desember 2022

  • Helgasta hlutverk dómstóla

    Eitt helsta hlutverk dómstóla er að vernda borgarana fyrir brotum á persónulegum réttindum þeirra, hvort sem er af hendi ríkisins eða annarra einstaklinga. Til þess að geta kallað ríki okkar réttarríki þarf þessi vernd að vera raunveruleg og ávallt til staðar fyrir borgarana þegar á þeim er brotið.

    Mér finnst nánast ógnvekjandi að kynnast því hvernig sumir þeirra sem fara með dómsvaldið í landinu tjá sig um hlutverk og æskilega starfshætti dómstóla.

    Þekktum starfandi dómara hér á landi fórust til dæmis svo orð í útvarpsviðtali fyrir nokkrum árum að dómstólarnir væru sprottnir upp úr samfélagi okkar og ættu þeir því að endurspegla viðhorf almennings til málefna líðandi stundar. Þetta heyrði til starfsskyldna dómara við dómsýsluna.

    Annar sagði í viðtali fyrr á þessu ári að rík viðleitni væri hjá dómurum, sem sætu í fjölskipuðum dómum, að leita samkomulags við hina um niðurstöður málanna. Var helst á honum að skilja að samkomulagið við hina gengi framar skilningi hans sjálfs á beitingu réttarreglna sem leiða ættu fram niðurstöðuna í þeim málum sem hann ætti sæti í.

    Báðir þessir menn hafa oft verið kallaðir til setu í Hæstarétti og annar þeirra var raunar fastskipaður dómari þar um tíma.

    Þetta eru hvort tveggja með öllu óheimil sjónarmið hjá þeim sem fara með dómsvald í landinu. Þar er það grunnregla að niðurstöður málanna skuli aðeins ráðast af beitingu réttarheimilda. Mælt er fyrir um þetta í stjórnarskránni.

    Dómstólar á æðri stigum eru fjölskipaðir þar sem líklegra þykir en ella að rétt niðurstaða fáist í dómsmálið ef fleiri en einn hæfur dómari situr í dómi. Dómarana kann að greina á um beitingu réttarheimildanna og raunar eru mismunandi skoðanir á henni einatt ástæða þess að leitað er með mál til dómstólanna. Það er þá gert í því skyni að fá leyst úr þeim ágreiningi.

    Sé ágreiningur til staðar í fjölskipuðum dómi er skylda dómaranna að ræða hann í þaula til þess að þeir öðlist sjálfir skilning á því hvar hann liggur. Sumir þeirra kunna jafnvel að skipta um skoðun eftir að hafa kynnst viðhorfum hinna.

    En standi ágreiningur um beitingu réttarheimilda eftir, þegar dómararnir hafa rætt málið, ber hverjum og einum þeirra auðvitað að standa með sjálfum sér og fylgja þeirri niðurstöðu sem hann sjálfur telur að leiði af réttarheimildunum. Þá ber þeim, ef þeir eru í minnihluta, að skila sératkvæðum með þeim rökstuðningi sem þeir hafa fyrir niðurstöðu sinni.

    Það getur heldur aldrei orðið markmið dómara í fjölskipuðum dómi að ná samkomulagi við hina um niðurstöðuna, eins og margir starfandi dómarar virðast telja. Það er alvarleg brotalöm í viðhorfum þess dómara sem telur þetta. Hann tekur ekki sæti í fjölskipuðum dómi til að semja við hina um niðurstöðu. Hún á aðeins að ráðast af beitingu réttarheimilda en ekki samningamakki í hópnum, sem m.a. getur leitt til þess að einn í hópnum sem hefur verið auðsveipur í einu máli, á hönk upp í bakið á hinum í því næsta.

    Svo er líka heilagt hlutverk dómstóla að dæma eftir gildandi lögum og öðrum réttarheimildum en ekki að lúta ætluðum vilja almennings, eins og sumir dómarar telja sér skylt að gera, sbr. ummælin sem nefnd voru að framan. Þeim ber einmitt þvert á móti að verja sakaraðila fyrir múghyggju og tryggja að niðurstaða mála ráðist af réttarheimildum en ekki af henni.

    Það er sannarlega ástæða til að hvetja starfandi dómara til að leggja niður fyrir sér hvert hlutverk þeirra er við dómsýsluna, sem sagt að vernda borgara fyrir misbeitingu ríkisvalds og órétti af hálfu annarra. Með því að beita slíkum viðhorfum í reynd munu þeir treysta réttaröryggi borgara í landi okkar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Heilsteyptur maður

    Út er komin bókin „Uppgjör bankamanns“ eftir Lárus Welding.

    Bókin hefur að geyma frásögn höfundar af ótrúlegri aðför sem hann mátti sæta fyrir það eitt að hafa setið í stóli bankastjóra Glitnis banka í 17 mánuði fyrir hrun, frá vormánuðum 2007 til október 2008.

    Það er dagljóst af öllum atvikum að Lárus braut aldrei af sér í störfum sínum sem gaf tilefni til lögsóknar gegn honum. Hann varð hins vegar fórnarlamb múgæsingar sem handhafar ákæru- og dómsvalds tóku þátt í og kyntu jafnvel undir. Þeir virðast hafa haft þörf fyrir að gera almenningi til hæfis og slá þá í leiðinni sjálfa sig til riddara í augum þjóðarinnar. Í þessum tilgangi stóðu þeir fyrir ofsóknum gegn mönnum sem stjórnað höfðu bönkunum, þar með töldum Lárusi, án þess að hlutlæg athugun á verkum þessara manna lægi þar til grundvallar.

    Það hlýtur að teljast áfall fyrir þjóðina að sjá (eftirá) hversu fjarri fyrirsvarsmenn löggæslu í landinu voru því að gegna meginskyldum sínum, sem hljóta að felast í því að meta mál af réttsýni og hlutleysi eins og réttarskipan okkar krefst.

    Bók Lárusar lýsir afar heilsteyptum manni sem tók þessum ofsóknum með ótrúlegu jafnaðargeði og sálarstyrk. Ég dáist að honum. Hann reifar ekki málin fyrr en aðförinni að honum er lokið. Hann lýsir atburðarásinni og aðstoðinni sem verjandi hans Óttar Pálsson lögmaður veitti honum allan tímann. Svo er líka aðdáunarvert að kynnast sambandi Lárusar við eiginkonu sína Ágústu Margréti Ólafsdóttur, sem stóð með honum eins og klettur í gegnum þessa ömurlegu lífsreynslu. Það er ekki ónýtt að eiga slíkan maka sem verður trúnaðarvinur og samherji í þeim glímum sem lífið úthlutar manni.

    Ég vona að þessi hæfileikaríki bankamaður sjái fram á bjartari tíma nú þegar þessi kafli í lífi hans er að baki.

    Hitt snýr svo að okkur hinum að reyna með öllum ráðum að tryggja að handhafar refsivalds í þessu landi láti sér þetta mál, og reyndar önnur af sama toga, að kenningu verða og standi framvegis með hugmyndinni um réttarríki þar sem menn njóta mannréttinda, þótt múgur hrópi á götum úti.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður