega rannsókn kom í ljós, að maður að nafni Guðjón Sigurðsson, reyndist vera faðirinn og hafði hann ekkert vitað um tilvist sonarins. Guðjón er góðvinur minn og hefur verið um áratuga skeið. Svo sem fram kom í Morgunblaðinu er nú orðið kært á milli þeirra feðga og reyndar annarra í fjölskyldu Guðjóns, en þar tóku allir Hilmari vel.

    Líklega er algengara en menn gera sér grein fyrir, að hér á landi eru ýmsir sem er rangt í ætt skotið, bæði karlar og konur. Tilviljanir ollu því að ég sá ástæðu til að láta fyrir nokkrum árum kanna erfðafræðileg tengsl mín við föðurafa minn Ólaf Þórarinsson.

    Ég leitað því til Kára Stefánssonar hjá Íslenskri erfðagreiningu til könnunar á þessu. Þegar ég hitti Kára af þessu tilefni vildi hann ekkert vita um þá sem talið var að gætu komið til greina. Kári sagði að þetta myndi hann finna út með rannsókn sinni og myndi hann þá geta sagt mér hver maðurinn væri ef í ljós kæmi að það væri ekki Ólafur Þórarinsson, sem talinn hafði verið afi minn.

    Svo þegar Kári hringdi til mín með niðurstöðuna kvað hann staðfest að Ólafur væri ekki afi minn. Ekki vildi samt betur til en svo að tveir menn komu til greina en ekki einn, eins og Kári hafði talið. Ástæðan var sú að genin voru úr öðrum eineggja tvíbura, Guðbirni eða Lárusi Hansyni. Við nánari athugun kom í ljós að Guðbjörn hafði, á þeim tíma sem um ræddi, verið búsettur í sama húsi á Njálsgötunni í Reykjavík og amma mín, Þorgerður Vilhelmína Gunnarsdóttir, og maður hennar Ólafur. Lárus var nýkvæntur á sama tíma. Taldi ég því að Guðbjörn væri maðurinn sem í hlut ætti. Pabbi var yngstur barna Þorgerðar og Ólafs en amma dó á árinu 1921, þegar pabbi var á öðru aldursári. Faðir minn var öndvegismaður og þótti mér slæmt að fá vitneskju um að hann hefði búið við fremur þröngan kost í æsku svo sem frásagnir greindu.

    Við athugun á æviferli Guðbjörns kom í ljós að þar hafði farið hinn vandaðasti maður, sem lengst af gegndi stöðu yfirvarðstjóra hjá lögreglunni í Reykjavík. Í frásögnum af honum kom í ljós að hann hafði haft mörg sömu áhugamál og pabbi. Þar var um að ræða iðkun íþrótta, svo sem fimleika og sunds, áhugi á taflmennsku og bridsi, ljóð og kvæðalestur svo eitthvað sé nefnt. Með þessu tilskrifi birti ég ljósmynd af þeim tvíburabræðrum og er afi til vinstri á myndinni.

    Það er í rauninni magnað að rúmum 100 árum eftir fæðingu föður míns skuli hafa verið unnt með vísindalegum rannsóknum að finna föður hans.

    Jón Steinar Gunnlaugsson

  • Fullveldi

    Ég tel að íslenska lögfræðinga greini ekki á um að Ísland sé fullvalda ríki en svo nefnist ríki sem fer með æðsta vald í eigin málefnum, hvort sem er lagasetning, stjórnsýsla eða dómsýsla. Þetta felst í 2. gr. stjórnarskrárinnar og fleiri ákvæðum sem árétta þetta.

    Nú flytur ríkisstjórnin frumvarp til almennra laga með svofelldum texta:

    „Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum.“

    Við lagasetningu hér á landi gildir vitaskuld sú regla að yngri lög skuli ganga fyrir þeim eldri. Sé ekki efnislegt samræmi milli eldri laga og yngri skulu þau yngri gilda.

    Hér virðist vera gert ráð fyrir að skuldbindingar samkvæmt EES- samningnum, sem ekki hafa verið leiddar í lög hér á landi, heldur aðeins með stjórnvaldsfyrirmælum, skuli ganga framar yngri almennum lagafyrirmælum ef ekki er efnislegt samræmi. Í þessu felst í reynd að lagasetningarvaldið er í þessum tilvikum tekið úr höndum íslenska löggjafans (Alþingis) og fengið í hendur erlendum aðila sem ákveður efni skuldbindinga samkvæmt EES-samningnum.

    Að mínum dómi er ljóst að efni fyrrgreinds frumvarps stenst ekki fullveldisrétt þjóðarinnar sem allir virðast vera sammála um að felist í stjórnarskránni. Það er því ástæða til að benda ríkisstjórn Íslands á að ekki er unnt að samþykkja nefnt frumvarp sem lög í landinu nema fyrst hafi stjórnarskránni verið breytt í þá veru að heimila svona lagasetningu.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Gylfi Þór Sigurðsson

    Hvers konar réttarkerfi er eiginlega í Bretlandi? Nú berast fréttir af því að málið gegn Gylfa Þór Sigurðssyni hafi verið fellt niður. Það er búið að halda manninum í farbanni í nær tvö ár. Hann hefur ekki getað stundað atvinnu sína þann tíma, en hann var hátt launaður atvinnumaður í fótbolta þegar ósköpin riðu yfir. Mér skilst að samkvæmt breskum rétti hafi tjáningarfrfelsi hans verið takmarkað því hann hafi ekki mátt ræða málið opinberlega, t.d. til að bera af sér sakir. Svo virðast yfirvöld hafa dregið lappirnar við að rannsaka málið. Niðurstaðan er sú að hann hefur skaðast stórlaga þennan tíma, saklaus maðurinn. Það er ástæða til að hvetja Gylfa til að sækja rétt sinn fyrir dómi.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Jafnrétti kynjanna?

    Með breytingum á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar 1995 var kveðið á um jafnrétti í 65. gr., sem hljóðar svo eftir breytinguna:

    Segja má að síðari málsgreinin hafi verið óþörf, þar sem kveðið er skýrt á um jafnan rétt kynjanna í þeirri fyrri. Sýnilega er lögð sérstök áhersla á jafnrétti kynjanna með því að endurtaka þetta.

    Það er ekki langur tími liðinn síðan mikið misrétti ríkti í þágu karla á Íslandi. Þessa gætti bæði í settum lögum en þó kannski miklu frekar í almennum samskiptum kynjanna. Ég og kona mín máttum t.d. líta kjánalegt dæmi um þetta í vottorði um hjónavígslu okkar á árinu 1974, en þar sagði að Jón Steinar „og brúður“ hefðu gengið í hjónaband. Af þessu mátti jafnvel ráða að presturinn, sem gaf vottorðið út, hafi talið að konan mín héti ekkert sérstakt.

    Svona hættir eru núna líklega að mestu leyti að baki. Vonandi er búið að koma á því ástandi í landi okkar, að konur og karlar skuli „njóta jafns réttar í hvívetna“, eins og komist er að orði í stjórnarskránni.

    En er þetta svo? Getur verið að fólk, sem hefur aðstöðu til að taka ákvarðanir um hagsmuni annarra og gera upp á milli manna, vilji nú sýna að það verði ekki sakað um að beita misrétti í þágu karla? Þetta getur þá birst þannig að beitt sé misrétti í þágu kvenna. Ég þykist t.d. þekkja dæmi um að matsnefndir um umsækjendur um starf meti stundum konur framar körlum eða jafnar þeim, þó að augljós tilefni séu til hins öndverða. Og þá verður þeim sem stöðu veitir létt verk að fylgja þessu eftir við skipun í starfið og sýna þannig að hann sé mikill jafnréttissinni, þó að hann sé í reynd að beita misrétti milli umsækjenda. Ég kann dæmi um að ráðherra hafi hælst um að hafa aukið jafnrétti milli karla og kvenna þegar hann skipaði komur í opinber embætti, þó að allir hafi vitað að aðrir umsækjendur af karlkyni væru hæfari. Á síðasta ári skrifaði ég blaðagrein um misrétti af þessu tagi við skipun dómara að Hæstarétti. En þetta gildir einnig á öðrum sviðum.

    Við eigum að láta alla njóta jafnréttis eins og reglan í stjórnarskránni segir til um. Dulbúið misrétti sem felst í að taka konu fram yfir karlmann vegna kynferðis er ekki betra en ástandið sem var við lýði fyrir nokkrum áratugum, þegar karlar voru teknir fram yfir konur. Ástæða er til að skora á fólk til að taka raunverulegt jafnrétti milli einstaklinga fram yfir misrétti í þágu rétttrúnaðar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hlúum að okkur sjálfum

    Nær daglega verðum við vitni að háttsemi manna sem felst í að gera öðrum rangt til. Þetta getur falist í ýmsu eins og að taka þátt í fordæmingum yfir mönnum sem hafa verið sakaðir um brot gegn öðrum sem þeir neita og engar sannanir eru um. Stundum er háttsemi sem maður er sakaður um alvarlegri og getur falist í glæpum gagnvart öðrum.

    Við höfum í gildi réttarkerfi sem á að fjalla um refsiverð afbrot manna. Þar þarf að uppfylla lögbundin skilyrði til að heimilt sé að refsa sakborningum. En fordómar okkar eru ekki bundnir við svo alvarleg brot að réttarkerfið láti sig varða. Brot á öðrum kann að felast í því að fallast á og bera út orðróm sem við heyrum um ámælisverða háttsemi þeirra, án þess að nokkur „sök“ hafi sannast. Við ættum ekki að láta það eftir okkur að taka undir slíkan orðróm og bera hann út.

    Sagt hefur verið að mannskepnan sé grimmasta skepna jarðarinnar. Þegar litið er á mannkynssöguna verður að telja þessa staðhæfingu hafa nokkuð til síns máls. Að vísu eru til rándýr sem drepa bráðina án samviskubits, en þau drepa yfirleitt bara einn í einu og þá helst ekki þá sem eru sömu tegundar. Mannskepnan fremur hins vegar fjöldamorð og þá m.a. á meðbræðrum sínum. Nasistar drápu þannig 6 milljónir gyðinga á árum síðari heimstyrjaldarinnar og nú eru stunduð dráp á saklausu fólki í miðri Evrópu svo dæmi séu tekin.

    Ekki eru allar misgerðir okkar svona stórfelldar en við erum samt mörg tilbúin til að veitast að öðrum án fullnægjandi tilefnis og þannig valda þeim sársauka og beinum skaða.

    Ég spyr hvað sé til ráða? Svar mitt er að okkur beri öllum siðferðileg skylda til að eyða tíma og hugarorku í að mynda okkur sjálfstæðar skoðanir um þau gildi sem við viljum virða í lífi og starfi. Þetta eigum við að gera án þess að tengja það við nokkurn mann eða nokkra hagsmuni, því hugsanir um slíkt eru líklegar til þess að rugla okkur í ríminu. Ég held að tilfinning flestra okkar fyrir mannúð, réttlæti, sannleika og mannréttindum yrði mælikvarðinn sem við flest myndum vilja setja í öndvegi. En það er ekki nóg að gera þetta eingöngu upp í huganum fyrir sjálfan sig. Við verðum að taka sjálf upp lifnaðarhætti sem markast af þessum gildum og vera fús til að berjast fyrir þeim hvenær sem er á vettvangi mannanna.

    Og trúið mér: Virðing okkar fyrir okkur sjálfum mun vaxa við þetta og þar með dagleg líðan batna og það eins þó að við höfum þurft að fórna einhverjum fjárhagsmunum fyrir að standa okkur í að vera sjálfstæð og heiðarleg gagnvart öðrum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður