Við breytingarnar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar 1995 var í 65. gr. lögfest almenn jafnréttisregla svo sem sjálfsagt var. Fram að því hafði verið talið að slík regla gilti þó að ekki væri sérstaklega kveðið á um hana í stjórnarská.
Ákvæðið hljóðar svo:
Þrátt fyrir þetta ákvæði í 2. mgr. um jafnan rétt karla og kvenna má í settum lögum finna ákvæði sem beinlínis ráðgera að kynferði skuli skipta máli þegar til dæmis er ráðið í stöður þar sem ekki skiptir máli starfans vegna af hvoru kyninu starfsmaður er. Slík ákvæði má m.a. finna í lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, sjá t.d. ákvæði í 4. gr. um ráðningu í starf og eftir atvikum önnur ákvæði í II. kafla laganna. Einnig eru vel þekkt dæmi um að ráðherra hafi beinlínis gefið yfirlýsingar eftir veitingu starfs um að valið hafi verið milli umsækjenda um starf á grundvelli kynferðis. Er þá gjarnan vísað til þess að jafna þurfi hlutfall milli kynjanna í viðkomandi starfshópi. Það er eins og sá sem veitir starf viti ekki að mannréttindin eru bundin við einstaklinga en ekki hópa. Það er þannig ekki unnt að taka karlmann fram yfir konu við ráðningu í starf á þeim grundvelli að fleiri konur en karlar séu fyrir í viðkomandi starfsstétt.
Kannski er starf dómara við Hæstarétt dæmigert fyrir það tilvik að kynferði dómara skiptir ekki máli. Ef 7 hæfustu umsækjendur eru allir konur, ætti Hæstiréttur að vera skipaður 7 konum. Jafnréttisreglan í stjórnarskránni leyfir ekkert annað. Allt að einu var sagt skýrum stöfum að ákvörðun ráðherra um skipun tveggja kvenna síðla árs 2020 væri grundvölluð á því að jafna þyrfti hlutföll kynjanna í réttinum. Allir sem til þekktu vissu að a.m.k. einn umsækjandi af karlkyni stóð þessum annars ágætu konum framar að hæfni þó að allir umsækjendur væru metnir jafnhæfir. Skýringar ráðherrans á ákvörðun sinni segja alla söguna um forsendurnar sem réðu:
Hér var ekki verið að beita jafnréttisreglu heldur misréttisreglu, því ljóst var af orðum ráðherrans að kynferði umsækjenda hafði ráðið ákvörðuninni.
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt