október 2020

  • Fyrirmæli eða tilmæli

    Þessa dagana er þjóðin eðlilega upptekin af veirunni sem öllu ræður. Reglulega birtast fyrirmæli eða tilmæli yfirvalda um háttsemi fólks. Þá er frekar ruglingslegt að ætla að átta sig á því hvaða fyrirmælum yfirvöldin telja mönnum skylt að fylgja og hver séu tilmæli sem menn ráða sjálfir hvort þeir fylgi.

    Núna síðast var golfvöllum lokað, þó að menn geti stundað golfið með svipuðum tengingum við annað fólk og gildir í gönguferðum. Þá virðist stefna í að Íslandsmótinu í knattspyrnu verði lokið án fleiri kappleikja en þeirra sem þegar hafa farið fram. Þetta gerist þó að ekki sé vitað annað en að knattspyrnuvellirnir séu flestir í ágætu ástandi og unnt sé að leika á þeim án áhorfenda. Til dæmis varð ekki betur séð en landsleikur í knattspyrnu sem fram fór á Laugardalsvelli fyrir fáum dögum tækist bara vel. Á ferðinni eru ríkir hagsmunir margra knattspyrnufélaga, sem ýmist eiga von um að komast á milli deilda eða jafnvel til að öðlast rétt til þátttöku í alþjóðlegum keppnum, þar sem háar tekjur eru í húfi. Fleiri dæmi mætti nefna af svipuðum toga.

    Ástæða er til að vekja athygli manna á að yfirvöld í landinu hafa afar takmarkaðar heimildir til að stjórna háttsemi manna í veirufárinu með valdboði. Í sóttvarnarlögum er ekki að finna víðtækar heimildir til slíks. Reyndar er í ýmsum tilvikum vafasamt að stjórnvöld gætu skert stjórnarskrárvarin réttindi manna með bindandi fyrirmælum til almennings, þó að styddust við sett lög. Til slíkra fyrirmæla þarf heimildir í stjórnarskránni sjálfri.

    Það er auðvitað sjálfsagt að yfirvöld heilbrigðismála beini tilmælum til borgaranna um æskilega hegðun þeirra við þessar aðstæður. Það er líka sjálfsagt fyrir almenning að fara að þessum tilmælum í flestum tilvikum, því að öll viljum við takmarka úrbreiðslu þessa vágests sem veiran er. Við ættum samt að hafa í huga að ábyrgðin er okkar sjálfra. Ef til dæmis stjórnarráðið gæfi mér fyrirmæli um að halda mig í 2ja metra fjarlægð frá eiginkonunni myndi ég ekki hlíta því. Skítt með veiruna.

    Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

  • Gátlisti í sakamálum

    Nú á tíðum er algengt að almenningur taki afstöðu til þess, hvort dómar í refsimálum séu „réttir eða rangir“. Margir telja sig þess umkomna að telja sakborninga seka þó að dómstóll hafi sýknað þá af ákæru. Færri telja sakborninga saklausa ef dómstóll hefur sakfellt þá.

    Af þessu tilefni er ástæða til að endurbirta það sem ég hef nefnt gátlista og hefur að geyma upptalningu á þeim atriðum sem dómarar þurfa að aðgæta að séu allir í lagi áður en sakborningur er sakfelldur í sakamáli:

    1. Lagaheimild til refsingar þarf að vera í settum lögum. Efni hennar þarf að vera skýrt og ber að túlka vafa sakborningi í hag.

    2. Ekki má dæma sakborning fyrir aðra háttsemi en þá sem í ákæru greinir.

    3. Heimfæra þarf háttsemi til lagaákvæðis af nákvæmni. Dómendur hafa ekki heimild til að breyta efnisþáttum í lagaákvæðum sakborningum í óhag.

    4. Sanna þarf sök. Sönnunarbyrði hvílir á handhafa ákæruvalds.

    5. Við meðferð máls á áfryjunarstigi þarf að gæta þess að dæma sama mál og dæmt var á neðra dómstigi. Til endurskoðunar eru úrlausnir áfrýjaðs dóms; ekki annað.

    6. Sakborningar eiga rétt á að fá óheftan aðgang að gögnum sem aflað hefur verið við rannsókn og meðferð máls.

    7. Sakborningar eiga að fá sanngjarnt tækifæri til að færa fram varnir sínar.

    8. Dómarar verða að hafa hlutlausa stöðu gagnvart sakborningum.

    Þessar reglur kunna að leiða til þess að sekur maður verði sýknaður í dómsmáli gegn honum. Það er gjaldið sem við greiðum fyrir að geta kallast réttarríki.