janúar 2022

  • Fyrirmynd

    Nú liggur fyrir að Ísland náði ekki að tryggja sér rétt til að leika í fjögurra liða úrslitum í Evrópumótinu í handknattleik, þó að nærri hafi legið. Allt að einu er ljóst að íslenska liðið stóð sig með afbrigðum vel og aflaði sér virðingar annarra þjóða sem þátt tóku í mótinu og reyndar allra þeirra sem fylgdust með framvindu mála.

    Við erum stolt af leikmönnum okkar, sem voru sjálfum sér og þjóð sinni til sóma. Einn er samt sá maður sem við ættum að hrósa og þakka öðrum framar. Þar á ég við Guðmund Guðmundsson þjálfara. Hann sýndi og sannaði að þar fer einn besti handboltaþjálfari heims. Þó að liðið okkar hreppti mikinn mótbyr vegna einangrunar leikmanna lét hann það ekki á sig fá. Hann tefldi fram þeim leikmönnum sem voru til reiðu hverju sinni og náði að draga fram styrkleika liðsins sem enginn hefði trúað fyrirfram að unnt væri við þessar aðstæður.

    Hugmyndafræðin sem hann vinnur eftir fór ekki framhjá okkur sem fylgdumst með mótinu á sjónvarpsskjánum. Hann eyðir ekki tíma í atriði sem hann getur ekki haft áhrif á. Hann einbeitir sér að því verkefni sem hann hverju sinni þarf að sinna og fær félaga sína til að vinna heilshugar að þeim. Honum tekst svo vel upp að árangurinn gengur kraftaverki næstur. Ég held að hann geri leikmenn sína betri en þeir voru áður með eldmóði sínum og einbeitingu að verkefnunum hverju sinni. Í reynd er hann fyrirmynd hverjum þeim sem vill ná árangri í því sem hann tekur sér fyrir hendur hvort sem það er í íþróttum eða á öðrum vettvangi.

    Ég býst við að ég tali fyrir munn íslensku þjóðarinnar þegar ég segi: Þakka þér fyrir Guðmundur. Þú ert frábær íþróttaþjálfari en ekki síður sem fyrirmynd fyrir hvern sem er.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

  • Frelsi í stað valdbeitingar

    Nú hefur legið fyrir um hríð að smit af kórónuveirunni verða nær eingöngu af því afbrigði sem nefnt hefur verið Omicron. Þar með liggur fyrir að vel yfir 99% af þeim sem smitast verða lítt eða ekki veikir. Samt er haldið áfram að skerða frelsi manna í stórum stíl.

    Atvinnufyrirtækjum er lokað og einstaklingum er bannað að fara út úr húsi. Þetta er allt saman fullfrískt fólk sem stjórnvöld segjast beita þessu valdi til að forðast útbreiðslu smits. Beitt er hræðsluáróðri til að halda þessum stjórntökum uppi. Talað er um að „hópsmit“ sé yfirvofandi, án þess að gera grein fyrir hættunni sem af því á að stafa. Það er eins og sumir læknar telji sjálfsagt að beita menn þessu valdi. Þeir viti betur en sauðsvartur almúginn hvað honum er fyrir bestu. Samt eru það gömul og ný sannindi að bestu varðmenn hagsmuna einstaklinga eru þeir sjálfir.

    Eins og bent hefur verið á, er ekki nein þörf á að beita þessum brögðum til að hindra útbreiðslu smitsins. Einfaldlega vegna þess að lítil sem engin áhætta fylgir því að smitast. Kannski er bara best að sem flestir smitist af veirunni sem nú orðið má telja saklausa. Þannig hlýtur svonefnt hjarðónæmi að nást fyrr en ella.

    Múgsefjunin sem stjórnar þessu er ekki bara ráðandi hér á landi. Við sjáum að á Evrópumótinu í handbolta er leikmönnum, sem hafa smitast, skipað að halda sig inni á hóteli og bannað að taka þátt í kappleikjunum, þó að þeir séu fullfrískir. Má segja að mótið hafi verið eyðilagt með þessum furðulegu háttum. Höfum við Íslendingar ekki farið varhluta af þessu.

    Hér er alltof miklu fórnað fyrir lítið. Persónulegt frelsi með ábyrgð telst til þeirra lífshátta sem við viljum viðhafa. Látum ekki einsýna lækna villa okkur sýn. Kannski eru þeir bara að búa til stöðu sem þeir telja að þrýsti á um hærri framlög úr ríkissjóði (les: frá skattgreiðendum) til Landspítalans? Hlustum frekar á þá virðingarverðu starfsbræður þeirra sem vilja ekki taka þátt í þessu ofríki og mæla með afléttingu valdbeitingarinnar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson styður frelsi einstaklinga

  • Ofríki án tilefnis

    Hafa menn áttað sig á hvers konar ástandi hefur verið komið á hér á landi um þessar mundir?

    Stjórnvöld í landinu reyna að hefta útbreiðslu veiru með því að fyrirskipa mönnum að fara í svokallaða sóttkví eða einangrun og er þá ekki skilyrði að viðkomandi maður beri í sér veiruna; nóg er að hann hafi hitt einhvern sem gerir það.

    Fyrir liggur að veiran sem um ræðir veldur ekki veikindum, eða svo litlum og hjá svo fáum að engu máli skiptir.

    En sóttvarnarlæknir tekur ákvarðanir um þetta og stjórnmálamennirnir sem við höfum kosið yfir okkur þora ekki annað en að hlýða.

    Engu máli skiptir við þessar tilgangslausu ákvarðanir að fjöldi manna verður fyrir alvarlegu tjóni vegna þeirra. Þar eru drykkjuskapur, heimilisofbeldi, sjálfsvíg og gjaldþrot ofarlega á blaði.

    Og ef þú hlýðir ekki þessum fyrirmælum stjórnvaldanna verður þú sektaður.

    Jón Steinar Gunnlaugsson er andvígur ofríki valdamanna