Réttlæti úthlutað

Það er stundum næstum því sorglegt að fylgjast með stjórnmálaátökum dagsins í landi okkar og virða fyrir sér forsendurnar sem þau byggjast á. Núna eru sagðar fréttir af launatilfærslum fyrir milligöngu ríkissjóðs. Þeir fjármunir eru auðvitað sóttir í vasa skattgreiðenda. Tilfærslur fjár eiga sér stað í stórum stíl m.a. með auknum álögum á eigendur bifreiða o.fl. Um leið hefjast svo auðvitað deilur um þá úthlutun réttlætis sem í þessum ráðstöfunum felst. Sumir telja sig hlunnfarna. Þeir hefðu átt að fá stærri skerf af nægtaborði úthlutunarsinna. Það var allt fyrirséð. Lítið er hins vegar talað um þann hugmyndafræðilega grundvöll sem þessar aðgerðir með reglusetningu byggjast á, hvað þá að menn velti fyrir sér hvert við stefnum með því að haga skipan mála með þeim hætti sem hér um ræðir.

Þeir sem kveðast nú styðja svona ráðstafanir í þágu ætlaðs réttlætis ættu að spyrja sjálfa sig hver sé grundvöllurinn fyrir því samfélagi sem við öll erum í við annað fólk. Erum við ekki sjálf grunneiningin? Við höfum auðvitað aldrei verið beðin um að semja okkur inn í samfélag við aðra. Flest teljum við samt að okkur beri siðferðileg skylda til þátttöku í slíku samfélagi. Ástæðan er nábýlið við aðra og óhjákvæmileg sameiginleg viðfangsefni okkar og þeirra. Þess vegna beygjum við okkur flest undir að teljast þátttakendur í sameiginlegu skipulagi með öðru fólki.

Meginhugmyndin hlýtur samt að vera sú að einstaklingurinn í slíku samfélagi sé grunneiningin. Hann verður ekki til fyrir samfélagið heldur verður samfélagið til vegna hans og annarra einstaklinga sem þar er að finna. Hlutverk þess getur aldrei orðið að taka ákvarðanir um sérstök málefni hans eða aflétta ábyrgð hans á ákvörðunum sem hann sjálfur hefur tekið um sín eigin málefni. Það hefur miklu fremur því hlutverki að gegna að vernda réttindi hans fyrir ásókn annarra. Þessi hugsun mótar þýðingarmikil grunnviðhorf í stjórnskipun okkar og lögum. Til dæmis er það almenn meginregla í okkar réttarkerfi að frelsi manna til orða og athafna eigi helst ekki að takmarkast af öðru en réttindum annarra. Samt reyna atkvæðakaupendur stjórnmálanna daglega að þynna þessi viðhorf út með aðgerðum sínum. Og kjósendur hafa í skammsýni sinni tilhneigingu til að selja atkvæðin þeim sem best býður. Pyngja dagsins er þyngri hjá þeim flestum en fylgispekt við hugsjónir frelsis og ábyrgðar.

Það skiptir sköpum fyrir velferð og hamingju manna að njóta frelsis til að stjórna eigin lífi og taka ákvarðanir um hagi sjálfs sín. Þessu verður að fylgja ábyrgð þess manns sjálfs sem í hlut á. Það er lykilatriði. Í samfélagi mannanna er auðvelt að greina alls kyns vandamál sem einstaklingar og hópar eiga við að stríða. Úrræði dagsins felast í að vilja taka á vandanum með opinberum afskiptum og forsjá og forða mönnum frá að bera ábyrgð á sjálfum sér. Úthlutun réttlætis nú vegna „skuldavanda heimilanna“ er af þessum toga. Kannski á stjórnmálastefna ríkisafskipta, sem ráðið hefur málum í landinu undanfarna áratugi, sinn þátt í að menn sjá ekkert athugavert við það þjóðskipulag sem úthlutar réttlæti með lagareglum. Menn sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Allir stjórnmálaflokkar taka þátt í þeirri forsjárhyggju sem í þessu felst. Enginn valkostur býðst um annað.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur