Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) hefur á undanförnum misserum komist alloft að þeirri niðurstöðu að Hæstiréttur Íslands hafi með dómum sínum brotið gegn ákvæðum Mannréttindasáttmálans (MSE), einkum 6. gr. hans, þar sem fjallað er um réttláta málsmeðferð fyrir dómi. Í lögum nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu er m.a. sagt í 2. gr. að úrlausnir MDE séu ekki bindandi að íslenskum landsrétti. Allt að einu eru skýr merki um það hér á landi á undanförnum árum í settum lögum og dómsúrlausnum að úrskurðum dómstólsins sé nú gefið meira vægi en gert var með ákvæðum laganna frá 1994. Þannig var með ákvæðum í lögum nr. 47/2020 bætt inn í 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ákvæði um að nýjar upplýsingar geti orðið til þess að leyfa megi endurupptöku sakamáls sem dæmt hefur verið af íslenskum dómstólum. Er tekið fram í athugasemdum með frumvarpinu að þessum lögum, að þetta geti átt við „úrlausnir alþjóðlegra dómstóla“. Má líklega telja að hér sé verið að heimila endurupptöku dæmdra sakamála hér á landi, ef MDE hefur komist að þeirri niðurstöðu að meðferð þeirra hérlendis hafi brotið gegn MSE.
Það gerðist svo nú nýverið að Hæstiréttur vísaði frá sér máli sem rétturinn hafði kveðið upp dóm í áður en lögin um stofnun Landsréttar og Endurupptökudóms tóku gildi. Endurupptökudómur hafði leyft að þetta mál yrði endurupptekið og þá vitaskuld í Hæstarétti enda var talið að ekki væri unnt samkvæmt texta laganna að endurupptaka málið fyrir öðrum dómstóli en þeim sem hafði fjallað um það áður. Undirritaður skrifaði blaðagrein um þetta, sem Morgunblaðið birti mánudaginn 14. nóvember s.l. Þar var talið að þessi frávísun Hæstaréttar stæðist ekki, þar sem hún hefi ekki stoð í settum lögum um Endurupptökudóm. Virtist Hæstiréttur hér taka sér vald sem hann hefur alls ekki.
Nú vaknar spurning um það hvaða ástæður megi telja að hafi ráðið þessari löglausu afgreiðslu Hæstaréttar. Margir lögfræðingar hafa getið sér þess til að Hæstiréttur vilji koma sér undan að dæma í fjölmörgum málum sem fyrirsjáanlega verður óskað eftir að endurupptekin verði fyrir íslenskum dómstólum vegna úrskurða MDE um réttarbrot Hæstaréttar á sakborningum. Þá er beitt því úrræði að hlíta ekki niðurstöðum Endurupptökudóms um endurupptöku málanna, þó að lög kveði skýrt á um að þau skuli endurupptekin fyrir þeim dómi sem dæmdi þau í fyrra skiptið. Þetta er auðvitað ekkert annað en enn eitt dæmið um að Hæstiréttur virði ekki lagareglur sem honum mislíkar og móti aðrar í staðinn. Til þess hefur hann ekki heimild.
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt