ágúst 2021

  • Dómarar aðstoða ráðherra við stjórnsýslu

    Á vefsíðu stjórnarráðsins er að finna upplýsingar um réttarfarsnefnd. Fram kemur að dómsmálaráðherra skipi hana. Hún hafi það hlutverk að vera ráðherra til ráðgjafar á sviði réttarfars, m.a. þegar samin eru frumvörp og aðrar reglur á því sviði í samræmi við áætlun og áherslur ráðherra. Þá er gert ráð fyrir að nefndin veiti umsagnir um frumvörp og aðrar tillögur sem varða réttarfar.

    Ljóst er að þessi verkefni flokkast undir framkvæmdavald, þ.e. svonefnd stjórnsýsluverkefni. Á lögmæti þeirra kann að reyna í dómsmálum.

    Í pistlinum um nefnd þessa á vefsíðunni kemur fram að þrír af fimm nefndarmönnum koma nú úr röðum skipaðra dómara við Hæstarétt. Tveir þeirra sátu í nefndinni þegar þeir voru skipaðir dómarar á síðasta vetri en sáu ekki ástæðu til að segja af sér þessum stjórnsýslustörfum við það tækifæri. Sá þriðji er núverandi forseti Hæstaréttar. Hann er ekki talinn líklegur til að afsala sér bitlingum sem honum hafa verið fengnir.

    Skipunartími núverandi nefndarmanna er til 28. febrúar n.k.

    Flestum hugsandi mönnum ætti að vera ljóst að ekki er við hæfi að dómarar við æðsta dómstól þjóðarinnar séu skipaðir til að veita ráðherra aðstoð við stjórnsýslu dómsmála. Þetta er ómur liðins tíma.

    Væri ekki ráð að nútímakonan, sem nú gegnir embætti dómsmálaráðherra, óskaði eftir að hæstaréttardómararnir í réttarfarsnefnd segðu af sér þessum störfum hið bráðasta? Að minnsta kosti muni hún gæta þess við endurnýjun á mannvali í nefndina eftir næstu áramót að skipa þetta fólk ekki aftur í þessa nefnd.

    Fróðlegt væri að heyra að minnsta kosti viðhorf hennar til þessa málefnis. Kannski Mogginn láti henni í té rými til þess?

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Eiga dómarar að sýsla við lagasetningu?

    Á síðum Morgunblaðsins hefur á undanförnum dögum komið til umræðu hvort eðlilegt hafi verið á síðasta ári af forsætisráðherra að fela Páli Hreinssyni dómara við EFTA-dómstólinn að skrifa álitsgerð um valdheimildir heilbrigðisráðherra til „opinberra sóttvarnaráðstafana samkvæmt sóttvarnalögum“. Skilaði dómarinn álitsgerð um þetta efni 20. september s.l.

    Það er skoðun mín og fjölda annarra lögfræðinga, að ekki sé við hæfi að skipaðir dómarar sinni svona verkefnum fyrir stjórnarráðið. Skiptir þá að mínu mati ekki máli hvort um ræðir dómara við innlenda dómstóla eða fjölþjóðlega.

    Segja má að ástæður fyrir þessu séu aðallega tvíþættar. Í fyrsta lagi fara dómstólar með dómsvald, en það vald á samkvæmt stjórnarskrá og lögum að vera skilið frá framkvæmdarvaldi, sem ráðherrar fara með. Það skiptir því máli að dómarar gerist ekki þátttakendur í meðferð ráðherravalds. Slíkt er til þess fallið að skapa tengsl sem geta haft áhrif langt út fyrir einstök verkefni sem ráðherra felur dómara að sinna. Þetta dregur úr trausti manna á dómstólum. Í öðru lagi er auðvitað hætta á að dómari verði beinlínis vanhæfur til meðferðar einstaks máls, sem borið er upp við dómstól hans, ef deilt er um gildi eða efni lagareglna sem hann hefur átt þátt í að semja.

    Forsætisráðherra segir nú réttilega að dómari skuli sjálfur meta hæfi sitt í einstökum málum. Augljóst er að þetta mat hans beinist eingöngu að síðari þættinum, sem nefndur er að framan, en ekki þeim fyrrnefnda sem er ekki þýðingarminni en sá síðarnefndi. Og þessi staðreynd ætti ekki að skipta nokkru máli, þegar verið er að velja lögfræðinga til að skrifa álitsgerðir fyrir stjórnarráðið.

    Það er sem sagt skoðun mín að dómarar eigi alls ekki að taka að sér verkefni í stjórnsýslu á borð við það sem hér um ræðir. Með þeim eina hætti varðveita þeir hlutlausa stöðu sína og tiltrú almennings á þeim.

    Svo má spyrja: Hvers vegna leitar ráðherrann til dómarans til að fá lögfræðiálit? Páll er hinn mætasti lögfræðingur og kann ýmislegt fyrir sér. En er ekki starfandi í landinu fjöldi lögfræðinga sem segja má hið sama um? Í þeim flokki má til dæmis telja fræðimenn og kennara í lögfræði, starfandi lögmenn og jafnvel lögfræðimenntaða stjórnmálamenn. Er einhver þörf á að hætta stöðu hins mæta dómara Páls með þessu?

    Nauðsynlegt er að taka fram að þessi ámælisverði þáttur í íslenskri stjórnsýslu hefur tíðkast í landinu um langa hríð. Besta dæmið er skipun réttarfarsnefndar. Hún er fastanefnd sem m.a. hefur það hlutverk „að vera dómsmálaráðherra til ráðgjafar um samningu frumvarpa og annarra reglna á sviði réttarfars.“ Í þessari nefnd hafa starfandi hæstaréttardómarar setið um árabil. Þetta er eins og ómur úr fortíðinni sem er ekki boðlegur nú á tímum, hafi hann einhvern tíma verið það. Dómarar sem hafa átt sæti í þessari nefnd hafa oftsinnis tekið þátt í að dæma í málum þar sem deilt hefur verið um efni réttarfarslaga sem nefndin hefur samið.

    Hvernig væri að ráðherrar beittu sér fyrir breytingu á þessum ámælisverðu þáttum í íslenskri stjórnsýslu í stað þess að hlaupa til varna og forherðast í sjónarmiðum liðins tíma?

    Jón Steinar Gunnlaugson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt og nefndarmaður í réttarfarsnefnd (áður en hann var skipaður dómari)