febrúar 2023

  • Sjálfsvirðingin

    Ég var að horfa á kvikmynd þar sem fjallað var um morð Þjóðverja á milljónum gyðinga á árum síðari heimstyrjaldarinnar. Hvernig gat þetta ódæði átt sér stað í ríki sem var ekki svo ólíkt okkar eigin að menningu og siðum? Og þetta gerðist aðeins fyrir nokkrum áratugum. Fyrir liggur að flestir „venjulegir“ Þjóðverjar létu sig litlu varða þessa verknaði, sem valdhafar úr hópi nazista stóðu fyrir; gerðu að minnsta kosti lítið sem ekkert til að stöðva þá.

    Er það virkilega svo að flestir borgarar í vestrænum ríkjum samsinni, a.m.k. með þögninni svona glæpaverkum sitjandi valdhafa? Láta þeir svona framferði eiga sig svo framarlega sem það snertir ekki persónulega hagi þeirra sjálfra? Hvernig er siðferðisástand okkar „nútímamanna“ hvað þetta varðar? Eru ekki mörg okkar sífellt að samsinna alls kyns fordómum og hreinum ósannindum sem við sjáum birtast einkum á svonefndum samfélagsmiðlum? Þessu ætti hver maður að svara fyrir sjálfan sig. Þó að fordómafullir verknaðir og háttsemi nái yfirleitt ekki þeim „hæðum“, sem raunin varð í Þýzkalandi ætti heiðarlega svar flestra að blasa við, því flest okkar eru svo dáðlaus að stökkva bara upp á vagninn, nema persónulegir hagsmunir okkar mæli því gegn.

    Hvað er til ráða? Svar mitt er að okkur beri öllum siðferðileg skylda til að eyða tíma og hugarorku í að mynda okkur sjálfstæðar skoðanir um þau gildi sem við viljum virða í lífi og starfi. Ég held að tilfinning flestra okkar fyrir réttlæti, sannleika og mannréttindum yrði mælikvarðinn sem við flest myndum vilja setja í öndvegi. En það er ekki nóg að gera þetta eingöngu upp í huganum fyrir sjálfan sig. Við verðum að taka sjálf upp lifnaðarhætti sem markast af þessum gildum og vera fús til að berjast fyrir þeim hvenær sem er á vettvangi mannanna.

    Og trúið mér: Virðing okkar fyrir okkur sjálfum mun vaxa við þetta og þar með dagleg líðan batna og það eins þó að við höfum þurft að fórna einhverjum fjárhagsmunum fyrir að standa okkur í að vera sjálfstæð og heiðarleg gagnvart öðrum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Samningur er kominn á

    Ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Þetta gerði hann með sérstakri heimild sem er að finna í 27. gr. laga nr 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

    Lögin geyma ákvæði um að slíka tillögu skuli bera undir deiluaðila og skuli stéttarfélagið sem í hlut á efna til atkvæðagreiðslu félagsmanna sinna undir forsjá ríkissáttasemjara. Atkvæðagreiðslan þjónar samkvæmt lögunum þeim tilgangi að gefa félagsmönnum kost á að fella tillöguna.

    Þannig segir í 31. gr. laganna:

    Þessar lagareglur tryggja því rétt þess stéttarfélags sem í hlut á til að fella tillögu ríkissáttasemjara í atkvæðagreiðslu. Hún er hins vegar ekki háð samþykki félagsins.

    Í yfirstandandi deilu kom forysta Eflingar í veg fyrir að ríkissáttasemjari fengi að bera miðlunartillöguna undir félagsmennina og lét það koma skýrt fram að það fengi hann ekki að gera. Þar með varð ljóst að félagsmenn Eflingar áttu þess ekki kost að fella miðlunartillöguna. Hún varð því ekki felld með þeim hætti sem lögin ráðgera að kunni að verða.

    Í þessari atburðarás felst að kominn er á samningur með því efni sem felst í miðlunartillögu ríkissáttasemjara, þar sem félagið sem í hlut á hefur ekki fellt hana á þann hátt sem lögin kveða á um. Af því leiðir að þessu stéttarfélagi er ekki heimilt að halda uppi verkfalli því sem nú hefur gengið í garð. Það er heldur ekki sérstök þörf á að halda samningafundi á vettvangi ríkissáttasemjara, þó að slík fundarhöld séu svo sem aðilum heimil.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður