maí 2022

  • Tvískinnungur

    Við lagasetningu um útlendinga var samstaða í þinginu um að láta stjórnsýslustofnanir fjalla um óskir um landvist hér en ekki ráðherra. Ein af ástæðum fyrir þessu var sú að ekki þótti heppilegt að ákvarðanir um þetta væru í höndum pólitískra ráðherra. Þær væru betur komnar í höndum hlutlausra aðila sem létu afstöðu til stjórnmála ekki villa sér sýn.

    Í árásum á dómsmálaráðherra nú hefur því m.a. heyrst fleygt að hann hafi vald til að setja nýjar reglugerðir á grundvelli heimilda í lögunum, sem myndu leysa mál þeirra sem nú á að senda úr landi. M.a. heyrði ég ummæli lögmanns fólksins í þessa átt.

    Þetta er undarlegur málflutningur. Er verið að óska eftir að ráðherra setji sérstaka reglugerð fyrir þennan afmarkaða hóp? Allir ættu að sjá að það er ekki unnt að gera. Reglugerðir verða að vera almenns eðlis en mega ekki beinast sérstaklega að hagsmunum tiltekinna manna sem vilja fá aðra afgreiðslu mála en aðrir hafa fengið.

    Allt ber þetta að sama brunni. Dómsmálaráðherra hefur ekki vald til að taka yfir ákvarðanir um mál þessa fólks, nema breytt lög komi til. Heimild til að leggja fram lagafrumvörp er í höndum alþingismanna, meðal annarra þeirra sem hæst láta um þessar mundir.

    Er það ekki dálítið dæmigert að sumir stjórnmálamenn séu fyrst, meðan fjallað er almennt um skipan þessara mála, sammála um að ráðherra skuli ekki hafa þetta vald í höndum, en ráðast síðan á hann við fyrsta tækifæri fyrir að beita ekki því valdi sem hann hefur ekki?

    Eru þeir stjórnmálamenn trúverðugir sem haga sér svona? Svari nú hver fyrir sig.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Krafa um geðþóttavald

    Lög um útlendinga eru frá árinu 2016. Þar er kveðið á um málsmeðferð þegar útlendingar óska eftir að fá vist á Íslandi. Svo er að sjá sem afgreiðsla mála hafi frestast vegna farsóttarinnar, sem gengið hefur yfir síðastliðin tvö ár. Nú er sá tími liðinn og eðlilegt ástand þessara mála hefur komist á.

    Samkvæmt lögunum afgreiða sérstakar stjórnsýslustofnanir beiðnir útlendinga um landvist og búsetu hér. Þar fer kærunefnd útlendingamála með vald á áfrýjunarstigi. Henni ber auðvitað að starfa eftir íslenskum lögum. Nú hefur hún synjað allmörgum útlendingum um leyfi til að setjast hér að.

    Þá er eins og stór hluti þjóðarinnar fari á límingunum. Ráðist er á dómsmálaráðherrann sem ekki hefur tekið þessar umdeildu ákvarðanir, heldur kveðst aðeins vilja fara að lögum landsins og framfylgja þeim ákvörðunum sem rétt stjórnvöld hafa tekið. Hann sætir nú hreinum ofsóknum. Þar ganga m.a. fast fram alþingismenn, sem sumir hverjir tóku þátt í lagasetningunni. Biskup Íslands og a.m.k. einn hempuklæddur orðafeykir taka þátt í árásununum.

    Krafan virðist vera sú að því aðeins beri að fara eftir lögum að mönnum líki efni þeirra í einstökum málum. Grunnreglum, t.d. um þrískiptingu ríkisvaldsins, skal vikið til hliðar fyrir geðþóttann. Alþingismenn ættu að hrósa ráðherra fyrir að virða lögin í stjórnsýslu sinni. Þeir geta svo á vettvangi löggjafans, ef þeir vilja, flutt frumvörp um breytingar á lögunum sem ráðherra hefur heitið að fara eftir.

    Það er stundum átakanlegt að fylgjast með menningarstiginu sem birtist í almennum umræðum á Íslandi um málefni þjóðfélagsins.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hagsmunir allra

    Ég starfaði sem dómari við Hæstarétt í átta ár, 2004-2012. Áður en ég tók til þessara starfa hafði ég séð til verka réttarins ýmislegt sem ég var ekki sáttur við. Ég hafði lýst þessu í ræðu og riti, þegar ég tók þá ákvörðun að sækja um dómarastarf fyrst og fremst í því skyni að kanna hvort mér yrði eitthvað ágengt við að bæta úr því sem ég taldi aðallega að hefði farið aflaga. Ég var skipaður til starfans, þó að sitjandi dómarar við réttinn hefðu reynt hvað þeir gátu til að hindra skipun mína. Þeim athöfnum lýsti ég í bók minni „Í krafti sannfæringar“, sem kom út á árinu 2014. Sú saga þolir varla birtingu, svo ósæmileg sem hún var, sérstaklega þar sem æðsti dómstóll þjóðarinnar átti í hlut.

    Eftir að hafa starfað í réttinum þennan tíma varð mér betur ljóst en áður hvar

    skórinn kreppti. Ég lét því ekki bara við það sitja að segja deili á dómaraverkum sem ég taldi ekki standast, heldur setti ég fram tillögur um hverju mætti breyta í lögum um Hæstarétt til að stuðla að vandaðri vinnubrögðum réttarins og gagnsæi við starfsemina. Ég gaf út ritgerðina „Veikburða Hæstiréttur“ á árinu 2013, þar sem gerð var ítarleg grein fyrir hugmyndum mínum um lagabreytingar í þessu skyni og rökstuðningi fyrir þeim. Segja má að meginstefið í tillögum mínum hafi verið gagnsæi, bæði við skipun nýrra dómara og einnig við ritun atkvæðanna í fjölskipuðum dóminum. Ég taldi þá m.a. að afnema þyrfti áhrif sitjandi dómara og vinahóps þeirra á skipun dómara og svo ættu dómarar að skila skriflegum atkvæðum þar sem gerð yrði grein fyrir lögfræðilegum rökstuðningi þeirra hvers og eins í stað þess að kveða upp hópdóma, þar sem öll áhersla lægi á því að vera allir sammála í öllum málum.

    Þeir sem tjáðu sig um þessar hugmyndir tóku þeim vel. Menn virtust sjá að tillögurnar lutu aðeins að því að bæta og styrkja starfsemi réttarins. Allt að einu náðu þær ekki fram að ganga að því sinni. Ástæðan var hatrömm andstaða dómaranna við réttinn. Kom þá í ljós hið sama og einatt er ráðandi, þ.e. undirgefni við þá sem telja sig eiga hagsmuna að gæta í þágu sjálfra sín og berjast gegn endurbótunum.

    Mér er kunnugt um að núverandi dómsmálaráðherra Jón Gunnarsson hefur tekið tillögur um endurbætur á dómstólum til athugunar og hugar að breytingum á lögum um dómstóla í því skyni. Ég hvet hann til dáða í því efni og bendi á að allir stjórnmálaflokkar hljóta að vilja styðja lagasetningu sem hefur þau markmið að styrkja starfsemi þeirra þýðingarmiklu stofnana sem dómstólarnir eru og þá ekki síst æðsti dómstóllinn, Hæstiréttur.

  • Þeir fórna trúverðugleika sínum

    Ég hitti alþingismann á förnum vegi á dögunum og tókum við tal saman. Hann er þingmaður flokks sem um þessar mundir er í stjórnarandstöðu. Talið barst að störfum þingsins. Hann sagði mér að forysta flokks síns ætlaðist til þess að hann tæki þátt í andófi við ríkisstjórninni, hvert sem málefnið væri og hvaða skoðun hann kynni að hafa á því. Hann sagði mér að flokksfélagar hans leituðust við að vinna svona. Þeir settu á langar ræður, sem ekki þjónuðu neinum öðrum tilgangi en þeim að andæfa ríkisstjórninni. Þetta gerðist m.a. í málum sem þeir væru hlynntir en teldu skyldu sína að mótmæla og tefja fyrir vegna þess að þeir væru í stjórnarandstöðu.

    Þetta eru slæm tíðindi. Sést hefur að vísu málþóf í þinginu sem engum tilgangi virðist þjóna. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem ég heyri vitnisburð um að forysta stjórnarandstöðuflokka ætlist til þess að þingmenn þeirra viðhafi framferði af þessu tagi. Viðmælandi minn kvaðst að vísu ekki taka þátt í þessu sjálfur en félagar hans í þingflokknum gerðu það í stórum stíl. Stundum stæðu þingfundir miklu lengur en þörf væri á vegna þess að málþófsmenn misnotuðu málfrelsi sitt á þennan hátt.

    Þeir þingmenn sem taka þátt í svona framferði ættu að skilja að þeir skaða trúverðugleika sinn með því. Það er eins og þeir haldi að almenningur sem fylgist með sé sauðheimskur og sjái ekki í gegnum ruglið. Það er mikill misskilningur. Það er ekki ólíklegt að fólkið í landinu missi trúna á heiðarleika þingmanna sem haga sér svona og taki síður mark á þeim þegar þeir segja eitthvað sem þeim sjálfum finnst skipta raunverulegu máli.

    Ég ráðlegg þeim því að láta af þessum vinnubrögðum. Það er ekkert athugavert við að fallast á réttmæti þingmáls sem maður er hlynntur, þó að þingmaður eða ráðherra úr öðrum flokki flytji það. Með því hækka þeir bara í áliti en lækka ekki, eins og þeir virðast telja.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður