febrúar 2022

  • Við hornið á heygarðinum

    Jónas Haraldsson lögfræðingur sendir mér kveðju í Morgunblaðinu í gær, mánudag. Tekur hann mig á beinið fyrir að „niðra einstaka dómara Hæstaréttar“ um langa hríð á opinberum vettvangi. Kallar hann grein sína „Við sama heygarðshornið“. Við erum þá báðir staddir þar núna.

    Ekki felst í grein Jónasar nein viðhlítandi athugun á skrifum mínum undanfarin ár um meðferð dómsvaldsins í landinu, en vissulega er það rétt hjá honum að skrifin hafa verið gagnrýnin, enda tel ég afar þýðingarmikið að meðferð þess sé vönduð og þar láti menn ekki persónuleg sjónarmið eða hagsmuni villa sig af leið. Hef ég jafnan talið mig færa nákvæm rök fyrir gagnrýni minni og um leið hvatt menn til að svara hafi þeir fram að færa röksemdir fyrir andstæðum sjónarmiðum. Ég mótmæli hins vegar ásökunum Jónasar um að ég hafi sýnt af mér sjálfbirgingshátt og hroka. Ég er samt ekki hlutlaus dómari í þeirri sök.

    Jónas nefnir tvö dæmi máli sínu til stuðnings. Þar er annars vegar grein mín 10. febrúar s.l. „Minna en hálf sagan sögð“, þar sem fjallað var af gefnu tilefni um afmælisrit Hæstaréttar, sem út kom á dögunum. Í grein minni var vikið að framferði sitjandi dómara við Hæstarétt á árinu 2004, þegar þeir reyndu að hindra skipun mína í dómaraembætti við réttinn. Um þetta lét ég nægja að vísa til ítarlegrar frásagnar í bók minni „Í krafti sannfæringar“, sem út kom á árinu 2014, bls. 267-289.

    Mér er nær að halda að Jónas hafi ekki lesið það sem þar stendur, því það fær varla staðist að hann vilji verja það framferði sem þar er lýst. Nokkur orð um það.

    Á þessum árum stóð svo á að Hæstiréttur sjálfur veitti umsagnir um þá sem sóttu um embætti við dóminn. Ráðherra skipaði síðan einn þeirra. Þegar sagt var frá því í fjölmiðlum sumarið 2004 að ég hygðist sækja um embætti urðu allnokkrar umræður um þetta. Þá gerðist það að einn af sitjandi dómurum við réttinn, sem verið hafði kunningi minn um langan tíma, kom til viðtals við mig á skrifstofu mína og tjáði mér að meiri hluti dómaranna við réttinn (8 af 9) hygðist skaða mig með umsögn sinni, þó að margir þeirra hefðu áður hvatt mig til að sækja um embætti. Nú væri málum svo komið að þeir vildu ekki fá mig sem samstarfsmann sinn og réði því persónulega afstaða þeirra til mín. Þetta var auðvitað ekkert annað en ódulbúin hótun um að rétturinn hygðist misbeita valdi sínu í annarlegum tilgangi. Ég hváði við þessu, en þá endurtók maðurinn þessa hótun.

    Þegar ég sótti svo um stóðu þessir heiðursmenn við hótun sína og skrifuðu mjög hlutdræga umsögn um mig. Þessu lýsi ég í bók minni og þá m.a. skrif mín um þessa umsögn þeirra sem ég birti þó ekki opinberlega, en afhenti þeim sjálfum. Í afmælisriti Hæstaréttar, sem út kom um daginn, var hins vegar talið að skipun mín í embætti hefði verið af pólitískum toga og var þar ekki minnst á augljós lögbrot sem meiri hluti dómaranna drýgði með framferði sínu, þó að frásögn um þau lægi fyrir á prenti. Þegar Jónas lögfræðingur tekur að sér að verja þetta framferði, er ég næstum viss um að hann hefur ekki lesið bók mína, því ég trúi því að hann vilji ekki skrifa upp á svona framferði, þó að honum kunni að liggja á með að halla orðinu á mig.

    Hitt dæmi Jónasar er um grein sem ég birti í maí 2021. Fjallaði hún um úrsögn sómamannsins Arnars Þórs Jónssonar úr Dómarafélag Íslands, þar sem fram hafði komið gagnrýni á hann á félagsfundi fyrir að hafa tjáð sig um þjóðfélagsmál, auk þess sem hann hafði andmælt undarlegum ákvæðum í siðareglum félagsins. Nefndi ég í grein minni að dómarar vildu sýnilega ekki að félagsmenn tjáðu sig opinberlega um þjóðfélagsmál, þar sem slíkt gæti valdið vanhæfi þeirra við dómarastörfin. Ég gagnrýndi þetta viðhorf og nefndi þá m.a. að ýmsir dómarar höfðu orðið uppvísir að því að sitja sem dómarar í málum, þar sem fjallað var um beina hagsmuni þeirra sjálfra. Ýmsir þeirra hefðu t.d. dæmt í sakamálum gegn fyrirsvarsmönnum bankanna fyrir að hafa valdið viðskiptamönnum þeirra miklu fjártjóni í störfum sínum. Síðar komu fram á opinberum vettvangi upplýsingar um að þessir sömu dómarar hefðu tapað háum fjárhæðum við hrun bankanna. Þetta vissi hins vegar enginn, þegar þeir kváðu upp dóma sína. Þeir virtust telja vanhæfið í lagi ef enginn vissi um það. Kannski Jónas lögfræðingur telji þetta framferði teljast til vandaðrar dómsýslu. Svo mætti núna skilja árásir hans á mig fyrir að hafa skrifað blaðagrein, þar sem á þetta var bent. Samviska Arnars Þórs sýndist mér vera drifhvít við hliðina á „öðrum samviskum“ svo notað sé málfar yngri kynslóðarinnar um þessar mundir.

    Ég virði það alveg við Jónas Haraldsson að hafa ama af mér. Það hafa margir aðrir menn haft á undan honum. Sjálfum finnst mér það vera vegna þess að ég hef talað um hluti sem aðrir þegja um. Ef Jónas legði á sig að kynna sér efni gagnrýni minnar, held ég að hann myndi taka undir hana, þó að slíkt væri ekki til vinsælda fallið hjá aðlinum í dómskerfinu. Ég tel Jónas nefnilega heiðarlegan mann, þó að ég telji að hann mætti kannski leggja meira á sig í þágu sjálfs sín.

    Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands

  • Minna en hálf sagan sögð

    Nýlega kom út bókin „Hæstiréttur Íslands í hundrað ár“. Fram kemur í formála bókarinnar að rétturinn standi sjálfur fyrir þessari útgáfu. Sagnfræðingurinn Arnþór Gunnarsson var fenginn til að skrifa bókina en yfir honum sat ritnefnd sem Hæstiréttur skipaði. Í henni áttu m.a. sæti fyrrverandi dómarar við réttinn.

    Í nýjustu útgáfu netmiðilsins Stundarinnar er að finna grein um hluta af efni þessarar bókar. Þar er einkum fjallað um það sem í bókinni segir um skipan tveggja dómara að réttinum á árunum 2003 og 2004. Þeir eru Ólafur Börkur Þorvaldsson, sem ennþá er starfandi, og undirritaður, Jón Steinar Gunnlaugsson, sem var skipaður á árinu 2004 en lét af störfum 2012.

    Meginefni þessarar umfjöllunar er að halda því fram að þessir tveir dómarar hafi verið skipaðir á pólitískum forsendum og ekki verðskuldað starfið. Er m.a. reynt að gera lítið úr þekkingu þeirra á lögfræði. Þetta skaðar mig svo sem ekki mikið því ég hef sjálfur gefið út allmargar bækur sem eru vitnisburður um hvað ég kann fyrir mér í fræðunum. Er mér kunnugt um að flestir þeir sem hafa áhuga á lögfræðinni og beitingu hennar við réttinn hafa kynnt sér efni bóka minna og kvarta ég ekki yfir ummælum þeirra um efni skrifa minna. Slíkt hið sama á ekki við um Ólaf Börk. Ég hef hins vegar látið uppi þá skoðun mína, að hann standi líklega öllum öðrum dómurum, sem nú starfa við réttinn, framar í lögfræðilegum efnum. Kannski það eigi eftir að skýrast betur í framtíðinni, þegar hann verður laus undan þeim hömlum á tjáningu sem setan í dómaraembætti leggur á menn.

    Það er óvenjulegt í svona afmælisriti að taka fyrir einstaka menn sem starfað hafa við stofnunina sem um er fjallað og halla á þá orðinu með þeim hætti sem Stundin greinir frá. Mikið hefur blessuðum mönnunum legið á og þá líklega helst þeim sem nú, furðulegt nokk, gegnir embætti forseta réttarins. Þessu ræður rökstudd og efnismikil gagnrýni mín á störf réttarins í fortíðinni, m.a. störf hans. Mér er kunnugt um að forsetinn og sumir hinna kveinka sér undan gagnrýni minni, þó að þeir hafi ekki treyst sér til að svara henni. Mér finnist að þeir hefðu átt að vera menn til að standa beint og milliliðalaust að tjáningu sinni um það. Þeir hafa ekki treyst sér til þess en fengið í staðinn sakleysingja úr röðum sagnfræðinga til að tala fyrir sína hönd og látið réttinn borga kostnaðinn um leið og þeir komu sér upp fyrirkomulagi til að stjórna skrifum hans. Þetta er hins vegar undarlegra þegar sómamaðurinn Ólafur Börkur á í hlut. Hann er nú á 61. aldursári og hefur starfað sem dómari við réttinn í nær 20 ár. Skemmst er frá því að segja að hann hefur sýnt afburðahæfni til þessa starfs og á flekklausan feril allan þennan tíma. Oft kann málum að vera svo háttað að þeir sem minna mega sín á viðkomandi sviði veitast að þeim sem standa þeim framar. Kannski það sé reyndin hér.

    Hitt er svo rétt að við skipun mína á árinu 2004 var svo sannarlega brotið gegn lögum. Fólst það í ólögmætum ráðstöfunum dómara, sem þá sátu í réttinum, til að reyna að hindra skipun mína. Var það sýnilega vegna gagnrýni minnar sem þeir höfðu ekki treyst sér til að svara. Líklega hefur háttsemi sumra þeirra þá hreinlega verið refsiverð, þó að ég hafi á sínum tíma ákveðið að fylgja því máli ekki eftir. Ég segi frá þessari atburðarás í bók minni „Í krafti sannfæringar“, sem út kom á árinu 2014 og vísast þar til 14. kafla bókarinnar á bls. 267-289. Þar geta menn lesið reyfarakennda frásögn af háttsemi nafngreindra manna úr dómaraaðlinum, sem aldrei hafa þurft að bera neina ábyrgð á henni. Þar á meðal voru nokkrir sem áður höfðu beinlínis óskað eftir að ég sækti um embætti en ég ekki viljað á þeim tíma. Man ég vel eftir því, þegar áhrifamesti dómarinn á þessum árum, Markús Sigurbjörnsson, spurði mig með hvíslandi rödd sinni í símtali, hvort hann mætti ekki skrifa fyrir mig umsókn um embætti við réttinn. Síðar hefur hann velt sér á hina hliðina í bæli sínu og fer ég í bók minni yfir atvik sem sýnilega hafa ráðið því.

    Þeir sem nú ráða réttinum munu ekki ríða feitum hesti af framferði sínu við að segja sögu af þeim atburðum sem hér er fjallað um. Ég minni þá samt á orðatiltækið um að batnandi mönnum sé best að lifa, og óska að þeim takist að bæta ráð sitt svo verða megi réttinum til framdráttar og virðingar meðan þeir gegna ennþá embættum sínum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt