febrúar 2021

  • Minnisblaðið hræðilega

    Í málflutningi af hálfu Benedikts Bogasonar í málinu sem dæmt var í Hæstarétti s.l. föstudag lagði hann mikla áherslu á að ég hafi í febrúar 2012, meðan málið gegn Baldri Guðllaugssyni var til meðferðar í Hæstarétti, afhent samdómurum mínum minnisblað í því skyni að hafa áhrif á dóm þeirra. Það er vandséð hvaða þýðingu þetta hefur í máli sem höfðað er gegn mér í nóvember 2017 vegna ætlaðra meiðyrða í bókarkafla sem kom út í byrjun þess mánaðar. Samt varði lögmaður Benedikts drjúgum málflutningstíma í þetta minnisblað. Dómarar hefðu auðvitað átt að stöðva þennan málflutning, þar sem hann kom dómsmálinu ekkert við. Eins konar blaðafulltrúi dómaraelítunnar, sem starfar hjá Fréttablaðinu, gerði þetta að sérstöku frásagnarefni í frétt um sýknudóminn nú. Áður hafði Benedikt afhent fjölmiðlum minnisblaðið. Mikill bragur á því hjá starfandi hæstaréttardómara.

    Ljóst er að þessum málflutningi var einungis ætlað að sverta mig í augum dómsins og gera mig að tortryggilegri persónu. Ég sé því ástæðu að fara um þetta nokkrum orðum og birta þá um leið minnisblaðið sem átti að hafa þessi áhrif í málinu nú.

    Það hefur verið algengt að dómarar við Hæstarétt leggi til efni um mál sem þar eru til meðferðar, þó að þeir sitji ekki í dómi. Fullyrðingar um annað eru hafðar uppi í þeirri vissu að ekki sé unnt að fá réttar upplýsingar um þetta frá réttinum sjálfum.

    Málið gegn Baldri var fyrsta málið í Hæstarétti, sem varðaði ákærur á hendur einstaklingum eftir hrunið. Mér varð strax ljóst hvernig vindar blésu á dómaraganginum í Hæstarétti á þessum tíma. Menn biðu hreinlega eftir tækifæri til að láta hrunið til sín taka og sýna þjóðinni að tekið yrði fast á málum. Það var því fyrirfram ljóst að hér var hætta á að sá grandvari maður Baldur yrði fyrir spjótalögum af þessum sökum. Ég setti því niður á blað nokkur atriði um lagaleg atriði sem vörðuðu innherjasvik, en ákæran á hendur Baldri var um slík svik.

    Minnisblaðið fer á eftir í orðréttri útgáfu:

    „Spurning: Er refsivert að selja hlutabréf ef sá sem selur veit eitthvað (neikvætt) um hlutafélagið sem „markaðurinn“ veit ekki? Svar: Nei. Þetta er því aðeins refsivert, að um sé að ræða innherjaupplýsingar og sá sem selur teljist vera innherji. (Hér má hafa í huga að verðbréfamarkaður byggist hreinlega á því að þeir sem hafi viðskipti með hlutabréf hafi mismunandi vitneskju og skoðanir um viðkomandi hlutafélag; ekkert er athugavert við þetta nema annar þeirra búi yfir innherjaupplýsingum).

    Spurning: Hvað eru þá innherjaupplýsingar? Svar: Þær upplýsingar sem efnislega uppfylla skilgreiningu 120. gr. laganna (“nægilega tilgreindar upplýsingar”) og skylt er að birta almenningi samkvæmt 1. mgr. 122. gr. Upplýsingarnar falla aðeins undir skilgreininguna fram að birtingu þeirra (síðari málsliður 121. gr.)

    Spurning: Voru það innherjaupplýsingar í LÍ, að breskir og hollenskir eftirlitsaðilar með fjármálafyrirtækjum létu í ljós áhyggjur af því að innistæðutryggingakerfi bankans væri ófullnægjandi fyrir hagsmuni innlánseigenda á Icesave reikningum í þessum löndum? Svar: Nei. Almenningi var kunnugt um hvernig innistæðutryggingakerfi LÍ var fyrir komið. Hugleiðingar og tilmæli hinna erlendu eftirlitsaðila sem lutu að þessu geta ekki hafa verið tilkynningaskyldar, fyrr en þessir aðilar tóku formlega ákvarðanir innan valdheimilda sinna um að takmarka starfsemi LÍ í þessum löndum. Sjálfsagt hefði LÍ orðið skylt að birta upplýsingar um slíkar ákvarðanir almenningi ef þær hefðu verið teknar.

    Spurning: Hvað þarf að liggja fyrir til þess að manni verði refsað samkvæmt 123. gr.? Svar: A. Tilgreina verður nákvæmlega með fullnægjandi rökstuðningi hvaða upplýsingar bar að birta almenningi (vafaatriði ber að túlka sakborningi í hag samkvæmt almennum reglum). B. Hinn sakaði maður verður að teljast hafa verið innherji (121. gr.). C. Sanna verður að hann hafi búið yfir upplýsingunum þegar hann seldi (123. 1. gr.).“

    Allir sem lesa þetta sjá að hér var ekki um neitt annað að ræða en hlutlausar ábendingar um lögfræðina í málinu. Ég hefði eins getað skrifað blaðagrein um þetta. Það er bara fyndið að dómarinn mikli skuli telja afhendingu þessa blaðs í febrúar 2012 skipta máli, þegar hann stefnir mér fyrir ummæli í bók sem kom út í nóvember 2017.

    Eftir stendur aðeins, að dómararnir hefðu betur tileinkað sér þann lögfræðilega fróðleik sem fram kom í minnisblaði mínu. Þá hefði ekkert dómsmorð verið framið.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Málskostnaður í máli forsetans gegn mér

    Þegar menn takast á fyrir dómi leita þeir oftast lögmannsaðstoðar við að reka málið fyrir sig. Það kostar peninga. Í lögum er að finna ákvæði um að sá sem „tapar máli í öllu verulegu“ skuli að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Þá er átt við þann kostnað sem gagnaðilinn hefur orðið fyrir vegna málarekstursins.

    Venjulega gera báðir málsaðilar kröfu á hendur hinum um að fá málskostnað sinn greiddan úr hans hendi. Lögin gera ráð fyrir að aðili sem krefst málskostnaðar síns úr hendi gagnaðila geri grein fyrir honum með sérstökum málskostnaðarreikningi sem lagður er fram við aðalmeðferð máls.

    Fyrir kemur að í dómi sé kveðið á um að málskostnaður sé felldur niður. Í því felst ákvörðun um að hvor aðila skuli bera sinn kostnað sjálfur. Er þetta m.a. heimilt ef veruleg vafaatriði þykja vera í máli.

    Ef sá sem tapar máli, áfrýjar dómi til æðra dómstigs og svo fer að hinn áfrýjaði dómur er staðfestur er áfrýjandinn að jafnaði dæmdur til að greiða hinum kostnað hans á áfrýjunarstigi. Þetta má heita nær algild regla og þá ávallt ef forsendur æðra dóms fyrir niðurstöðu sinni eru hinar sömu og var á neðra stiginu.

    Í máli Benedikts Bogasonar gegn mér sem dæmt var í Hæstarétti s.l. föstudag höfðu báðir aðilar uppi kröfur á öllum þremur dómstigum um að gagnaðili greiddi þeim málskostnað. Af minni hálfu var, eins og menn vita, krafist sýknu af kröfum Benedikts. Var sú krafa einfaldlega byggð á því að ég hefði notið málfrelsis til að segja það sem ég hafði sagt í kafla bókar minnar um dóminn í máli Baldurs Guðlaugssonar. Héraðsdómarinn féllst á þetta og sýknaði mig af kröfum Benedikts, en felldi niður málskostnað. Það var skrýtin afgreiðsla og ekki í samræmi við dómaframkvæmd.

    Benedikt áfrýjaði þessum dómi til Landsréttar sem staðfesti héraðsdóminn með sömu rökum. Málskostnaður fyrir Landsrétti var samt felldur niður. Þetta var furðulegt og andstætt fyrri dómaframkvæmd. Benedikt áfrýjaði þessum dómi til Hæstaréttar að fengnu áfrýjunarleyfi. Allt fór á sama veg. Ég var sýknaður með sömu röksemdum og fyrr um að ég hefði notið tjáningarfrelsis til að segja það sem ég sagði. Samt var málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður. Þessi afgreiðsla er ennþá undarlegri en sú sem varð í Landsrétti.

    Niðurstaðan er þá sú að valdsmaðurinn mikli er látinn komast upp með að stefna mér fyrir dóm og valda mér á þremur dómstigum verulegum kostnaði, sem ég fæ ekki borinn uppi, þó að ég sé sýknaður á öllum þremur á þeim forsendum sem ég hafði byggt málflutning minn á frá upphafi. Þessi afgreiðsla er rökstudd með því að verulegur vafi hafi verið á að ég hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis með ummælum mínum um þennan dóm. Ummæli mín hafi verið beinskeytt og hvöss eins og komist er að orði í forsendum dóms Hæstaréttar.

    Engu máli skiptir fyrir afgreiðsluna á kröfunni um málskostnað hvort ummælin teljast hafa verið hvöss eða ekki. Það sem máli skiptir er að hinn áfrýjaði dómur var á báðum áfrýjunarstigum staðfestur og það með sömu röksemdum og þar greindi og ég hafði teflt fram frá upphafi. Áfrýjandi hafði áfrýjað á tvö dómstig til að fá dómi hnekkt. Það tókst honum ekki. Hann fær ekki einu sinni breytt röksemdum dómanna. Ég er samt látinn bera háan málskostnað af þráhyggju hans við málsýfingarnar. Það er líka hreinlega ósatt að ummæli mín hafi verið eitthvað sérstaklega beinskeytt og hvöss. Þetta geta allir séð sem vilja með því einfaldlega að lesa viðkomandi kafla í bók minni. Ástæðan fyrir þessu orðagjálfri í dóminum er augljós. Dómararnir voru annað hvort hræddir við valdsmanninn eða kenndu í brjósti um hann vegna þeirrar niðurlægingar sem hann hafði orðið fyrir með afgreiðslu málsins á þremur dómstigum. Þeir sömdu því svona orðagjálfur til að réttlæta undandrátt sinn á að dæma mér þann rétt sem mér bar í þessu efni.

    Ég fullyrði að enginn Íslendingur, annar en ógnandi valdsmaðurinn, hefði losnað undan skyldu til að greiða gagnaðila sínum málskostnað í máli þar sem eins háttar og í máli Benedikts gegn mér.

    Svo er annað atriði sem þjóðin á kröfu til að fá upplýsingar um. Það vakti athygli mína og lögmanns míns að lögmaður Benedikts lagði ekki fram neinar upplýsingar fyrir dóminn um kostnaðinn sem Benedikt hefði haft af málsýfingum sínum. Hvernig stóð á því? Því hefur verið hvíslað í eyra mér að Benedikt hafi ekki greitt lögmanni sínum fyrir málastappið. Lögmaðurinn hafi verið sólginn í að fá að reka þetta mál fyrir hæstaréttardómarann, þar sem í því fælist langþráð upphefð fyrir hann. Að mínum dómi er nauðsynlegt að Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar upplýsi um þetta með nákvæmri greinargerð studdri greiðslugögnum um málskostnaðinn sem hann hafði af málinu. Grunsemdir um að þessi valdamikli dómari þiggi á laun greiða frá starfandi lögmönnum í landinu eru ekki ásættanlegar. Þess vegna verður hann undanbragðalaust að gefa þessar upplýsingar.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Til hamingju Benedikt!

    Ég hef nú verið sýknaður á þremur dómstigum af málsýfingum Benedikts Bogasonar gegn mér. Tilgangur hans virðist hafa verið að hræða menn frá því að bera fram gagnrýni á verk Hæstaréttar Íslands. Geri þeir það megi þeir eiga von á málsóknum og peningaútgjöldum.

    Dómstólar fara með afar þýðingarmikið þjóðfélagsvald. Dómarar eru æviskipaðir og þurfa því ekki að standa neinum reikningsskil gerða sinna eins og handhafar löggjafar- og framkvæmdavalds þurfa að gera. Þess vegna skiptir miklu máli að borgarar hafi rúmt frelsi til að gagnrýna þá fyrir meðferð þeirra á valdi sínu. Sú gagnrýni þarf að vera málefnaleg og rökstudd ef hún á að skipta máli.

    Nú gekk hæstaréttardómur í máli sem einn þeirra höfðaði gegn mér fyrir kafla í bók minni „Með lognið í fangið“ sem út kom í nóvember 2017. Ég var sýknaður eins og reyndar hafði orðið reyndin líka í héraði og Landsrétti. Í öllu talinu um þetta hefur að mestu leyti gleymst að nefna þau efnisatriði í dómi Hæstaréttar í málinu gegn Baldri Guðlaugssyni á árinu 2012 sem ég gagnrýndi. Þau eru flest þannig að tilefni þeirra var augljóst og átti brýnt erindi við almenning.

    Ég taldi að Hæstiréttur hefði legið undir of miklu álagi og því ekki getað fjallað um málið á þann hátt sem nauðsynlegt var.

    Þrýstingur hefði verið á dómstólinn um að sakfella í hrunmálum. Þetta var fyrsta málið úr þeim flokki sem dómstóllinn fékk til meðferðar.

    Formaður dómsins hafi verið vanhæfur vegna hlutafjáreignar sinnar í Landsbankanum (þetta vissi enginn þegar dómurinn var kveðinn upp en kom í ljós síðar).

    Ákærði hefði ekki búið yfir innherjaupplýsingum.

    Landsbankinn hefði ekki sinnt tilkynningaskyldu sinni ef rétt teldist að um innherjaupplýsingar hefði verið að ræða. Ákærða hefði því óbeint verið refsað fyrir brot bankans.

    Fyrir lá að Fjármálaeftirlitið hefði vitað allt sem ákærði vissi, en ekki talið ástæðu til að meta upplýsingarnar sem innherjaupplýsingar og birta þær sem slíkar, eins og þá hefði verið skylt að gera.

    Ákærði var dæmdur fyrir annað en ákært var fyrir. Munurinn skipti sköpum um vörn hans.

    Samantekt um efni dómsins var breytt á heimasíðu Hæstaréttar eftir að rétturinn hafði áttað sig á að sakfellingin í dóminum stóðst ekki. Ég birti báðar útgáfurnar í bók minni.

    Brotið var gegn reglunni um að ekki mætti ljúka máli tvisvar (ne bis in idem).

    Ítarlegan rökstuðning var að finna í bók minni um öll þessi atriði.

    Með því að segja að dómararnir hafi að minnsta kosti mátt vita um þessi atriði, þegar þeir kváðu upp dóminn, var ég í reynd að hlífa þeim við því að halda því fram að þeir hafi ekki haft næga lögfræðiþekkingu til að dæma málið. Ásökun um slíkt hefði í reynd verið mun alvarlegri fyrir þá.

    Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar ákvað að bera undir dómstóla hvort réttmætt hafi verið að kalla dómaraverk hans í málinu gegn Baldri Guðlaugssyni dómsmorð. Hann hefur nú fengið spurningu sinni svarað á öllum þremur dómstigunum. Til hamingju Benedikt!

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður