apríl 2021

  • Misskilningur veirufróðra

    Alþingi hefur nú sett lög til breytingar á sóttvarnarlögum. Með lögunum er ráðherra veitt meira vald en áður til að skylda ferðamenn til dvalar í sóttvarnarhúsi meðan þeir sæta einangrun.

    Ekki er ástæða til að gera athugasemdir við að ráðherra sé tímabundið veitt aukið vald í þessum efnum, þar sem beita þarf nauðsynlegum úrræðum til að fást við veiruskrattann sem hefur gert okkur lífið leitt að undanförnu.

    Það er hins vegar dálítið undarlegt að sjá gagnrýni á lögin beinast að því að óeðlilegt sé að veita ráðherra þetta vald. Þekktir vísindamenn hafa birt skoðanir af þessu tagi. Nær væri að sóttvarnarlæknir hefði það beint sjálfur. Og það sjónarmið sést jafnvel skjóta upp kollinum að stjórnmálamenn séu til bölvunar, þegar beita þarf lagavaldi til skerðingar á frelsi borgara, þeim sjálfum til verndar.

    Hér virðast einhverjir hafa gleymt meginreglum sem samfélag okkar vinnur eftir. Í fyrsta lagi kjósum við stjórnmálamenn til að beita ríkisvaldi þegar við á. Tilgangurinn með því að kjósa þá er að fela þeim slíkt vald í hendur, enda bera þeir stjórnskipulega ábyrgð á meðferð þess, m.a. með því að vera kosnir til ákveðins takmarkaðs tíma.

    Ætla verður að gagnrýni af þessu tagi eigi rót sína að rekja til misskilnings á því hvernig lýðræðislegu valdi er fyrir komið í því samfélagi sem við byggjum. Veirufróðir vísindamenn ættu því að einskorða orðræðu sína við það sem þeir hafa vit á en leiða hjá sér athugasemdir um að aðrir en lýðræðislega kjörnir fulltrúar eigi að ráða vegferð annarra manna í sóttarvörnunum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Með mildu hjartalagi

    Í stuttri grein minni sem birtist í Morgunblaðinu og víðar í gær 12. apríl undir heitinu „Að virkja óttann“ er að finna samlíkingar sem ég fellst á að hafi verið óviðeigandi og óþarfar til að skýra mál mitt.

    Þar á ég í fyrsta lagi við val á dæmi úr mannkynssögunni þar sem ótti manna var virkjaður í pólitískum tilgangi. Ég nefndi dæmi um að Þjóðverjum hafi staðið svo mikill beygur af Hitler að þeir hafi nánast lagt blessun sína yfir voðaverk hans gagnvart gyðingum. Út úr þessum ummælum mínum var reyndar snúið, því ég var auðvitað ekki að líkja ákvörðunum um sóttvarnir á Íslandi við gyðingamorðin í Þýskalandi á stríðsárunum. Það hefði samt frekar verið viðeigandi hjá mér nefna mildari dæmi úr mannkynssögunni þar sem ótti var notaður til að fá borgara til að bakka upp gerðir valdhafa sinna. Þar er af nógu að taka.

    Það var heldur ekki sanngjarnt að líkja Kára Stefánssyni við Trump fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, jafnvel þó að Kári hafi áður með niðrandi hætti líkt vini mínum Brynjari Níelssyni við Trump. Það er nefnilega óþarfi að láta annað fólk draga sig niður á umræðuplan, eins og ég gerðist þarna sekur um. Bið ég Kára Stefánsson því velvirðingar á þessu fráviki mínu á góðum umræðuháttum.

    Þá tek ég fram að ég er hreint ekki andvígur því að samfélagslegt vald sé notað af hófsemd til að varna útbreiðslu á smitandi veiru, eins og raunin hefur verið hér á landi að undanförnu, auðvitað að því tilskildu að ávallt sé farið að lögum.

    Bið ég lesendur að meðtaka þessa yfirbót mína með mildu hjartalagi sínu.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Að virkja óttann

    Á öllum tímum hefur það verið öflugt vopn í heimi mannanna að nýta ótta við utanaðkomandi hættu til að ná pólitískum yfirráðum yfir hinum óttaslegnu.

    Sagan segir t.d. að almenningur í Þýskalandi á tímum Hitlers hafi verið svo hræddur að fólkið hafi nánast lagt blessun sína yfir illvirki hans við útrýmingu á milljónum gyðinga á árunum síðari heimstyrjaldar.

    Íslenska dæmið sem nú skellur á okkur er auðvitað ekki jafnalvarlegt og þetta þýska dæmi. En það er af sömu tegund. Við Íslendingar erum nefnilega að upplifa það að stjórnvöld leitast við að nýta ótta þjóðarinnar við veiruna miklu til að fá hana til fylgilags við ofbeldisfulla stýringu á háttsemi manna í því skyni að ná tökum á veirunni. Til liðs við þau kemur svo orðhákur úr röðum vísindamanna, sem kann að gera út á hræðslu almennings við hina skaðvænlegu veiru. Þetta framferði mannsins er líka til þess fallið að auka honum persónulegar vinsældir, eins og kemur fram í blaðagreinum og neðanmálsgreinum á netinu. Hann hallmælir dómstólum fyrir að virða meginreglur laga og uppnefnir þá sem fallast ekki á ruglið í honum. Sigríður Andersen alþingismaður hitti naglann á höfuðið þegar hún lýsti þversögninni sem felst í því að moldríkur orðhákurinn sem kominn er á elliár og vill reisa múrvegg á landamærum landsins, líkti öðrum mönnum við Trump úr Vesturheimi fremur en sjálfum sér.

    Hvernig halda menn að múgsefjunin virkaði ef ausið væri yfir þjóðina stöðugum áróðri um skaðsemi sóttvarnaraðgerða? T.d. um aukna tíðni sjálfsvíga, þunglyndi, atvinnuleysi, ógreinda sjúkdóma, frestaðar skurðaðgerðir og heimilisofbeldi, en lítið væri talað um skaðsemi veirunnar. Ætli múgsefjunin gæti þá snúist við?

    Þó að nauðsynlegt sé að fást við veiruna ættum við að muna að önnur verðmæti eru í gildi í okkar landi sem við ættum ekki að fórna í hennar þágu. Þar á ég við lýðræðislegt skipulag, þar sem leitast er við að vernda frelsi og mannréttindi borgaranna. Látum ekki orðháka af ætt Trumps spilla þeim verðmætum.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Að sjá ekki skóginn fyrir trjánum

    Í stjórnarskrá okkar er kveðið svo á að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Þar er síðan að finna frekari ákvæði um réttarstöðu manna gagnvart frelsisskerðingum, m.a. um rétt til að leita til dómstóla vegna hennar.

    Fyrir liggur að íslensk stjórnvöld hafa að undanförnu beitt íslenska ríkisborgara því valdi að meina þeim að fara heim til sín til að „afplána“ sóttkví þar, en skipa þeim þess í stað að vistast í „sóttvarnarhúsi“ þann tíma sem sóttkví varir.

    Nokkrir borgarar hafa ekki viljað una þessu möglunarlaust og hafa þeir því borið þessa valdbeitingu undir dómstóla. Þar hafa fengist þær niðurstöður að þetta ofbeldi standist ekki fyrrgreinda meginreglu.

    Aðrir Íslendingar ættu að fagna því að einstakir samborgarar þeirra skuli ekki sitja þegjandi undir þessari valdbeitingu og kalla eftir dómsúrlausnum um að hún standist ekki. Við ættum síðan einnig að fagna niðurstöðunum, því þær byggjast á því að hér séu að minnsta kosti að einhverju leyti í gildi raunveruleg borgaraleg frelsisréttindi sem snerta grundvöll stjórnskipunar okkar.

    Ekki geri ég lítið úr því að gera þurfi ráðstafanir til að hemja veiruskrattann. En menn mega ekki missa stjórn á hugsunum sínum af því tilefni. Svo hefur nú brugðið við að hávaðasamar raddir hafa ekki bara veist að þeim einstaklingum sem hafa staðið vaktina í þessu heldur einnig að lögmönnum þeirra persónulega. Í hópi þeirra sem svona hafa talað er að finna ýmsa sem fram til þessa hafa viljað láta líta á sig sem frjálshuga borgara, sem vilji andæfa ofríki stjórnvalda, þegar við á.

    Það er eins og veiran hafi heltekið þá. Hvað ætla þeir að gera við prinsippið um frelsi þegar á að beita þá frelsissviptingum vegna stjórnmálaskoðana eins og gert er um víða veröldina. Kannski þeir telji að skoðanafrelsi sé bundið við „réttar“ skoðanir.

    Stundum er þessi blinda kölluð „að sjá ekki skóginn fyrir trjánum“.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður