október 2021

  • Stuðningur við siðleysi

    Nú hafa þjóðinni verið borin þau tíðindi að einn af nýkjörnum Alþingismönnum hafi sagt skilið við stjórnmálaflokkinn sem hann var í framboði fyrir er hann hlaut kosningu. Það eru nokkrir dagar liðnir frá kosningum og ekki er vitað um nein tíðindi á vettvangi stjórnmála sem gefa manninum tilefni til þessara sinnaskipta. Ljóst er að hann bauð sig fram undir fölsku flaggi, enda hefur hann sjálfur ekki skýrt athæfi sitt með öðru en gamalli atburðarás sem lá öll fyrir löngu fyrir kosningarnar. Hann var einfaldlega að svindla á kjósendum, þegar hann lét kjósa sig fyrir flokk sem hann yfirgefur svo strax að kjörinu loknu vegna atvika sem lágu fyrir áður en kosið var.

    Ég held ég myndi varla nenna að stinga niður penna til þess eins að áfellast þennan mann fyrir hátterni hans. Það er hins vegar ástæða til að staldra við og spyrja, hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt í þessu með honum? Með því háttalagi gerist sá flokkur meðsekur í háttsemi mannsins. Komið hefur fram í fréttum að enginn þingmanna flokksins greiddi atkvæði gegn því að taka við honum. Þingflokkurinn hefur þá upplýst að hann er til í að taka þátt í siðlausum brotum annarra ef hann aðeins telur sig hagnast á því – í þessu tilviki með því að fá viðbótaratkvæði á þingi.

    Ekki gott.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Aðgerðaleysi

    Hvernig stendur á því að stjórnmálaflokkarnir bregðast ekki við augljósum annmörkum á lagareglum um dómstóla, þó að ítrekað hafi verið bent á þá með þeim hætti að enginn þarf að efast?

    Ég hef um árabil fjallað um þetta í ræðu og riti og fært fram lýsingu á staðreyndum sem enginn hefur getað efast um að séu réttar.

    Nú síðast sendi ég frá mér hlaðvarpsþætti (sex talsins) þar sem farið er yfir meginreglur sem dómstólum ber að virða í störfum sínum og nefni dæmi um að freklega hafi verið brotið gegn þeim.

    Í síðasta þættinum ræði ég umbætur á lögum sem auðvelt er að koma á til þess að bæta þessa þýðingarmiklu starfsemi svo um munar.

    Af einstökum breytingum er þýðingarmest að afnema sjálfdæmi dómaraelítunnar um val á nýjum dómurum í Hæstarétt.

    Á því sviði liggja fyrir handföst dæmi um misnotkun á valdi til þess arna. Þannig eru bein dæmi um að við mat á umsækjendum sé breytt um viðmiðanir milli ára í því skyni að hefja vini og kunningja upp yfir aðra sem sitjandi dómurum kann að vera í nöp við.

    Þetta hafa allir séð og margir lögfræðingar fjallað um á opinberum vettvangi.

    En það er eins og stjórnmálamönnum sé alveg sama.

    Nú er verið að mynda nýja ríkisstjórn og mætti þá ætla að fjallað væri um úrbætur á lagareglum um dómstóla sem allir sjá að eru nauðsynlegar í því skyni að reyna að uppfylla þær kröfur sem lýðræðislegt réttarríki hlýtur að gera til þessara stofnana.

    Ég spái því að ekki muni sjást orð um þetta í komandi sáttmála um stjórnarmyndun.

    Þetta er eins og logandi eldhnöttur sem enginn þorir að taka á, þó að staðreyndirnar liggi fyrir og auðvelt sé að gera lagabreytingar til umtalsverðra bóta.

    Kannski stjórnmálamennirnir séu að bíða eftir að þeir sjálfir eða ástvinir þeirra þurfi að prófa þetta spillta kerfi á sjálfum sér?

    Á meðan eru aðrir borgarar látnir bera skaðann af spillingunni.

    Reynið frekar að vakna og gera strax þær úrbætur sem gera þarf.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður