júlí 2021

  • Hjarðhegðun dómara

    Hvers vegna ætli kveðið sé svo á í lögum að áfrýjunardómstólar skuli skipaðir fleiri en einum dómara, sem dæma skuli mál saman, ýmist þrír, fimm eða sjö? Þetta gildir ekki bara á Íslandi heldur einnig í öðrum löndum sem og við alþjóðlega dómstóla, eins og Mannréttindadómstól Evrópu svo dæmi sé tekið. Ástæðan er augljós. Það er talið til þess fallið að tryggja rétta niðurstöðu í málinu að kveðja til nokkra vel hæfa lögfræðinga til að leggja dóm á sakarefni þess. Forsendan fyrir þessu er auðvitað sú að hver og einn þeirra leggi sitt álit til grundvallar niðurstöðu sinni. Þetta beri þeim þá að gera eftir að hafa borið saman bækur sínar og verið tilbúnir til að skipta um skoðun ef einhver hinna kemur með úrlausn sem telur þeim hughvarf. Þessi skipan myndi óhjákvæmilega valda því að dómarar skrifuðu sératkvæði þegar úrlausnin, sem þeir telja rétta, er ekki hin sama og úrlausn hinna. Þetta hlyti að gerast reglulega, því úrlausnarefnin eru oft flókin og veruleg áhöld um aðferðafræðina við að dæma um þau og þar með um niðurstöðuna.

    Víða erlendis er gert ráð fyrir að einstakir dómarar skuli greiða skriflega atkvæði í máli sem til meðferðar er hverju sinni. Sé dómari sammála öðrum að öllu leyti getur hann einfaldlega vísað til röksemda annars dómara í hópnum eftir að þeir hafa komið sér saman um hvor eða hver þeirra skuli skrifa hinn efnislega rökstuðning. Þessi aðferð við samningu dóma er til þess fallin að stuðla að persónulegri ábyrgð einstakra dómara í hópnum á niðurstöðu sinni.

    Allir ættu að vita að í nokkurra manna hópi lögfræðinga hlýtur að verða alltítt að upp komi ágreiningur um þau lögfræðilegu úrlausnarefni sem fengist er við. Þetta verður augljóst þegar athugaðar eru upplýsingar um slíkt við fjölskipaða erlenda dómstóla. Þar er víða regla fremur en undantekning að sjónarmið séu að einhverju leyti mismunandi. Slíkur ágreiningur er eðlilegur og telst raunar óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að skipa marga jafnsetta dómara í dóm.

    Ætli þetta sé sá háttur sem við er hafður hér á landi? Nei, ekki aldeilis. Elíta dómaranna liggur meira segja ekkert á þeirri skoðun sinni að æskilegt sé að bræða saman sjónarmiðin og forðast sératkvæði. Nú er orðið afar fátítt að sératkvæðum sé skilað og þarf ekki að fara nema nokkur ár aftur í tímann til að sjá mun skárra ástand að þessu leyti í Hæstarétti. Þegar ég átti sæti í réttinum taldi ég það skyldu mína að standa með sjálfum mér við úrlausn málanna og byggði þá á þeirri augljósu forsendu að rétt niðurstaða í lögfræðilegum ágreiningi væri aðeins ein en ekki margar sem dómari gæti valið úr. Þetta gerðu líka einstakir aðrir dómarar og nefni ég þá til sögunnar Hjördísi Hákonardóttur, Ólaf Börk þorvaldsson og Viðar Má Matthíasson.

    En bæði þá og nú hefur meginreglan verið sú að bræða saman sjónarmiðin, eða þá einfaldlega að fylgja í blindni einhverjum hinna sem skrifar atkvæði. Hátturinn sem þarna er ríkjandi felur í sér eina tegund þeirrar hjárðhegðunar sem nú tröllríður þjóðfélagi okkar og setur mark sitt á ákvarðanir og afstöðu manna. Virðist viðhorf margra dómara felast í því að þeir telji sig hafa verið skipaða í dóm til að semja við aðra lögfræðinga um hina réttu niðurstöðu í stað þess að finna hina réttu lögfræðilegu niðurstöðu. Úr þessu hefur oft orðið hrein afbökun, þar sem eitt rekur sig í annars horn og engin leið verður að skilja um hvað viðkomandi dómur er fordæmi. Nefndi ég sláandi dæmi um þetta í bók minni „Veikburða Hæstiréttur“, sem kom út á árinu 2013, sjá bls. 54-78. Dæmin sýna vel fáránleikann í þessari aðferðafræði samninganna.

    Ekki deili ég við nokkurn mann um að nauðsynlegt sé að ágreiningur, sem upp kemur við samningu dóma, sé krufinn til mergjar og reynt sé að nálgast sameiginlega hina réttu lögfræðilegu niðurstöðu, þannig að allir dómararnir geti sameinast um forsendur og niðurstöðu máls. Standi hins vegar eftir ágreiningur um röksemdir eða niðurstöðu að slíkri krufningu lokinni er það að mínum dómi skylda dómara að fylgja sinni bestu samvisku og greiða sératkvæði en ekki að víkja skoðun sinni til hliðar í þágu einingarinnar. Ein af meginforsendum þess að skipa marga dómara í æðsta dómstól þjóðar hlýtur að vera að tryggja að mismunandi lagaleg sjónarmið hinna hæfustu lögfræðinga séu þar til staðar. Dómarar eru ekki skipaðir til embætta í slíkum dómstól til að taka samstöðuna sín í milli fram yfir bestu einstaklingsbundna vitund um lögfræðileg úrlausnarefni. Breyting á reglum um samningu dóma í þá átt sem ég hef rakið ætti að vera til þess fallin að bæta mjög starfsemi æðri dómstólanna, hvort sem um Landsrétt eða Hæstarétt ræðir.

    Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt

  • Furðulegur dómur

    Hinn 23. júní s.l. hafnaði meirihluti Hæstaréttar í málinu nr 24/2021 kröfu sakbornings í sakamáli um að tveir af þremur dómurum við Landsrétt skyldu víkja sæti í endurtekinni meðferð á máli hans í Landsrétti, en Hæstiréttur hafði ómerkt fyrri dóm Landsréttar á þeirri forsendu að ekki hefði farið fram munnleg sönnunarfærsla í málinu. Með öðrum orðum stóð svo á að dómararnir tveir höfðu sakfellt manninn við fyrri meðferðina án þess að til hefði komið munnlegur framburður fyrir dómi. Hæstiréttur hafði ómerkt þennan fyrri dóm af þessari ástæðu.

    Sakborningur taldi eðlilega að hann þyrfti ekki að sæta því að þessir tveir dómarar, sem væru búnir að sakfella hann á ófullnægjandi grundvelli, settust í dóm í máli hans þar sem bætt yrði úr fyrri annmörkum á meðferð málsins. Gerði hann því kröfu um að þessir tveir dómarar yrðu látnir víkja sæti þegar málið yrði dæmt á ný. Í forsendum Hæstaréttar virðist koma fram skilningur á nauðsyn þess að sakborningur hafi ekki ástæðu til að vantreysta dómurum máls, því þar segir m.a.: „Þegar lagt er mat á hæfi dómara til að fara með mál verður að gæta að því að tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er ekki einungis að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum máls og efni þess heldur einnig að tryggja traust aðila jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari komi að úrlausn máls ef réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans.“

    Þessari einföldu hugsun sýnist svo varpað fyrir borð síðar í forsendunum þar sem segir svo orðrétt: „Þótt að sínu leyti sé skiljanlegt að ákærði sem sakfelldur hefur verið af þremur dómurum hafi efasemdir um að þessir dómarar muni líta málið öðrum augum við nýja efnislega meðferð þess og telji að þeir muni síður fallast á rök hans fyrir sýknu en nýir dómarar sem ekki hafa komið að því áður getur það eitt og sér ekki talist grundvöllur undir réttmætan efa um að þeir teljist óhlutdrægir.“ Kröfu mannsins var því synjað.

    Í þessum forsendum felst alvarleg þversögn. Engin réttarfarsleg þörf er á að synja kröfu mannsins. Hann vildi bara að málið dæmdu dómarar sem hann hefði ekki ástæðu til að ætla að hefðu fyrirfram mótað afstöðu sína til sakarinnar. Það er í raun óskiljanlegt að fjórir af fimm hæstaréttardómarar skuli synja honum um þetta.

    Það er lítið hald í því fyrir manninn að einn dómaranna fimm skuli hafa skilað sératkvæði, þar sem hann færir einföld rök fyrir því að taka beri kröfu mannsins til greina. Í atkvæði hans segir m.a. svo: „Fjölmörg dæmi eru um að dómari hafi talist vanhæfur þótt afskipti hans af málefni, meðal annars við meðferð máls fyrir dómi, hafi verið mun veigaminni en að kveða upp efnisdóm í máli, …. Vanhæfisreglur laganna hafa auk þess að geyma víðtæk ákvæði sem mæla fyrir um að hlutrænt séð skuli dómarar taldir vanhæfir þótt síður en svo verði fullyrt að tengsl þeirra við mál séu með þeim hætti að áhrif þurfi að hafa á afstöðu þeirra.“

    Nefnir þessi dómari m.a. til sögunnar dæmi úr lögum, þar sem kveði er á um þetta.

    Fullyrða má að traust almennings til Hæstaréttar hafi látið verulega á sjá á undanförnum misserum og árum. Því hefur ráðið ófullnægjandi dómsýsla réttarins. Hafi dómarar við Hæstarétt áhuga á að reyna að bæta traust almennings til dómstólsins ættu þeir að reyna að forðast dóma þar sem bersýnilega er brotið freklega á rétti borgara til hlutlausrar meðferðar mála þeirra.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Hjarðhegðun

    Eitt stærsta meinið í samfélagi okkar er það sem kalla má hjarðhegðun flestra þegar tekin er afstaða til mála, þ.m.t. þýðingarmikilla þjóðfélagsmála. Í stað þess að leggja sjálfstæða hugsun í málefnið, sem til meðferðar er, virðast flestir móta afstöðu sína af því sem þeir telja að komi sér best fyrir þá sjálfa og persónulega hagi þeirra. Þá verður fljótlega til það sem kalla má rétttrúnað, sem er þá oftast hugsunarlaust lagður til grundvallar við umræður og ákvarðanir í okkar fámenna þjóðfélagi.

    Um þetta eru mýmörg dæmi. Ég hef oftsinnis fjallað um klíkuákvarðanir þeirra sem ráða ríkjum í dómskerfinu. Þeir sem eiga hagsmuni undir þeim ákvörðunum velja flestir þann kostinn að makka með. Ástæðan er þá gjarnan sú að viðkomandi veit að andóf af hans hálfu muni skaða hann sjálfan og persónulega hagi hans. Lögmenn eru til dæmis hræddir um að valda skaða á hagsmunum skjólstæðinga sinni í dómsmálunum og dómarar á lægri dómsstigum eru hræddir um að fá ekki þann framgang í störfum sem þeir vonast eftir.

    Í stjórnsýslunni er sömu sögu að segja. Þeir sem eiga samskipti við valdsmenn á þeim vettvangi vita um fjölmörg dæmi þess að valdi sé misbeitt. Valdið á þeim vettvangi er oftast í höndum embættismanna sem stundum hafa öll ráð yfirmanna sinna (ráðherranna) í hendi sér. Þegar ranglát ákvörðun hefur verið tekin er oft miklu „skynsamlegra“ að una henni möglunarlaust fremur en að gagnrýna hana þó að rökin fyrir gagnrýni séu augljós.

    Það er ekki á því nokkur vafi að þessi hjarðhegðun veldur miklum skaða í samfélaginu. Ákvarðanir eru teknar á ómálefnalegum grundvelli og enginn þorir að segja neitt. Það er því fyllsta ástæða til þess að hvetja alla hugsandi menn til að láta miklu meira í sér heyra og þá í því augnamiði að veita valdhöfum aðhaldið sem þeir svo sannarlega þarfnast.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður