desember 2021

  • Hverjir eru hagsmunir þeirra?

    Þegar mönnum er gert að taka ákvarðanir, sem geta varðað öryggi annarra manna, jafnvel alls almennings, hafa þeir ríka tilhneigingu til að ganga lengra en skynsamleg rök mæla fyrir um að sé nauðsynlegt. Á ensku máli er spurt: „What´s in it for them?“ sem á íslensku getur útlagst „hverjir eru hagsmunir þeirra sjálfra?“.

    Stjórnvöld sem taka ákvarðanir um frelsisskerðingar almennings vegna ótta við veiruna hafa þannig tilhneigingu til að ganga alls ekki skemur en sérfræðingarnir ráðleggja. Gangi þeir skemur finnst þeim þeir taka áhættu á að fá á sig gagnrýni, jafnvel embættismissi fyrir að hafa ekki farið eftir ráðum sérfræðinganna, sérstaklega ef framvindan verður verri en útlit var fyrir.

    Sama er að segja um sérfræðingana. Þeir vilja ekki láta gagnrýna sig eftirá fyrir að hafa ekki gengið nógu langt í ráðgjöf sinni um aðgerðir.

    Þessar aðstæður fela það þess vegna í sér, að til staðar er eins konar sjálfvirkni sem veldur því að jafnan er gengið lengra í ráðstöfunum, þ.m.t. skerðingum frelsis manna, en þörf er á.

    Stjórnvöld þurfa að átta sig vel á þessu og reyna svo að axla þá ábyrgð sem felst í því að taka ákvarðanir sem ganga ekki lengra gegn frelsi og daglegu lífi borgaranna en brýna nauðsyn ber til. Embættisskyldur þeirra gera kröfu til þess að svona sé farið að við þessar ákvarðanir. Hugsanleg hætta á gagnrýni eftirá og jafnvel embættismissi er hégómi við hliðina á þessari skyldu.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hættið þessu

    Ráðstafanir íslenskra stjórnvalda í tilefni af covid-veirunni hafa nú gengið úr öllu hófi. Langflestir Íslendingar hafa látið sprauta sig og langflestir með þremur sprautum. Yfirgnæfandi meirihluti manna er kominn í skjól á þann hátt að jafnvel þeim sem hafa smitast af veirunni stafar ekki hætta af henni. Meira en 95% þeirra fá engin eða bara smávægileg einkenni. Þeir sem eftir standa veikjast lítillega en nær enginn alvarlega. Morgunblaðið birti aðgengilegar upplýsingar um þetta 23. desember s.l. (bls. 6).

    Þrátt fyrir þessar staðreyndir eru landsmenn, svo furðulegt sem það er, beittir frelsisskerðingum til að hindra að smit berist milli manna. Hafi einstakur maður verið í návist annars, sem ber veiruna með sér er sá fyrrnefndi settur í sóttkví og bannað að umgangast annað fólk um tiltekinn tíma. Hann er mældur fyrir smiti í upphafi og við lok sóttkvíar, sem stendur í 5-14 sólarhringa. Það er því ekki skilyrði fyrir því að verða beittur ofbeldinu að hafa smitast af veirunni. Nóg er að hafa komið nálægt einhverjum sem hefur smitast. Þetta er sagt gert til að hindra útbreiðslu veirunnar. Samt segja yfirvöld að líklega muni um 600 landsmenn smitast á dag. Svo er að skilja að markmið þeirra sé að fækka í þeim hópi, kannski í 4-500?

    Og þá skal spurt: Til hvers? Það liggur nefnilega fyrir að fáir þeirra sem smitast verða veikir og nær enginn, sem hefur nýtt sér þau úrræði sem gefist hafa, að láta sprauta sig. Þar að auki geta þeir sem veikjast að sjálfsögðu leitað til lækna eða heilbrigðisstofnana og skiptir þá engu máli hvort þeir hafi verið sviptir frelsi í aðdragandanum eður ei.

    Þeir sem hafa smitast eru síðan beittir enn meiri þvingunum, settir í svokallaða einangrun um lengri tíma.

    Þessi stjórntök á þjóðinni eru að mínum dómi fyrir neðan allar hellur. Og til að heilaþvo þjóðina er hættan mikluð með orðskrúði og með áskorunum til almennings um að sýna nú samstöðu. Hið sama gerist í öðrum löndum. Þeir sem þessu ráða virðast ekki hafa af því neinar áhyggjur að ráðstafanir þeirra valda miklu tjóni meðal annars hjá stórum hópi manna, sem þurfa að sæta fjöldatakmörkunum á viðskiptavinum og er í ofanálag bannað að halda fyrirtækjum sínum opnum nema afar takmarkaðan tíma á degi hverjum, nema þeim sé þá skipað að loka alveg. Þetta veldur fjárhagslegum þrengingum og jafnvel gjaldþrotum sem leiða til mikilla hörmunga hjá þeim sem í hlut eiga, jafnvel þannig að þeir gefast bara upp. Þá eru teikn á lofti um að áfengissala til heimila hafi vaxið til muna á síðustu tveimur árum, heimilisofbeldi hafi aukist, kvíði hafi orðið útbreiddari hjá viðkvæmu fólki, margir hafi veigrað sér við að leita til læknis vegna ástandsins og aðrir sjúkdómar þannig fengið að grassera ómeðhöndlaðir, svo nokkur dæmi séu tekin. Stjórnvöld hafa ekki enn birt tölur um fjölda þessara fórnarlamba sinna.

    Það er auðvitað furðulegt að beita þvingunum til að forðast smit á sjúkdómi sem er svo til hættur að valda skaða og kallar ekki á önnur úrræði en aðrir sjúkdómar, þ.e. aðstoð lækna. Aðgerðirnar fela auk annars í sér alvarleg frávik frá meginreglunni um frelsi fólks og ábyrgð á sjálfu sér sem verður að teljast grunnregla í samfélagi okkar.

    Svo ég segi bara við þessa valdsæknu stjórnarherra: HÆTTIÐ ÞESSU, og það strax.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Draumsýn verður að veruleika

    Á fyrri hluta síðustu aldar orti Jóhannes úr Kötlum nafntogað kvæði „Sovét Ísland – óskalandið – hvenær kemur þú?“ Hér var á ferðinni ákall eða draumsýn þeirra tíma kommúnista um sæluríkið sem þeir vildu koma á fót.

    Nú vita allir að þetta var í raun ákall um stofnun alræðisríkis, þar sem valdhafar færu með allt þjóðfélagsvald og drottnuðu yfir borgurum. Við þekkjum núna átakanlegar frásagnir af lífi manna og skelfilegum örlögum þeirra í þeim ríkjum sem komu á hinu sovéska stjórnskipulagi. Kvæði Jóhannesar fól í sér ákall um að koma slíku skipulagi á hér á landi. Að vísu verður að ætla að hvorki honum né skoðanabræðrum hans á Íslandi hafi verið ljóst hvers kyns ógnir og mannréttindabrot reyndust óhjákvæmilegir fylgifiskar draumsýnarinnar um sovétið. Það fól samt í sér samsöfnun alls þjóðfélagsvalds í hendur manna sem höfðu náð völdum. Mannkynssagan er uppfull af dæmunum um hvernig alræðisvald í höndum fárra fer með borgara sína.

    Þó að mannkynið eigi að hafa lært af reynslunni eru samt margir, kannski flestir, borgarar á þeirri skoðun að viðspyrna gegn vá, eins og t.d. veiru sem fólk smitast af, felist í því að koma á sovésku skipulagi. Í því felst að heimild borgara til að ráða sér sjálfir er afnumin eða skert og valdið falið handhöfum ríkisvalds í hendur. Sérfræðingar leggja ráðamönnum til hugmyndir um frelsisskerðingar undir þeim formerkjum að verið sé að vernda fólkið. Einkenni sovétsins leyna sér ekki. Þau felast meðal annars í að tjáskipti ríkis og borgara fara aðallega fram í aðra áttina, þ.e. frá ríkinu og til borgara, sem oft eiga engan kost á að fá svör við spurningum um réttlætingu þessarar valdbeitingar gagnvart þeim sjálfum.

    Ætla verður að þessi ráð séu vanmáttug. Besta vörnin felst áreiðanlega í að bjóða fram lyf og bóluefni sem hver og einn borgari á kost á að fá, en gera síðan í meginatriðum ráð fyrir að hver og einn passi upp á sjálfan sig. Það er að minnsta kosti allt of mikið í húfi til að réttlætanlegt sé að taka völdin af borgurum um eigin hag þeirra og fá þau í hendur misviturra stjórnmálamanna.

    Við ættum því að snúa af þessari leið og taka aftur til við að treysta borgurum fyrir forræði sinna eigin mála.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður