nóvember 2022

  • Leitað skýringa á misbeitingu valds

    Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) hefur á undanförnum misserum komist alloft að þeirri niðurstöðu að Hæstiréttur Íslands hafi með dómum sínum brotið gegn ákvæðum Mannréttindasáttmálans (MSE), einkum 6. gr. hans, þar sem fjallað er um réttláta málsmeðferð fyrir dómi. Í lögum nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu er m.a. sagt í 2. gr. að úrlausnir MDE séu ekki bindandi að íslenskum landsrétti. Allt að einu eru skýr merki um það hér á landi á undanförnum árum í settum lögum og dómsúrlausnum að úrskurðum dómstólsins sé nú gefið meira vægi en gert var með ákvæðum laganna frá 1994. Þannig var með ákvæðum í lögum nr. 47/2020 bætt inn í 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ákvæði um að nýjar upplýsingar geti orðið til þess að leyfa megi endurupptöku sakamáls sem dæmt hefur verið af íslenskum dómstólum. Er tekið fram í athugasemdum með frumvarpinu að þessum lögum, að þetta geti átt við „úrlausnir alþjóðlegra dómstóla“. Má líklega telja að hér sé verið að heimila endurupptöku dæmdra sakamála hér á landi, ef MDE hefur komist að þeirri niðurstöðu að meðferð þeirra hérlendis hafi brotið gegn MSE.

    Það gerðist svo nú nýverið að Hæstiréttur vísaði frá sér máli sem rétturinn hafði kveðið upp dóm í áður en lögin um stofnun Landsréttar og Endurupptökudóms tóku gildi. Endurupptökudómur hafði leyft að þetta mál yrði endurupptekið og þá vitaskuld í Hæstarétti enda var talið að ekki væri unnt samkvæmt texta laganna að endurupptaka málið fyrir öðrum dómstóli en þeim sem hafði fjallað um það áður. Undirritaður skrifaði blaðagrein um þetta, sem Morgunblaðið birti mánudaginn 14. nóvember s.l. Þar var talið að þessi frávísun Hæstaréttar stæðist ekki, þar sem hún hefi ekki stoð í settum lögum um Endurupptökudóm. Virtist Hæstiréttur hér taka sér vald sem hann hefur alls ekki.

    Nú vaknar spurning um það hvaða ástæður megi telja að hafi ráðið þessari löglausu afgreiðslu Hæstaréttar. Margir lögfræðingar hafa getið sér þess til að Hæstiréttur vilji koma sér undan að dæma í fjölmörgum málum sem fyrirsjáanlega verður óskað eftir að endurupptekin verði fyrir íslenskum dómstólum vegna úrskurða MDE um réttarbrot Hæstaréttar á sakborningum. Þá er beitt því úrræði að hlíta ekki niðurstöðum Endurupptökudóms um endurupptöku málanna, þó að lög kveði skýrt á um að þau skuli endurupptekin fyrir þeim dómi sem dæmdi þau í fyrra skiptið. Þetta er auðvitað ekkert annað en enn eitt dæmið um að Hæstiréttur virði ekki lagareglur sem honum mislíkar og móti aðrar í staðinn. Til þess hefur hann ekki heimild.

    Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt

  • Lögfræði í dulargervi

    Í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála með síðari breytingum (SL) er kveðið á um Endurupptökudóm og m.a. sagt í 2. mgr. 231. gr. að úrlausnir dómsins séu endanlegar og verði ekki skotið til annars dóms.

    30. desember 2021 féllst Endurupptökudómur á beiðni manns um endurupptöku á máli hans en hann hafði verið sakfelldur fyrir refsivert brot í Hæstarétti 13. október 2013. Er kveðið á um það í úrlausn Endurupptökudóms að leyfð sé endurupptaka á þessum dómi Hæstaréttar.

    Þegar Hæstaréttardómurinn var kveðinn upp yfir manninum á árinu 2013 hafði Landsréttur ekki verið stofnaður.

    Hæstiréttur afgreiddi málið 5. október 2022 með þeim hætti að vísa því frá réttinum þar sem talið var að réttinum væri óheimilt að taka munnlegar skýrslur eftir að lög sem komu Landsrétti á fót höfðu tekið gildi, en þá hafði verið felld úr gildi sérstaklega orðuð heimild til að munnleg sönnunarfærsla mætti fara fram fyrir Hæstarétti. Tekið skal fram að slík sönnunarfærsla var samt ekki bönnuð.

    Í forsendum þessa dóms Hæstaréttar kemur fram að Endurupptökudómur hefði ekki túlkað 1. mgr. 232. gr. SL réttilega og segir m.a. svo í forsendunum: „Bar Endurupptökudómi því að réttu lagi, miðað við þær ástæður sem dómurinn lagði til grundvallar endurupptöku málsins, að nýta þá heimild sem hann hefur eftir síðari málslið 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 til að ákveða að vísa því til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Landsrétti.“

    Í nefndri 1. mgr. 232. gr. SL er að finna svofellt ákvæði:

    „Endurupptökudómur getur leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Landsrétti eða Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 228. gr. Þó getur dómurinn ákveðið að sömu skilyrðum uppfylltum að máli sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði vísað til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Landsrétti.“

    Það er augljóst skilyrði fyrir því að dómstóll taki mál fyrir „að nýju“ að málið hafi einhvern tíma áður verið þar til meðferðar. Þegar dómurinn, sem óskað var endurupptöku á, var kveðinn upp á árinu 2013 hafði Landsréttur ekki verið stofnaður. Komið hefur fram í nýrri ákvörðun Endurupptökudóms að því hafi ekki verið unnt að taka málið upp fyrir Landsrétti, þar sem það hafi aldrei verið þar til meðferðar. Væri því ekki um það að ræða að taka mætti málið fyrir þar „að nýju“, eins og kveðið væri á um í heimildinni í SL.

    Eftir þessar sviptingar hefur lögfræðinga greint á um réttarstöðuna að því er varðar heimild Endurupptökudóms til að leyfa „endurupptöku“ fyrir Landsrétti á málum sem aldrei hafði verið fjallað um þar fyrir rétti, þar sem hann hafði ekki verið stofnaður þegar dómur var felldur á málið.

    Í upphafi þessa greinarkorns er vísað til þess ákvæðis SL sem kveður á um að úrlausnir Endurupptökudóms séu endanlegar og verði ekki skotið til annars dóms. Með dómi sínum 5. október s.l. er ljóst að Hæstiréttur virðir ekki þessa skýru lagareglu. Öllum ætti að vera ljóst að Hæstiréttur er í öllum störfum sínum bundinn af lagafyrirmælum um valdmörk og verksvið dómstóla, þ.m.t. að því er hans eigin heimildir varðar. Öll starfsemi réttarins lýtur þannig fyrirmælum settra laga. Frávísunin 5. október felur með augljósum hætti efnislega í sér endurskoðun á ákvörðun Endurupptökudóms frá 30. desember 2021, þó að reynt sé að dulbúa þetta með því að vísa málinu frá Hæstarétti. Frávísunin fer því beinlínis gegn skýru lagaákvæði um valdmörk þeirra dómstóla sem í hlut eiga.

    Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt

  • Einfalt og fagurt

    „Það ætti að vera sameiginlegt verkefni þjóðarinnar að nýta þau lífsgæði sem hún er svo heppin að njóta í okkar gjöfula landi.

    Verðmætustu auðlindir okkar eru líklega tvær. Við ráðum yfir kostum til að framleiða raforku í miklum mæli úr „náttúruvænum“ auðlindum, vatnsorku fallvatnanna og jarðhita úr iðrum jarðar, auk orkunnar úr vindinum sem fram að þessu hefur verið okkur til skapraunar. Síðan vitum við öll að auðlindir sjávar eru undirstaða undir velferð og auðlegð þjóðarinnar.

    Það blasir við að möguleikar okkar til að viðhalda og bæta lífsgæði þjóðarinnar liggja á þessum sviðum. Samt erum við látlaust útsett fyrir ofstækisfullri baráttu samborgara okkar gegn því að nýta þessa stórkostlegu möguleika þjóðinni til framdráttar.

    Fyrir liggur að stjórnkerfi fiskveiða hér á landi hefur náð meiri árangri í nýtingu fiskistofna en nokkur önnur þjóð hefur náð á því sviði. Samt er höfð uppi í landinu barátta fyrir að skera þetta kerfi niður við trog og útdeila veiðiheimildum til borgaranna þannig að „réttlæti“ náist í dreifingu þeirra. Allir viti bornir menn ættu að skilja að þetta væri vísasta leiðin til að brjóta niður auðlindina og skerða verulega arðinn sem þjóðin hefur nú af nýtingu hennar. Fari svo er ljóst að hagur borgaranna af þessari nýtingu mun rýrna en ekki aukast.

    Svo eigum við að setja allan þann kraft sem við höfum yfir að ráða í að nýta betur þá náttúruvænu orkugjafa sem við eigum. Við ættum að virkja svo mikið sem mögulegt er og bjóða orkusveltum heimi viðskipti um kaup á orkunni um sæstrengi til þeirra. Þar sem virkjanir hafa verið reistar í landi okkar má segja að umgengni við umhverfið hafi verið til fyrirmyndar. Það þarf ekki annað en að kynna sér frágang á virkjanamannvirkjum Landsvirkjunar til að sjá þetta. Það er því hreinasta bábilja að ekki megi virkja af ástæðum sem varða vernd náttúrunnar. Þessu halda stjórnmálamenn fram sem m.a.s. hafa fengið þjóðfélagsleg völd í hendur en sýnast helst vilja hindra vöxt og viðgang þjóðarinnar.

    Hvernig væri að hugsandi stjórnmálamenn og jafnvel flokkar tækju upp öfluga baráttu fyrir hagsmunum þjóðarinnar á þessum þýðingarmiklu sviðum?

    Einfalt og fagurt, ekki satt?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður